Miðflokkurinn er að marka sérstöðu í íslenskum stjórnmálum með getu sinni til að taka flókin mál, smætta þau niður í einfaldar lausnir og stilla sér upp sem varðmanni fullveldis og almennings í þeim.
Leiðtogi flokksins hefur náð góðum tökum á skynhyggjustjórnmálum og virðist geta staðið af sér ótrúlegustu hneykslismál. Það síðasta, Klausturmálið, hefur flýtt för flokksins á jaðar stjórnmálanna. Þar virðist hann kunna vel við sig.
Á vetrarfundi Miðflokksins um síðustu helgi var svo samþykkt stjórnmálaályktun sem gaf mjög skýrt til kynna hvert flokkurinn ætlar að stefna í sinni pólitík.
Þar kom fram að flokkurinn vilji þjóðlegar áherslur, og að hann hafni með öllu þriðja orkupakkanum. Að horfið verði frá innflutningi á ófrosnu kjöti og eggjum, sem dómstólar hafa þegar sagt að sé brot á alþjóðasamningum. Að afnema eigi verðtryggingu húsnæðislána án þess að tilgreint sé hvernig eigi að gera það. „Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar,“ stóð neðst í ályktuninni.
Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á fundinum að þriðji orkupakkinn væri „stórhættulegur“ og hann sé eitt „tannhjól kerfisins“ sem Miðflokkurinn vilji berjast gegn. Flokkurinn hafi þá stefnu að ráða eigin örlögum en ekki láta það í hendur andlitslausra stofnanna út í heimi.
Fyrir liggur að þessi stefna á sér stuðningsmenn hérlendis. Þrátt fyrir Panamaskjölin, allar samsæriskenningarnar og Klausturmálið þá er Miðflokkurinn að ná vopnum sínum að nýju samkvæmt könnunum. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist fylgi hans níu prósent, eða jafn mikið og fylgi Framsóknarflokksins.
Lestu fréttaskýringuna í heild sinni á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.