Salka Sól Eyfeld og Arnar Freyr Frostason eru nýgift og eiga von á sínu fyrsta barni. Hamingjan er algjör en það hefur tekið þau þrjú ár og kostað blóð, svita og tár, djúpa sorg og mikla erfiðleika að ná þessu markmiði.
Salka og Arnar Freyr Frostason giftu sig fyrir nokkrum vikum og eiga, eins og alþjóð veit, von á sínu fyrsta barni, dóttur. Það hefur verið langt og strangt ferli að verða barnshafandi og Salka Sól hefur tjáð sig um sorgina sem fylgir því að geta ekki orðið ólétt í einlægum færslum á samfélagsmiðlum. En hversu langt og erfitt hefur það ferli verið og eru þau ekki að springa úr hamingju yfir að því skuli vera lokið?
„Ég er bara á bleiku skýi, annað er ekki hægt,“ segir Salka Sól og bókstaflega ljómar öll. „Maður þyrfti eiginlega að taka sér svona mánaðarfrí eftir brúðkaup bara til að ná sér niður. Við erum reyndar ekki búin að fara í brúðkaupsferðina, ætlum að bíða með það þangað til litli lurkurinn mætir en þá ætlum við að fara til Balí og reyna að vera þar í einhvern tíma í húsi sem vinur okkar á, vitum ekki alveg enn þá hversu lengi. En við förum örugglega. Það hafa margir sagt mér að þeir hafi ætlað að bíða með brúðkaupsferðina og séu ekki enn farnir tuttugu árum síðar þannig að við ætlum að passa að það gerist ekki.“
Spurð hvenær von sé á erfingjanum í heiminn dregur Salka Sól við sig svarið, en segir svo að það verði í lok árs, hún vilji þó ekki gefa neina opinberlega yfirlýsingu um nákvæma tímasetningu. „Ég er að reyna að halda einhverju prívat,“ segir hún og hlær.
Rosalegur kvíði og andlegur sársauki
Salka Sól og Arnar Freyr byrjuðu saman fyrir fjórum árum, en höfðu vitað hvort af öðru áður verandi í sama bransa.
„Við áttum fjögurra ára skotafmæli á sunnudeginum um verslunarmannahelgina,“ segir hún. „Við könnuðumst við hvort annað en þessa verslunarmannahelgi vorum við að spila á sama giggi á Akureyri og þá urðum við skotin hvort í öðru. Þannig að sunnudagurinn um versló er alltaf svolítið dagurinn okkar og við reynum að verja honum saman þótt það sé oft mjög erfitt þar sem við erum alltaf að spila hvort á sínum endanum á landinu um þá helgi. Það er eiginlega óheppilegasti dagur ársins fyrir okkur tónlistarverkafólkið.“
Fljótlega eftir að alvara var komin í sambandið fóru Salka og Arnar að leggja drög að því að eignast barn en það gekk ekki átakalaust fyrir sig.
„Við vissum alveg frá byrjun að okkur langaði til að vera saman og stofna fjölskyldu,“ útskýrir Salka. „Mig hafði reyndar grunað í þónokkurn tíma að ég gæti átt erfitt með að verða ólétt, en ég hafði aldrei látið reyna á það. Þegar við Arnar byrjuðum saman sagði ég honum fljótlega frá því og þegar við vorum búin að vera saman í um það bil ár ákváðum við að þetta mætti alveg gerast. Það hins vegar gerðist ekki neitt þannig að ég fór að fara til kvensjúkdómalæknisins míns en hann fann aldrei neitt að.
„Það var orðið mjög erfitt að upplifa þessa sorg á fjögurra vikna fresti og ég fékk enn fleiri lyf…“
Ég var alveg hætt að trúa honum svo ég ákvað að fara til annars læknis og þá var ég send í aðgerð á eggjaleiðurunum því þeir voru alveg stíflaðir. Þá héldum við að þetta myndi nú gerast en ekkert gerðist þannig ég fór á alls kyns hormónalyf og töflur og sprautur sem var alveg hrikalegt álag. Í hverjum einasta mánuði mætti túrinn hins vegar á hárréttum tíma og mér leið eins og ég væri í ástarsorg í hvert einasta skipti. Það var orðið mjög erfitt að upplifa þessa sorg á fjögurra vikna fresti og ég fékk enn fleiri lyf, alls kyns meðöl sem áttu að vera kraftaverkaformúlur en ekkert gerðist. Þetta var farið að taka svo mikið á og ferlið þegar maður var að uppgötva ófrjósemina var hræðilega langt. Þá fer maður að lesa sér til og því fylgir rosalegur kvíði því þá fær maður sögurnar af öllum pörunum sem hættu saman eftir að hafa farið í fimmtán aðgerðir og tæknifrjóvgun og allt það. Maður varð bara alveg skíthræddur við þetta allt saman og kvíðinn og andlegi sársaukinn varð nánast óbærilegur, fyrir nú utan allt þetta hormónafokk sem ég var að sprauta í mig og taka inn.
Á þessum tímapunkti vorum við Arnar alveg viss um að okkur langaði til að eignast barn og mjög upptekin af því. Það kom samt að því að ég hugsaði að ég gæti ekki meira og stakk upp á því að við færum á fund hjá Íslenskri ættleiðingu til að athuga hvort sú leið væri fær, ég bara gat ekki látið líkama minn ganga í gegnum meira. Gat ekki hugsað mér að ganga í gegnum tæknifrjóvgunarferlið, hvorki andlega né líkamlega. Þótt Arnar stæði við hliðina á mér eins og algjör klettur þá gat ég bara ekki lagt þessar endalausu skapsveiflur á sambandið. Og þessa ástarsorg, ég get ekki lýst tilfinningunni betur, ég hef verið í ástarsorg og þetta var nákvæmlega sama tilfinningin.“
Reyndi að eignast frjósemisstyttu
Þau Salka og Arnar mættu því á fund hjá Íslenskri ættleiðingu en komust þá að því að sú leið var hvorki auðveld né fljótfarin.
„Þá rákumst við á nýjan vegg,“ segir Salka og andvarpar. „Til að mega sækja um þurftum við að hafa verið skráð í sambúð í fimm ár eða gift í þrjú ár þannig að við sáum fram á að það gæti hugsanlega gerst eftir sjö ár að við fengjum að ættleiða barn. Það var ekki beint það sem okkur langaði til. Þá kom í mig uppgjöf, ég bara sá ekki leið út úr þessu.“
Spurð hvort hún hafi þá verið búin að sætta sig við að þetta myndi aldrei ganga neitar Salka því.
„Nei, nei, það gerði ég nú aldrei,“ segir hún. „Ég vissi að þetta myndi ganga einhvern veginn, einhvern tímann, en vá, hvað það var erfitt að byrja að sætta sig við það að þetta gæti tekið mjög langan tíma. Ég var alltaf að lesa mér til um reynslu annarra af þessu en ég veit ekki hversu mikið það hjálpaði að lesa allar hryllingssögurnar.
Ég var komin á það stig að ég var farin að reyna að redda mér frjósemisstyttum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hafði heyrt af einhverri konu sem hafði eignast þríbura eftir að hafa eignast frjósemisstyttu og var handviss að það væri það sem ég þyrfti. Svo sá ég grein um einhverja styttu í Flórída sem hafði þann töframátt að pör sem snertu hana urðu ólétt á stundinni og vildi endilega að við færum til Flórída. Ég var orðin svo þreytt á að eitra fyrir líkama mínum og koma honum úr jafnvægi og vildi bara finna einhverja aðra lausn.“
Ákváðu á staðnum að fara í tæknifrjóvgun
Svo kom að því að þau ákváðu að hætta að vera svona upptekin af því að eignast barn og fara bara að njóta þess að vera par aðeins lengur. Málin eru þó engan veginn svo einföld.
„Eins mikið og maður reynir að hætta að hugsa um þetta þá er það bara ekkert hægt,“ útskýrir Salka. „Þú ert bara stanslaust að ljúga að sjálfri þér að þú sért hætt því. Ég veit ekki hversu margir hafa sagt mér sögur af því þegar einhver frænka þeirra var að reyna að eignast barn og hætti svo að hugsa um það og þá það. Ég var orðin mjög þreytt á þeirri sögu. Maður hættir ekkert bara allt í einu að hugsa um þetta. Á þessum tíma ákváðum við að gifta okkur með pompi og prakt og biðja fólk að gefa okkur ekki gjafir heldur leggja pening í frjósemissjóð og stefna að tæknifrjóvgun. Ég var búin að reyna öll trixin í bókinni; breyta mataræðinu, hætta að drekka, borða ekki kolvetni og svo framvegis, og svo framvegis, ég var búin að prófa allt, en ekkert gekk og varð að sætta mig við að tæknifrjóvgun væri eina leiðin, ég var bara ekki tilbúin í hana strax.“
Þegar hér var komið komið sögu gripu örlögin í taumana og Salka og Arnar ákváðu að láta slag standa og reyna tæknifrjóvgun.
„Já, það var vegna þess að vinafók okkar tilkynnti að þau ættu von á barni – alveg óvart,“ segir Salka og hlær. „Ég man að við Arnar litum hvort á annað og bara ákváðum á staðnum að fara á fund um tæknifrjóvgun og kynna okkur ferlið. Ég var búin að núllstilla líkama minn aðeins og alveg tilbúin að fara í það ferli þannig að við ákváðum að láta reyna á þetta fyrir brúðkaupið. Við byrjuðum á því að fara á fund í október á síðasta ári. Ég setti mig líka í samband við stelpu sem ég þekki ekki neitt en hafði séð á Instagram að væri að ganga í gegnum þetta ferli og við fórum og hittum það par. Þau sögðu okkur frá því hvernig þetta hefði verið hjá þeim og við ákváðum að láta reyna á þetta. Og það gekk upp í fyrstu tilraun! Þetta var samt enginn hægðarleikur, þetta var erfitt ferli og maður var bara á nálum í nokkra mánuði og alveg óskaplega hræddur. Svo þurftu allir að vera að segja manni endalausar sögur af frænda systur mömmu sinnar sem hafði gengið í gegnum þetta og lent í þessu og hinu og það er ekki beint það sem maður vill heyra á þessum tímapunkti. Ég var farin að segja fólki að sleppa þessum sögum, ég þyrfti ekkert á því að halda að heyra þær. Mér finnst fínt að ræða þetta við fólk sem hefur sjálft gengið í gegnum þetta en ég nenni ekki að heyra sögur af einhverjum fjarskyldum ættingja sem gerði þetta einhvern tímann. Ég veit alveg að fólk meinar þetta vel, en þetta er bara svo innilega ekki það sem maður vill heyra.“
Trúði ekki að hún hefði sagt „ég er ólétt“
Spurð hvernig tilfinning það hafi verið þegar kom í ljós að uppsetningin hafði tekist fer Salka öll á flug.
„Þetta var þannig að við fórum í uppsetningu og það náðist bara eitt egg í frysti,“ útskýrir hún. „Og ef það hefði ekki tekist hefðum við þurft að ganga í gegnum allt hormónaferlið aftur. Ég hélt reyndar að það myndi fara verr í mig en það gerði en ég held að spenningurinn og æðruleysið hafi hjálpað mér í gegnum það.
„Ég var svo ofboðslega hrædd um að ég myndi missa fóstrið. Eiginlega alveg skelfingu lostin.“
Eftir uppsetninguna fórum við í fjölskylduferð til Berlínar með fjölskyldunni hans Arnars. Við þurftum að bíða í tvær vikur áður en ég mátti pissa á óléttupróf og sjá hvort eggið hefði fest sig. Við vorum auðvitað á nálum, ég held að þetta séu erfiðustu tvær vikur sem við höfum þurft að lifa. Einn daginn gat ég ekki beðið lengur og stalst til að nota óléttuprófið aðeins fyrr en ég átti að gera og fékk jákvætt svar. Við bara trúðum þessu ekki! En gleðin var svakaleg. Svo komu tólf vikur af kvíðakasti hjá mér. Ég var svo ofboðslega hrædd um að ég myndi missa fóstrið. Eiginlega alveg skelfingu lostin. Margir reyndu að róa mig með því að sá ótti væri nú bara eðlilegur, og það er sjálfsagt rétt, en þetta er samt ógeðslega óþægilegt því þráin og löngunin eftir því að þetta myndi gerast var svo sterk. Ég trúði ekki fyrst að ég hefði sagt upphátt að ég væri ólétt, ég hélt ég myndi aldrei fá að segja það. Við vorum búin að bíða svo lengi og þetta var efst á óskalistanum okkar. En eftir þrjá mánuði jafnaði ég mig nú, sem betur fer.“
„Ég trúði ekki fyrst að ég hefði sagt upphátt að ég væri ólétt, ég hélt ég myndi aldrei fá að segja það.“
Salka segir meðgönguna hafa gengið eins og í sögu og hún ekki fengið neina meðgöngukvilla.
„Ég var auðvitað gríðarlega þreytt þarna fyrstu þrjá mánuðina,“ segir hún. „Það voru nokkrar sýningar á Ronju sem ég þurfti virkilega að harka af mér til að komast í gegnum. Á einni sýningunni var ég næstum búin að leika að það liði yfir mig til að tjaldið yrði dregið fyrir, en sem betur fer gerði ég það nú ekki, ég náði að halda þetta út. Annars hefur allt gengið vel og allt er eins og það á að vera eftir því sem ljósmóðirin segir.“
Spurð hvort þetta ferli sé ekki hræðilega dýrt viðurkennir Salka að vissulega kosti þetta mikið og ekki hafi bætt úr skák að á meðan þau voru í ferlinu hafi lögum um niðurgreiðslur verið breytt.
„Við byrjuðum í ferlinu fyrir áramótin síðustu og um áramótin var lögunum breytt þannig að niðurgreiðslur til fólks sem fer í tæknifrjóvgun voru felldar niður,“ segir hún. „Ég skil það að vissu leyti. Það eru forréttindi að eignast barn, það eru ekki mannréttindi. En á sama tíma eru það bara einkareknar stofur sem bjóða upp á tæknifrjóvgun hér heima sem hækkar auðvitað verðið. Mér finnst þetta vera lýðheilsumál vegna þess að þetta fer afskaplega illa í mann. Maður er brjálaður í skapinu, óskaplega kvíðinn og þetta veldur ótrúlegri vanlíðan, bæði að komast að því að maður geti ekki eignast barn eftir venjulegum leiðum og að ganga í gegnum tæknifrjóvgunarferlið.
„Maður er brjálaður í skapinu, óskaplega kvíðinn og þetta veldur ótrúlegri vanlíðan…“
Ég treysti mér aldrei til að tala um þetta á meðan ég var í ferlinu, ég gat ekki hugsað mér það vegna þess að ég var svo hrædd um að þetta myndi ekki ganga. Svo ákvað ég bara mjög meðvitað að fyrst að þetta gekk nú hjá okkur þá væri rétt að segja frá því. Líka vegna þess að það undirbýr mann enginn undir þetta, maður lærir bara að fólk verði ástfangið og ákveði að vera saman og eignast barn, en það er bara alls ekkert svo einfalt. Ég hef uppgötvað mjög margt í gegnum þessa reynslu og fannst rétt að deila því vegna þess að ég veit að það eru mörg pör í sömu stöðu og við vorum.“
Vildi ekki bera harm sinn í hljóði
Þrátt fyrir óttann við að missa fóstrið fyrstu þrjá mánuðina segist Salka hafa ákveðið að segja öllum sem skiptu hana máli frá því að hún ætti von á barni og takast ekki ein á við óttann.
„Ég var ótrúlega opin með þetta, veit að ég er opinber manneskja og allt sem segi á Twitter og Instagram fer í fréttir, en ég ákvað að vera ekki í neinum feluleik. Ég hafði til dæmis komist að því í gegnum allan aðdragandann að 15-20 prósent þungana enda í fósturláti, sú tala er ótrúlega há og mér finnst ekki rétt að það sé aldrei talað um það hvað þetta er algeng reynsla. Ég vildi geta sagt fólkinu mínu frá þessu og ef eitthvað hefði komið upp á hefði ég bara sagt þeim það líka í staðinn fyrir að bera harm minn í hljóði. Ég held að það sé hollara.“
Salka sagði frá því í Instagram-færslu eftir að hún varð ólétt að hún hefði aldrei talað um sorgina sem fylgdi því að verða ekki ólétt, bar hún þann harm alveg í hljóði?
„Nei, ég gerði það nú ekki,“ segir hún. „Ég talaði ekki um sorgina opinberlega en ég var mjög opin um hana við fólkið mitt, það vissu allir af þessu. Og foreldrar mínir og nánustu vinir hafa vitað af óléttunni alveg síðan við pissuðum á prófið. Ferðin til Berlínar breyttist í algjöra gleðisprengju við þær fréttir. Það var æðislegt.“
Verður þráhyggja á háu stigi
Salka segir reynsluna af því að takast á við ófrjósemina og síðan upplifa það að verða ólétt að mörgu leyti hafa breytt sýn hennar á lífið.
„Auðvitað breytir þetta manni,“ segir hún hálfhneyksluð á svona fáránlegri spurningu. „En ófrjósemin er bara eitt af þeim áföllum sem maður tekst á við í lífinu. Það er hins vegar áfall sem ég bjóst aldrei við að þurfa að takast á við og ég hafði aldrei heyrt um. Maður heyrir af því þegar einhver í fjölskyldunni veikist en það er ekki mikið talað um það að geta ekki eignast börn. Það eru hins vegar ótrúlega margir sem ganga í gegnum þetta og mér finnst alveg kominn tími til að við förum að tala um það. Þetta hefur svo djúpstæð áhrif á mann. Maður sér börn út um allt og finnst allir vera að óléttir eða nýbúnir að eignast barn. Svo verður maður pínu reiður við fólk sem hefur eignast börn utan sambands án þess að vera neitt að reyna það, maður hugsar ekki voðalega rökrétt. Það var til dæmis ótrúlega erfitt að samgleðjast vinum sínum sem urðu óléttir. Maður gerði það auðvitað en samt var maður pirraður út í þau og píndist yfir þessu. En það hafði líka þær jákvæðu afleiðingar, eins og ég sagði áðan, að ýta okkur af stað í tæknifrjóvgunina. Þetta verður nefnilega þráhyggja á háu stigi og yfirtekur allt líf manns meira og minna.“
Það eru enn nokkrir mánuðir í fæðingu dótturinnar, hvernig ætlar Salka að verja þeim tíma? Er hún byrjuð á hinni frægu hreiðurgerð?
„Já, ég er aðeins byrjuð,“ segir hún hlæjandi. „Ég leyfði mér ekki að kaupa neitt sem tengdist barninu fyrr en eftir rúmar tuttugu vikur, en er að byrja á því. Ég bara skil ekki hvernig konur geta beðið eftir barninu svona lengi, ég vil fá að sjá hana núna! Ég veit alltaf af henni, sé hana þegar ég lít í spegil, finn fyrir henni og er alltaf að hugsa um hana. Eina ráðið til að geta þraukað þessa mánuði er að halda mér upptekinni. Ég er hress og elska að geta gert það sem mér finnst skemmtilegast að gera og er að „performera“ á fullu.
Ég nýt þess í botn að vera með bumbuna út í loftið, er búin að draga fram alla þröngu kjólana mína og ber hana eins og heiðursverðlaun. Ég hef alveg fengið nóg að gera þótt konur í bransanum væru búnar að segja mér að bíða með að tilkynna óléttuna eins lengi og ég gæti, því þegar fólk veit að þú ert ólétt hættir síminn að hringja. Það er sjálfsagt rétt hjá þeim í mörgum tilfellum en ég hef verið dugleg að láta fólkið sem ræður mig í vinnu vita að ég sé við góða heilsu og alveg nógu hraust til að vinna og syngja. Það hafa flestir verið alveg ótrúlega almennilegir og ég ætla rétt að vona að síminn hætti ekki að hringja þótt maður sé óléttur. Ef ég treysti mér ekki til að vinna þá segi ég bara nei, ekki flóknara en það. Ég verð svo með eineltisverkefnið okkar í skólum í haust og mun leika Ronju fyrsta mánuðinn eftir að sýningar hefjast aftur, þannig að tíminn verður vonandi fljótur að líða þótt ég sé svona spennt fyrir að fá að sjá dóttur mína.“
Myndir / Unnur Magna
Förðun / Hildur Emilsdóttir, förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi