Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„Hér er friður eins og ég hef aldrei upplifað áður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elín Richter, Sindri Bjarkason og Amíra Snærós Jabali og skólasystkini þeirra berjast nú fyrir því að skólasystir þeirra, Zainab Safari og fjölskyldu hennar, verði ekki vísað úr landi. Fjölskyldan þráir að setjast hér að eftir líf á flótta en von hennar um mannsæmandi líf fer ört þverrandi.

Þegar blaðamann ber að garði í Hagaskóla eru þar þrjú ungmenni á sínu síðasta ári við skólann. Það er bjart yfir þeim og þau hafa margt að ræða sín á milli enda eru þau þessa dagana að velja hvaða framhaldsskóla þau vilja sækja að grunnskólanum loknum. Þetta er um margt fyrsta stóra ákvörðunin í lífinu sem er þeirra, ekki síður en foreldranna, en það er líka ákveðinn skuggi yfir þessu spjalli um bjarta framtíðardrauma því þeir eru ekki ætlaðir öllum skólasystkinunum. Ungmennin eru þau Elín Richter, Sindri Bjarkason og Amíra Snærós Jabali en öll þrjú hafa þau ásamt fleiri skólasystkinum komið að undirskriftasöfnun og baráttu fyrir því að skólasystur þeirra, Zainab Safari, og fjölskyldu hennar, verði ekki vísað úr landi.

Sindri Bjarkason er meðal þeirra sem eiga sæti í réttindaráði Hagaskóla. „Þar er markmiðið að stuðla að réttindum barna og reyna að sjá til þess að íslensk stjórnvöld starfi eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Forsenda undirskriftasöfnunarinnar er að íslensk stjórnvöld hafa í tvígang hafnað því að taka mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar og þar með að skoða möguleikann á því að þau eigi þess kost að setjast að hér á landi. Að halda áfram að ganga hér í skóla, lifa, starfa og verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Forsenda höfnunarinnar er að fjölskyldan hafi þegar fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi en þar sem málið er ekki tekið til skoðunar er ekki horft til þess hvaða líf og framtíð bíður þeirra þar. Fjölskyldan sem um ræðir samanstendur af Zainab, Shahnaz, móður hennar, og Amir, tólf ára gömlum bróður hennar, og er einsdæmi að kærunefnd útlendingamála staðfesti höfnun á efnislegri meðferð á máli einstæðrar móður. Von fjölskyldunnar um mannsæmandi líf fer því ört þverrandi.

Þau eru heppin að fá að búa hérna í þessu landi

Líf á eilífum flótta
Fljótlega bætist Zainab í hópinn og sest hjá skólasystkinum sínum sem taka vel á móti henni. Hún virðist vera frekar feimin og döpur en það er engu að síður eftirtektarvert að hinir krakkarnir virðast eiga á ágætt með að ná til hennar og fá hana til þess að brosa. Zainab er afgönsk að uppruna en hefur þó aldrei búið í sínu stríðshrjáða heimalandi, heldur er hún fædd á flótta í Íran árið 2004. Hún bendir reyndar á að eftir þarlendu tímatali sé hún fædd árið 1384.

Amíra Snærós Jabali, Elín Sara Richter, Zainab Safari og Sindri Bjarkason hittu ljósmyndara og blaðamann Mannlífs í Hagaskóla. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Þegar ég fæddist í Íran voru foreldrar mínir á flótta undan stríðinu í Afganistan og þar er enn stríð. Þannig að það er fátt sem bendir til þess að það komi til með að breytast. Við vorum í tólf ár í Íran og Amir bróðir minn er líka fæddur þar en hann er tveimur árum yngri en ég. Lífið í Íran var skelfilegt og þess vegna ákváðu foreldrar mínir að leggja á flótta til Evrópu í von um betra líf og einhverja framtíð, sérstaklega fyrir mig og bróður minn.“

Ferðin frá Íran til Evrópu var gríðarlega erfið enda fóru þau fyrst fótgangandi frá Norður-Íran eftir erfiðum vegum og fjallendi til Tyrklands en þaðan tókst þeim svo að komast með báti til Grikklands. Þegar þangað var loksins komið tók þó ekkert annað við en vonbrigði og skelfilegar aðstæður.
Zainab segir að fyrst eftir að þau komu til Grikklands hafi þau verið sett á hótelherbergi en það hafi aðeins varað í nokkra mánuði á meðan verið var að setja upp flóttamannabúðir þangað sem þau voru svo flutt í framhaldinu. En lífið í flóttamannabúðunum reyndist vera í alla staði skelfilegt. „Þetta var ekki gott líf. Það var mikið um drykkju í flóttamannabúðunum og var stöðugt verið að slást og berjast um alla hluti. Það var ömurlegt.“

Skólasysturnar Zainab Safari og Elín Sara Richter. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hér á hún gott líf
Á meðan Zainab segir frá hlusta hin ungmennin af athygli og það leynir sér ekki að þau finna til með henni en á sama tíma er þetta líf eitthvað sem er þeim ákaflega framandi. Aðspurð um hvaða áhrif það hafi á þau að hlusta á sögu skólasystur sinnar segir Amíra Snærós að óneitanlega geri þetta þau döpur. „Það gerir okkur leið að hún hafi þurft að ganga í gegnum þetta og í raun að nokkurt barn þurfi að þola það sem hún og bróðir hennar hafa mátt þola.“

Undarlegt að einhverjum finnist að við megum ekki hafa okkar skoðun og leggja einhverjum lið sem skiptir okkur máli. Það var ekki heldur þannig, eins og einhverjir hafa haldið fram, að foreldrar okkar stýrðu okkur í þessu.

- Auglýsing -

Sindri bætir því við að þó að þau hafi hugsað út í þessi mál áður en þau kynntust Zainab hafi kynnin við hana breytt miklu. „Maður hefur aldrei upplifað þetta svona nálægt sér áður en það að heyra svona sögu frá einhverjum sem maður er farinn að þekkja breytir svo ótrúlega miklu.“
Elín tekur undir þetta og segir að það geri þetta raunverulegt. „Svona er þetta komið svo nálægt að það gerir þetta raunverulegt og að vanda okkar allra en er ekki bara eitthvað sem við sjáum í fréttunum eða aðrir tala um.“

Aðspurð um hvernig þeim hafi orðið við þegar þau fréttu að Zainab og fjölskylda hennar yrðu að öllum líkindum send aftur til Grikklands, stendur ekki á svari hjá Elínu. „Fyrst og fremst urðum við leið og vonsvikin vegna þess að hér á hún loksins gott líf, ekki síst þegar maður hugsar um allt sem hún hefur þurft að ganga í gegnum og hvað bíður hennar ef hún verður send aftur til Grikklands.“

Amíra Snærós bætir við: „Það gerir mig líka þakkláta fyrir það líf sem ég hef alist upp við þegar maður kynnist einhverjum sem hefur mátt þola það sem hún hefur mátt þola, og þá langar mann líka til þess að reyna að hjálpa fleirum sem eru í sömu aðstæðum.“

- Auglýsing -
Zainab, móðir hennar og bróðir komu til Íslands síðastliðið haust en faðir hennar er týndur á götum Grikklands eftir að hafa glímt við alvarlegt þunglyndi um skeið en í raun er ekkert vitað um afdrif hans. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Okkar réttur og skoðanir
Zainab, móðir hennar og bróðir komu til Íslands síðastliðið haust en faðir hennar er týndur á götum Grikklands eftir að hafa glímt við alvarlegt þunglyndi um skeið en í raun er ekkert vitað um afdrif hans. Þrátt fyrir að samkvæmt lögum beri ríkjum að sinna þeim flóttamönnum sem hafa fengið alþjóðlega vernd til jafns við eigin þegna er það þó alls ekki raunin í Grikklandi. Herfilegt efnahagsástand í landinu á síðustu árum á sinn þátt í því og við slíkar aðstæður blossa oft upp kynþáttafordómar, skipulögð glæpastarfsemi með fíkniefnasölu og vændi á götum borganna og þannig mætti áfram telja.

Þar er markmiðið að stuðla að réttindum barna og reyna að sjá til þess að íslensk stjórnvöld starfi eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ísland er aðili að þessum sáttmála og á þar af leiðandi að fara alltaf eftir honum.

Staðreyndin er að þetta eru að öllum líkindum þær götur og þær aðstæður sem bíða Zainab og fjölskyldu hennar verði þau send aftur til Grikklands og þess vegna ákváðu samnemendur hennar í Hagaskóla að grípa til sinna ráða. Amíra Snærós segir að það sé ekki boðlegt að leggja á Zainab að hverfa aftur til þessa lífs í Grikklandi. Sindri og Elín taka undir þetta en bæði eiga þau sæti í réttindaráði Hagaskóla. Elín segir að markmiðið með aðgerðum sé einfalt. „Við viljum bara halda þeim á Íslandi, til þess að þeim líði vel og að þau séu örugg.“
Sindri bendir á að fyrir þeim sé þetta einmitt hlutverk réttindaráðsins. „Þar er markmiðið að stuðla að réttindum barna og reyna að sjá til þess að íslensk stjórnvöld starfi eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ísland er aðili að þessum sáttmála og á þar af leiðandi að fara alltaf eftir honum.“

Amíra Snærós var ein af þeim sem kom að undirskriftasöfnununni. Hér eru þær vinonurnar, hún og Zainab. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Amíra Snærós var ein af þeim sem kom að undirskriftasöfnununni og hún segir að þau hafi mikið hugsað um hvernig mætti ná til stjórnvalda og fá þau til þess að taka mark á því sem þau voru að koma á framfæri. „Við ákváðum að gera þetta svona formlega en ekki bara á Facebook til þess að það leyndi sér ekki að okkur er alvara og við söfnuðum 6200 undirskriftum.“ Aðspurð um hvað þeim hafi fundist um að það hafi borist athugasemdir við þetta frá einhverjum foreldrum þá stendur ekki á svari: „Við vorum fyrst og fremst vonsvikin. Undarlegt að einhverjum finnist að við megum ekki hafa okkar skoðun og leggja einhverjum lið sem skiptir okkur máli. Það var ekki heldur þannig, eins og einhverjir hafa haldið fram, að foreldrar okkar stýrðu okkur í þessu. Það var alls ekki þannig. Við erum alveg með okkar skoðanir og getum komið þeim á framfæri sjálf.”

Gott fyrir alla
Á meðan krakkarnir segja frá baráttu sinni fyrir Zainab horfir hún þögul í gaupnir sér og lætur lítið fyrir sér fara. Aðspurð um hvað henni finnist um Ísland og það sem á daga hennar hefur drifið síðan hún kom hingað í september segir hún að hér hafi henni strax liðið vel. „Hér er friður. Friður eins og ég hef aldrei upplifað áður. Mér finnst líka vera fallegt hérna og að fólkið sé hamingjusamt vegna þess að það brosir og er vinalegt.

Það er eflaust fínt að koma til Grikklands sem ferðamaður og skoða landið, eiga peninga og vera að ferðast, en það er ekki það sem bíður okkar. Það Grikkland sem bíður okkar er allt annað og þar er ekki gott að búa.

Það er svo margt sem er öðruvísi en það sem ég hef átt að venjast hingað til. Eins og þegar ég kom í skólann fannst mér skrítið að hér væri kennari fyrir hvert og eitt fag. Einn kennari kom og kenndi ensku, annar stærðfræði o.s.frv. Það hef ég aldrei upplifað áður. Í Íran og á Grikklandi var alltaf bara einn kennari sem kenndi allt, en við bróðir minn fengum reyndar ekki að vera í skóla í Grikklandi nema í nokkra mánuði.“

Aðspurð um íslensku krakkana stendur ekki á svari. „Þau eru góð,“ og svo hlæja þau öll eins og að annað svar hefði verið útilokað. „Ég var auðvitað feimin við þau fyrst en mér hefur verið vel tekið. Þau eru heppin að fá að búa hérna í þessu landi, finnst mér.“

„Hvað getum við gert? Hvað getum við ekki gert?“ svara þau nánast einum rómi og það leynir sér ekki að þau hafa langt frá því lagt árar í bát í baráttunni fyrir Zainab. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Við þetta berst talið að því að sumir hafi haft á orði að Íslendingar geti einfaldlega ekki tekið við öllum sem hingað leita og þess vegna séu hælisleitendur sendir aftur burt. Að Íslendingar geti einfaldlega ekki tekið að sér að bjarga öllum en um það hefur Sindri sitthvað að segja. „Ég held að við getum í fyrsta lagi tekið á móti miklu fleirum en við gerum núna. Það er eitt að taka ekki við flóttamönnum en annað að senda þá úr landi eftir að þeir hafa dvalið hér í nokkurn tíma og þá jafnvel gengið hér í skóla og eignast eitthvað líf eins og Zainab.“ Skólasystur hans taka undir þetta og minna á að þetta hljóti að horfa öðruvísi við þegar um börn er að ræða. Þau eru líka öll sammála um það að stjórnvöld þurfi að standa sig miklu betur. „Við þurfum að koma betur fram við þá sem vilja, nei, ég meina neyðast, til þess að koma til Íslands og vilja eiga hér friðsamlegt líf. Við þurfum líka að leyfa fólki að vinna og bæta þannig sinn eigin hag og okkar sem samfélags. Það er gott fyrir alla.“

Að eiga sér framtíð eða ekki
En hvað getið þið gert fleira til þess að leggja ykkar af mörkum? „Hvað getum við gert? Hvað getum við ekki gert?“ svara þau nánast einum rómi og það leynir sér ekki að þau hafa langt frá því lagt árar í bát í baráttunni fyrir Zainab.

Aðspurð um hvort þau telji að það sé hlustað á það sem þau hafi fram að færa segja þau að það sé vissulega tekið eftir þeim ef eitthvað er að marka fjölmiðla, en eins og Sindri segir „á svo eftir að koma í ljós hvort það er hlustað af þeim sem ráða.“ Elín tekur undir þetta og minnir á að það sé dapurlegt að hugsa til þess að Zainab verði kannski send í burtu með skömmum fyrirvara og sé þá allt í einu komin á götuna í Grikklandi. „Það er ömurlegt og á ekki að þurfa að gerast.“

Amíra Snærós og Zainab í Hagaskóla. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Zainab segir að óneitanlega sé hún hrædd við það sem gerist næst. „Ef við verðum send aftur til Grikklands eigum við okkur ekkert líf. Þar eigum við enga framtíð. Það er eflaust fínt að koma til Grikklands sem ferðamaður og skoða landið, eiga peninga og vera að ferðast, en það er ekki það sem bíður okkar. Það Grikkland sem bíður okkar er allt annað og þar er ekki gott að búa.“
Zainab segir að stuðningur skólasystkinanna hafi glatt hana mikið. „Þetta gerir mig hamingjusama. Það er gott að finna stuðning og að allt þetta fólk reynir að hjálpa til. Núna vona ég bara að ég og mamma og bróðir minn fáum að vera hérna áfram og eignast framtíð. Það er draumurinn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -