Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Heppinn að vera ekki steindauður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, missti systur sína úr krabbameini fyrir einu og hálfu ári og skömmu síðar lenti hann í alvarlegu hjólreiðaslysi sem hefði getað kostað hann lífið. Hann segir þessa reynslu hafa breytt viðhorfi sínu til lífsins og kennt sér að meta betur það sem hann hefur. Hann ætlar að hlaupa hálft maraþon til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun.

„Ég hef aldrei hlaupið heilt maraþon en þetta er líklega fjórða eða fimmta hálfmaraþonið sem ég hleyp,“ svarar Ólafur aðspurður hvort hann hafi lengi stundað maraþonhlaup. „Ég er reyndar gamall antisportisti en varð óvart svolítið liðtækur hlaupari vegna þess að ég og Jón vinur minn vorum með endalausan skæting við íþróttakennarann okkar í MR og hann var orðinn svo leiður á okkur að hann sendi okkur alltaf út að hlaupa. Svo hafði ég ekki hlaupið lengi en þegar ég var kominn um fertugt og farinn að horfa á ístruna á mér stækka, áttaði ég mig á að ég þyrfti sennilega að fara að gera eitthvað í því hvað ég hreyfði mig lítið. Síðan hef ég hlaupið býsna mikið og nokkuð reglulega tekið þátt í keppnishlaupum.“

Spurður hvort hann sé kominn í þann hóp hlaupara sem fari til útlanda oft á ári til að hlaupa þar um fjöll og firnindi svarar Ólafur því til að hann sé reyndar ekki kominn þangað en það sé þó farið að kitla hann pínulítið að taka þátt í maraþonum erlendis.

„Ég hef ekki gert það enn þá, nei,“ segir hann. „Ég er reyndar aðeins að láta mig dreyma um það að fara kannski til New York, Boston eða Barcelona til þess að hlaupa maraþon en hvort af því verður kemur í ljós.“

Ólafur hleypur til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Hann segir dauða systur sinnar þó ekki vera einu ástæðuna fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins.

„Það er lengri saga á bakvið það,“ segir hann. „Ég átti tvær systur, Elínu og Þóru, sem voru þrettán og ellefu árum eldri en ég. Elín greindist með krabbamein í legi árið 2014 en hafði betur í þeirri baráttu og er frísk í dag. Þóra greindist 2016 með brjóstakrabba og það leit út fyrir að hún hefði líka sigrast á sínu meini en svo blossaði það upp aftur árið 2017 og hún dó í apríl í fyrra. Þær leituðu báðar mikið til Ljóssins og höfðu mikinn styrk af þeirri frábæru þjónustu sem þar er í boði. Það vill reyndar líka svo til að nýlega varð konan mín, Ragnheiður Agnarsdóttir, stjórnarformaður Ljóssins og sagan á bakvið það er að hún í fyrsta lagi missti fyrri manninn sinn, Þórð Friðjónsson, úr krabbameini árið 2011 og síðan greindist stjúpmóðir hennar, Rósa Steinsdóttir, með krabbamein 2016 og hefur líka sótt mikið til Ljóssins. Tengdamamma dóttur minnar, Guðrún Kristín Svavarsdóttir, er líka í hópi skjólstæðinga Ljóssins. Þannig að Ljósið á það eiginlega alveg inni hjá mér að ég leggi pínulítið á mig fyrir það.“

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu. Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Óttinn við krabbamein aldrei nagað
Spurður hvernig hann hafi sjálfur tekist á við veikindi systra sinna, hvort hann hafi leitað sér aðstoðar í ferlinu, svarar Ólafur að hann hafi reyndar gert það.

- Auglýsing -

„Eftir að Þóra hafði greinst í annað sinn fór ég í fjölskylduviðtal með Elínu systur minni hjá Ljósinu,“ upplýsir hann. „Það var afskaplega gott og hjálpaði manni að hugsa eftir réttum brautum og vera stuðningur bæði við þann veika og aðra aðstandendur, held ég.“

Það er nærtækt að spyrja hvort Ólafur sé ekki sjálfur hræddur um að greinast með krabbamein eftir þessa reynslu en hann segist reyndar ekki vera sérstaklega hræddur um það, þótt hann geri sér að sjálfsögðu grein fyrir því að hann gæti fengið krabbamein eins og hver annar.

„Systur mínar létu rannsaka það hvort krabbameinið væri að einhverju leyti ættgengt en það kom ekkert í ljós sem bendir til þess,“ útskýrir hann. „Ég er líka undir mjög góðu eftirliti hjá konunni minni sem gengur hart eftir því að ég fari reglulega í alls konar tékk, eins og maður á auðvitað að gera þegar maður er kominn um og yfir fimmtugt, og óttinn við það að fá krabbamein hefur aldrei nagað mig. Það er hins vegar gott að láta fylgjast vel með sér og hafa forvarnirnar í lagi.“

- Auglýsing -
Ólafur hleypur til að safna fyrir Ljósið til minningar um systur sína, Þóru Stephensen, sem lést eftir baráttu við krabbamein í apríl 2018. Það eru þó fleiri ástæður fyrir því að hann valdi að styrkja starfsemi Ljóssins. Mynd/Unnur Magna

Væri steindauður ef hjálmurinn hefði ekki verið
Þremur mánuðum eftir að Þóra systir hans lést lenti Ólafur í hjólreiðaslysi, reyndar á afmælisdegi hennar, og hefur síðan farið í hverja aðgerðina á fætur annarri til að ná fullri hreyfigetu á ný. Hver voru tildrög slyssins?

„Á einum af þeim fáu fallegu dögum sem við fengum á höfuðborgarsvæðinu í fyrrasumar vöknuðum við Ragnheiður eldsnemma og ákváðum að nýta morguninn til að fara í hjólatúr,“ segir Ólafur. „Verandi gamall antisportisti lærði ég ekki að hjóla fyrr en ég var tuttugu og átta ára gamall en hef dálítið hjólað síðan. Eftir að ég kynntist Ragnheiði, sem er dálítið hjólaóð, keypti ég mér fjallahjól og fékk svo lánað racer-hjól hjá félaga mínum. Var búinn að prófa það á hjólastígum innanbæjar í einhverja daga og fannst það ógurlega gaman þannig að ég var mjög spenntur fyrir því að hjóla Nesjavallaveginn þennan dag. Þegar við vorum á leiðinni til baka var ég kominn á milli 30 og 40 kílómetra hraða, þegar ég lenti með framdekkið í sprungu á veginum. Síðan tók við lausamöl þegar ég var að reyna að ná jafnvæginu aftur og svo bara man ég ekki meira. Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður, en ég slapp með höfuðhögg og svolítið af beinbrotum.

„Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér, andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður.“

Viðbeinsbrotið var erfiðast viðureignar en afleiðingarnar af höfuðhögginu voru þær að ég sá tvöfalt til að byrja með. Það gekk yfir á nokkrum vikum og mér var sagt að það væri ekkert óalgengt eftir heilahristing. Ég var frá vinnu í þrjár vikur en skrönglaðist svo af stað aftur og fór kannski of geyst, ég veit það ekki.

Viðbeinið var skrúfað saman með stálplötu en sú viðgerð hélt ekki, þannig að ég þurfti að fara í annan uppskurð í desember þar sem sett var í mig veigameiri stálplata. Hún var svo tekin úr mér aftur núna í maí með þriðju skurðaðgerðinni og síðan er ég búinn að vera að reyna að koma mér aftur í form. Ég hef líka verið duglegur að synda og á tímabili vakti ég mikla athygli og fólk gaf sig gjarnan á tal við mig í Laugardalslauginni af því að ég synti bara með annarri hendinni. Nú er ég farinn að geta gert flest sem ég gat fyrir ári. Áhuginn á hjólreiðum hefur þó heldur dalað, ég er búinn að fara í einn hjólatúr í sumar, nokkurn veginn réttu ári eftir að ég datt, og ég verð að viðurkenna að fyrstu kílómetrana var ég bara skíthræddur en það rjátlaðist sem betur fer af mér. En ég hugsa að ég fari voðalega varlega í hjólreiðunum hér eftir. Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“

Ólafur viðurkennir að síðasta eina og hálfa árið hafi verið ansi erfitt en segist hafa tekist á við það sem upp á hefur komið með því að ræða öll mál við sína nánustu. Þessi reynsla hafi þó að ýmsu leyti breytt lífssýn hans.

„Fyrst og fremst finnst manni líf og heilsa ekkert sjálfsagðir hlutir lengur,“ segir hann hugsi. „Ég var mjög heppinn að slasa mig ekki verr í þessari byltu og er líka heppinn að vera laus við alls kyns illvíga sjúkdóma sem fólk er að glíma við allt í kringum mann. Þannig að í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

„Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur,“ segir Ólafur, sem er þekktur fyrir að hafa lagt sitt á vogarskálarnar í jafnréttisbaráttunni, var til að mynda lengi í stjórn UN Women á Íslandi og var einn af þátttakendum í He for She-herferðinni. Mynd/Unnur Magna

Engin eftirsjá og svekkelsi í farteskinu
Ég heyri að Ólafi er ekkert sérlega vel við spurningar mínar um persónulegar upplifanir hans þannig að við breytum um kúrs og förum að ræða atvinnu hans. Haustið 2014 hætti hann sem ritstjóri Fréttablaðsins með hárbeittum leiðara þar sem hann ásakaði eigendur blaðsins um afskipti af ritstjórnarstefnu þess. Höfðu þau skrif einhver eftirmál?

„Nei, nei,“ segir hann og brosir. „Ég reyni að gera mitt til að passa upp á það að þegar ég hætti einhvers staðar með hvelli verði sem minnst eftirmál af því. Það þurfti að segja ákveðna hluti eins og þeir voru en ég reyni að passa mig á því að bera ekki kala til nokkurs manns og paufast alls ekki í gegnum lífið með einhverja eftirsjá eða svekkelsi í farteskinu. Það er ein uppskriftin að hamingju og heilsu að láta slíkt eiga sig og skilja það bara eftir við veginn.“

Þegar Ólafur kvaddi Fréttablaðið og skipti um starfsvettvang hafði hann starfað við blaðamennsku síðan á unglingsaldri og ég á erfitt með að kyngja því að hann sakni hennar ekkert.

„Það kemur fyrir að mig langar til að vera á staðnum þegar mér finnst fjölmiðlarnir gleyma sínu mikilvæga aðhaldshlutverki og láta hjá líða að spyrja gagnrýninna spurninga eða varpa ljósi á bakgrunn mála,“ segir hann dræmt. „En svo læknast ég alltaf um leið þegar það rifjast upp fyrir mér hvernig vinnutíminn og álagið var í blaðamennskunni.“

Ólafur hefur ekki alveg sagt skilið við skriftirnar þótt hann sé hættur í blaðamennskunni, hann hefur verið mjög duglegur við að skrifa greinar sem tengjast nýju hlutverki hans sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, enda segir hann upplýsingamiðlun og umræður alltaf hafa verið sitt líf og yndi.

„Það kemur sér mjög vel í þessu starfi sem ég sinni núna,“ segir hann. „Þar er verið að halda á lofti ákveðnum málstað sem ég hef fylgt frá því að ég var rúmlega fermdur, sem sé áherslu á einstaklings- og athafnafrelsi og frjálsa verslun. Ég bind þó ekki trúss mitt neitt sérstaklega við ákveðinn flokk, ég er bara alþjóðasinnaður, frjálslyndur hægrimaður.“

„Að mæta á æfingu og syngja í þrjá klukkutíma þurrkar allar áhyggjur út eins og hendi sé veifað og maður verður alveg slakur. Það veitir sjálfsagt ekkert af í mínu tilfelli þar sem ofvirknigenið er ansi sterkt í mér,“ segir Ólafur, sem mun ekki aðeins taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun heldur einnig syngja með Sönghópnum Spectrum í Listasafni Íslands. Mynd/Unnur Magna

Langar ekki í starf kjörins fulltrúa
Margir hafa haft það á tilfinningunni að Ólafur stefni að frama innan stjórnmálanna en hann gefur lítið fyrir þær hugmyndir.

„Það er alveg hægt að halda því fram að ég hafi verið í pólitík með einum eða öðrum hætti síðan á unglingsárum,“ segir hann. „Ég var í stjórnmálaþátttöku í gamla daga með ungum Sjálfstæðismönnum, Samtökum ungra íhaldsmanna á Norðurlöndum og fleirum. Snertifletir blaðamennsku og stjórnmála eru margir og sömuleiðis snertifletir pólitíkur og svona hagsmunagæslu eins og ég er í núna en mig langar ekkert óskaplega í starf hins kjörna fulltrúa, mér sýnist að það sé ekkert sérstaklega öfundsvert hlutskipti og það er vel hægt að hafa áhrif með öðrum hætti.“

Eitt af þeim málum sem Ólafur hefur beitt sér fyrir að knýja fram breytingar á eru jafnréttismál kynjanna, hann var lengi í stjórn UN Women á Íslandi og var einn af þátttakendum í He for She-herferðinni. Hvað vakti upphaflega áhuga hans á jafnréttismálum, voru það áhrif frá eldri systrum hans tveimur?

„Að hluta til voru það áhrif frá þeim,“ viðurkennir hann. „Og líka frá mömmu sem hélt reglulega yfir mér ræður um jafnréttismál þótt þau pabbi væru að mörgu leyti í hefðbundnum kynhlutverkum. En það sem ýtti mér helst inn í aktífisma í þeim málum var að ég horfði upp á til dæmis fyrrverandi konuna mína og vinkonur mínar frá fornu fari, sem höfðu trúað því, eins og ég sjálfur, að þær ættu alla sömu möguleika og við strákarnir, upplifa það þegar þær komu út á vinnumarkaðinn að fá nærgöngular spurningar í atvinnuviðtölum. Eins og um hvort þær ættu börn, hvort þær ætluðu að eignast börn og svo framvegis, spurningar sem við strákarnir klárlega fengum ekki. Það var iðulega gefið í skyn að konur væru lélegri starfskraftar í fyrirtækjum en karlar og það endaði með því að ég setti mér það markmið að gera það sem ég gæti til að stuðla að því að karlmenn yrðu jafnlélegir starfskraftar og konur. Þannig var uppleggið að hvetja karlmenn til að axla sínar skyldur gagnvart fjölskyldunni en frá mínum bæjardyrum séð voru þetta afskaplega ljúfar skyldur og ég held að ég og margir aðrir hafi fyrst og fremst litið á það sem tækifæri til að geta sinnt heimili og börnum að fá það í gegn að feður fengju fæðingarorlof og sveigjanleika í vinnutíma sem nú orðið þykir víðast sjálfsagt. Á þessum tíma var fæðingarorlof feðra mjög framandi hugmynd og ég kom mér í karlanefnd jafnréttisráðs, sem þá starfaði, og varð síðar formaður hennar um það leyti sem elsta dóttir mín fæddist. Karlanefndin lagði fram tillögur um að fæðingarorlofskerfi þar sem réttinum var skipt jafnt milli feðra og mæðra og greiðslurnar tekjutengdar og það var mjög ánægjulegt að sjá hvernig þær hugmyndir náðu flugi og urðu að lögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2001. Það var mikil tímamótalöggjöf þótt það hafi komið ákveðið bakslag í það hvernig feður nýttu sér fæðingarorlofið vegna niðurskurðar á greiðslunum eftir hrun en það er sem betur fer smátt og smátt að lagast aftur.“

„Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“ Mynd/Unnur Magna

Einkalífið á ekkert erindi við alþjóð
Ólafur á sjálfur tvær dætur og einn son, framfylgir hann jafnréttishugsjón sinni í uppeldinu á þeim?

„Ég reyni að hafa muninn á því hvernig ég el þau upp sem allra minnstan,“ segir hann og hlær við. „Ég tók fæðingarorlof með þeim öllum heima. Þegar sú elsta fæddist áttu feður reyndar engan rétt á orlofi, ég hálfpartinn svindlaði það út úr Árvakri sem var minn vinnuveitandi á þeim tíma. Ritstjórarnir Styrmir og Matthías og Hallgrímur Geirsson framkvæmdastjóri voru sveigjanlegir í samningum eftir að þeir höfðu náð af sér undrunarsvipnum yfir því að karlmaður væri að biðja um fæðingarorlof. Það að vera heima með litlu barni þýðir að maður tengist því með öðrum hætti en þegar maður hefur ekki það tækifæri, þannig að mér finnst samband mitt við alla krakkana mína vera jafnnáið og reyni að veita þeim öllum sama uppeldi og sömu hvatningu og þann stuðning sem ég mögulega get. Hitt er svo annað mál að það verður ekkert umflúið að kynin eru ólík og strákurinn bara fleygði aftur í mann þessum dúkkum sem maður var að reyna að halda að honum og vildi fá sínar byssur. Ég veit ekki hvaðan það kom.“

Ólafur hefur það orð á sér að vera afskaplega prívat maður og ekki mikið fyrir að flíka sínu einkalífi, hefur það eitthvað breyst með breyttum áherslum í lífinu?

„Ja, krakkarnir mínir eru nú ekki endilega sammála því,“ segir hann glottandi. „Þeim finnst ég svo duglegur að birta myndir á Instagram þar sem hefur gleymst að spyrja hvort fólk væri búið að greiða sér og hafa sig til. En, jú jú, ég hef fengið tilboð um að ræða einkalífið í smáatriðum í einhverjum blaðaviðtölum en það á ekkert erindi við alþjóð.“

„Í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

Kórsöngur jákvæður fyrir líkama og sál
Eins og fram hefur komið segir Ólafur þá reynslu að ganga í gegnum erfið veikindi með systrum sínum og lenda sjálfur í alvarlegu slysi hafa kennt sér að leggja áherslu á aðra hluti en fyrr, er innifalið í þeirri áherslubreytingu að leggja meiri rækt við einkalífið?

„Það má alveg segja það,“ segir hann ákveðinn. „Það er orðið erfitt að ná mér á mannamót vegna þess hvað mér finnst gaman að vera heima hjá mér með fjölskyldunni. Eftir fjórtán ár á ritstjórastóli, þar sem maður er eiginlega alltaf í vinnunni, er líka stórkostlegt að komast að því að þegar maður á frí á kvöldin getur maður farið að rækta áhugamálin eins og ég er farinn að gera núna. Fyrir þremur árum fór ég að syngja með Sönghópnum Spectrum. Ég hefði aldrei komið fyrir þriggja klukkutíma kvöldæfingu í hverri viku og helgaræfingum, tónleikum og slíku með fram gamla starfinu mínu sem ritstjóri. Mér finnst þetta alveg óskaplega skemmtilegt og það hefur gefið mér mikið. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að syngja og krakkarnir mínir hafa haft orð á því að þau þyrftu að sæta því við messur á stórhátíðum að pabbi þeirra væri að reyna að yfirgnæfa kórinn. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um að ég gæti sungið í kór fyrr en tveir æskuvinir mínir, sem voru farnir að syngja með Spectrum, sögðust sjá á mér hvað mig langaði mikið til þess að vera með og hvöttu mig til að prófa. Þannig að ég lét tilleiðast að syngja fyrir kórstjórann og það satt að segja kom mér svolítið á óvart, að ég skyldi fá að vera með. Ég er afskaplega ánægður með það enda margsannað mál að kórsöngur hefur jákvæð áhrif á bæði líkama og sál. Að mæta á æfingu og syngja í þrjá klukkutíma þurrkar allar áhyggjur út eins og hendi sé veifað og maður verður alveg slakur. Það veitir sjálfsagt ekkert af í mínu tilfelli þar sem ofvirknigenið er ansi sterkt í mér en sem betur fer er mér að lærast að taka lífinu með ró.“

Og á þeim nótum sláum við botninn í samtalið enda þarf Ólafur að halda vel á spöðunum því það er ekki nóg með það að hann ætli að hlaupa hálfmaraþon á laugardaginn heldur mun hann einnig syngja með Spectrum í Listasafni Íslands sem hluta af dagskrá Menningarnætur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -