Verslunin Nexus hefur starfað í einni eða annarri mynd síðan árið 1992 og hefur til sölu myndasögur, spil, bækur, leikföng, DVD-myndir, veggspjöld og fleira sem tengja má við nördisma. Verslunin flutti nýlega starfsemina í kjallarann í Glæsibæ, þar sem Útilíf var um árabil, og jók umfang sitt um helming auk þess sem gríðarstór spilasalur verður á staðnum. Við hittum fjóra starfsmenn Nexus til að fá innsýn í starfið og áhugasvið þeirra.
Safnar Harry Potter-bókum á mismunandi tungumálum
Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir hefur starfað í Nexus í bráðum ár og sérhæfir sig í borðspilum, bókum, kvikmyndum og gjafavöru. „Mitt fyrsta áhugamál innan nördismans voru Harry Potter og aðrar fantasíubækur. Síðan hafa spilin komið inn með árunum því það er svo gaman að geta hitt annað fullorðið fólk og leikið sér,“ segir Bryndís. „Ég safna bæði borðspilum og Harry Potter-bókum sem hafa verið gefnar út um heim allan á ýmsum tungumálum. Þær hafa allar sinn sjarma, eru með mismunandi forsíðum og stundum er ólíkum skreytingum bætt við inn í bækurnar. Sem áhugakonu um Harry Potter og þýðanda finnst mér þetta mjög áhugavert, ekki síst menningarlega séð.“
Eigandi Nexus er Gísli Einarsson og verslunin hefur sérstöðu á heimsvísu þegar litið er til úrvals. „Oft eru svona verslanir á erlendri grundu minni og sérhæfðari en hér er lagt upp úr miklu og fjölbreyttu úrvali,“ heldur Bryndís áfram. „Það er líka ákveðin upplifun að koma í Nexus, handleika vöruna og fá persónulega þjónustu frá fólki sem gjörþekkir efniviðinn. Hér er alltaf kósí stemning og mér finnst mest spennandi að fylgjast með unglingunum, sérstaklega þeim sem búa úti á landi. Hér birtist þeim nýr heimur.“
Aðspurð segir hún að nördismi sé sannarlega kominn í tísku. „Krakkar eru farnir að uppgötva að þeir þurfi ekki að spila handbolta, að þau geta átt allskyns önnur áhugamál. Það er mikil aukning í hlutverkaspilum, alltaf nýtt fólk að detta inn í Dungeons and Dragons. Borðspil eru góð til að halda vinahópum saman, ekki síst þegar fólk er búið að eignast krakka. Þá er hægt að bjóða fólki heim og eiga góða kvöldstund yfir spili – þarf ekki að vera á einhverju fylleríi.“
Á leið á tölvuleikjaráðstefnu
Hlín Hrannarsdóttir er sérfræðingur í teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og almennum poppkúltúr og hefur unnið í Nexus í bráðum tvö ár. Hún safnar teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og D&D-teningum. „Þessir teningar eru notaðir í hlutverkaspilum eins og Dungeons and Dragons þar sem teningunum er kastað og í kortaspilum eins og Magic: The Gathering en þá er engum teningum kastað en tuttugu-hliðateningurinn notaður fyrir líf. Byrjar í 20 lífum og svo skiptir þú honum á lægri tölu þegar þú missir líf. Hinir teningarnir eru þá notaðir sem karakterar úti á vellinum.“
Hlín var með bás á Midgard, fyrstu alhliða nördaráðstefnunni sem haldin hefur verið á Íslandi, í september síðastliðnum. „Hún var vel heppnuð og náði að flytja anda Nexus út til fólksins. Svo hef ég farið á keppnina NCC, Nordic Cosplay Championship í Svíþjóð sem er haldin árlega. Þar keppa Norðurlöndin sín á milli um bestu búningana sem fólk býr til út frá karakterum úr tölvuleikjum, teiknimyndum og þáttum. Þessi keppni er sýnd í ríkissjónvarpi Svíþjóðar auk Noregs og Danmerkur. Hún er ekki sýnd hér á landi enda hefur Ísland sjaldan tekið þátt. Eftir nokkra daga fer ég svo á Blizzcon-tölvuleikjaráðstefnu í LA,“ segir Hlín.
Elur upp efnilega nörda
Óskar Árnason er húsgagnasmiður að mennt og starfar sem vélamaður á fræsara hjá Fást efh. sem sér um hönnun, sölu og framleiðslu á plexígleri og vélaplasti. Aðra hverja helgi starfar Óskar hins vegar í Nexus og er sérfræðingur í borðspilum. „Uppáhaldsspilið mitt þessa dagana er Brass sem er hagfræðispil –taktískt kortadrifið iðnaðar- og uppbyggingarspil. Það fangar ákveðið tímabil í sögu Bretlands og snýst meðal annars um hvort menn ætli að lifa á vöxtum eða taka lán,“ segir Óskar og hans uppáhaldsviðskiptavinir eru fólk sem búið er að spila einföldu spilin og er að detta í aðeins flóknari borðspil. „Það er gaman að útskýra og kynna spilin fyrir þeim sem eru tilbúnir að læra eitthvað djúsí.“
Óskar segir að með komu Facebook hafi nördinn fengið virðingu en þar hafi myndast aðgengilegur vettvangur fyrir þennan hóp til að tala saman í stað þess að fólk væri hvert í sínu lagi. Eftir að hann stofnaði Borðspilaspjallið hafa 1000 manns bæst í hópinn. Óskar á tvo syni, fjögurra og sjö ára, og hann segir að þeir séu efnilegir nördar. „Eldri var að horfa á Lord of the Rings í fyrsta sinn, er búinn með Hobbita-myndirnar og svo er legið yfir Star Wars. Við fjölskyldan söfnum svo öll Pop-fígúrum, strákarnir safna Star Wars, konan mín safnar Harry Potter og ég gríp einn og einn inn á milli úr myndasögum og bókum,“ segir Óskar sem er á leiðinni á Essen Spiel-spilaráðstefnu í Þýskalandi ásamt þremur öðrum starfsmönnum úr Nexus. „Ég fór líka í fyrra og ráðstefnan er stærst sinnar tegundar í heiminum. Þarna er bara fjallað um spil, af hundruðum útgefenda og spilin um 1200 talsins.“
Fylgist með tölvuleikjakeppnum
Magnús Gunnlaugsson hóf að selja borðspil hjá Nexus fyrir ári en ástríða hans á borðspilum byrjaði fyrir sjö árum. „Þá komst ég á fleygiferð í þetta eftir að hafa spilað klassíkina Catan eins og svo margir aðrir. Svo datt ég niður á þætti á YouTube sem heita TableTop með Wil Wheaton, sem margir þekkja kannski úr Star Trek-þáttunum, en hann er erkinörd og í gegnum þessa þætti kynntist ég fleiri borðspilum. Ég er gæinn í vinahópnum sem á öll spilin og undirbý spilakvöldin sem haldin eru tvisvar til þrisvar í viku. Spilin sem hafa hvað mest lent á borðinu að undanförnu eru Pandemic Legacy, Arkam Horror Card Game, T.I.M.E Stories og Star Wars Destiny. Uppáhaldsspilið mitt er hins vegar Lords of Waterdeep en það er spilið sem kveikti áhuga minn á þessu áhugamáli og ég er búinn að kenna það tugum einstaklinga,“ segir Magnús.
Hann safnar Overwatch pop-fígúrunum en það er sá tölvuleikur sem hann spilar hvað mest í dag. „Persónurnar í leiknum eru fjölbreyttar og leikurinn er hraður og skemmtilegur. Ég er ekki mikill safnari í mér en finnst þessar fígúrur flottar og á þær allar nema eina sem er orðin ófáanleg, Soldier 76. Þetta geta orðið verðmætar safnvörur þegar fram líða stundir. Minn uppáhalds heitir Zenyatta, vélmennamunkurinn sem gætur bæði læknað samherja og deilt út skaða á andstæðinga.“
Fylgist þú með heimsmeistarakeppninni í tölvuleiknum Overwatch? „Já, ég fylgist bæði með Overwatch World Cup og Overwatch Legue þar sem ég held með liðinu Houston Outlaws. Þetta eru spennandi keppnir og ég fylgist með í beinni útsendingu gegnum Netið á síðu sem heitir Twitch,“ segir Magnús.