Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

„Hér á Íslandi erum við í stöðu til að gera meira fyrir börnin okkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er ótrúlegt hvernig sorgin og streitan sem fylgir sest að í líkamanum og tekur hann raunar yfir. Ég þarf reglulega að minna sjálfa mig á að draga djúpt andan og slaka á. Ég iðka núvitund. Besta lækningin er hins vegar að stinga nefinu í hálsakot dóttur minnar, finna lyktina af henni og hlusta á hana anda á meðan hún sefur. Í hálsakotinu hennar býr sakleysið og vonin,“

 

segir Hólmfríður Gísladóttir, fréttastjóri Mannlífs, í pistli í Mannlíf.

Hólmfríður segir að nú sé tiíminn til að horfa yfir farinn veg og fram á við. „Ég er melankólísk þessa dagana en vongóð engu að síður. Nú er tíminn til að horfa yfir farinn veg og fram á við, og fyrir mig persónulega að segja skilið við myrkrið og halda inn í ljósið. Síðustu tvö ár hafa verið þau erfiðustu sem ég hef upplifað. Margt hefur gengið á en það versta var að missa drenginn minn í fyrra, sem hefði orðið eins árs nú í desember. Það áfall, og sú sorg sem mun alltaf fylgja mér, svipti mig sakleysinu. En ég var orðin 37 ára þegar það gerðist og fyrir það verð ég ávallt þakklát.“

Hólmfríður bætir við að eftir því sem barnið verður eldra breytist áherslur foreldrana hvað barnið og uppeldi þess varða.

„Þegar ég varð fyrst ólétt fyrir tæpum þremur árum fórum við foreldrarnir að senda hvort öðru tengla sem vísuðu á góð ráð varðandi fæðinguna og fyrstu mánuðina. Þegar á leið breyttust áherslurnar; svefnvenjur sex mánaða, mjólkurinntaka átta mánaða, sjálfstæðisbaráttan átján mánaða … og svo framvegis. Nú erum við farin að spá fram í tímann og sendingarnar eru orðnar þyngri: Fimm merki þess að einhver sé að gera barninu þínu illt … og þar fram eftir götunum.

Og þar kemur melankólían inn. Það eru svo margir sem eru svo ungir þegar þeir þeir eru rændir sakleysinu. Sú hugsun læðist stundum að mér í hálsakotinu; það eru ekki öll börn elskuð svona mikið. Það eru ekki öll börn sem búa við svona mikið öryggi.“

- Auglýsing -

„Börn búa við vanrækslu, fátækt og ofbeldi“

Hólmfríður fer einnig yfir árið í útgáfu Mannlífs, en pistilinn birtist í síðasta blaði ársins, 48. tbl. „Á þessu ári höfum við birt fjölda frásagna af reynslu fólks og upplifun, af sorgum þess og sigrum. Flestar forsíðurnar prýddu fullorðin andlit en á bakvið mörg viðtalanna voru börn, sem koma sjálf við sögu annaðhvort beint eða óbeint. Við ræddum við móður sem missti son sinn þegar hann svipti sig lífi í kjölfar kynferðisofbeldis. Við sögðum frá konu sem hefur þurft að há harða baráttu til að fá meðferð fyrir alvarlega veikan son sinn. Við tókum viðtal við unga stúlku sem yfirvöld hugðust flytja úr landi … svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hólmfríður.

„Börn búa við vanrækslu, fátækt og ofbeldi. Þau upplifa veikindi, missi og sorg. Ég hef einhvern veginn alltaf reynt að selja mér þá hugmynd að sá hryllingur sem maður les um í erlendum miðlum eigi sér ekki stað á Íslandi. Að sú ógeðslega mannvonska sem fólk sýnir börnum annars staðar finnist ekki hér. Ég trúi því rétt mátulega en það sem ég veit, eða þykist vita, er að hér á Íslandi erum við í stöðu til að gera meira fyrir börnin okkar.

- Auglýsing -

Í því finn ég vonina. Við erum lítil þjóð. Það er hægt að koma til móts við einstaka barn; gera það sem gera þarf til að bæta líf þess til hins betra. Dæmi um þetta eru Jólasveinahjálparkokkarnir sem fjallað er um í þessu blaði. Hér á ekkert barn að þurfa að upplifa fátækt, hér á ekkert barn að upplifa ofbeldi og fá ekki hjálp. Við þurfum ekki og eigum ekki að senda saklaus og hjálparlaus börn úr landi og í óvissuna. Ég er hætt að strengja nýársheit en ég á mér barnslega ósk um að við gerum betur á næsta ári og öll ár þar á eftir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -