Hópur kaupmanna hefur brugðið á það ráð að henga upp svarta ruslapoka í búðargluggum sínum í miðbænum til að mótmæla götulokunum.
Gunnar Gunnarsson, talsmaður Miðbæjarfélagsins í Reykjavík, segir í Morgunblaðinu að þetta sé gert þar sem ekki þýði að ræða málin við meirihlutann í Reykjavík. „Með þessum gjörningi erum við fyrst og fremst að reyna að ná til almennings. Það þýðir ekki að tala við meirihlutann í Reykjavík,“ útskýrir hann og segir um sé að ræða framtíð verslana við Laugaveg.
Hátt í þrjátíu verslunarmenn munu taka þátt í þessum táknrænu mótmælum í dag, en ruslapokarnir eiga að tákna það sem kemur til með að gerast með óbreyttu áframhaldi: rekstrarstöðvun.