Laugardagur 23. nóvember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Herdís er látin: Fyndinn femínisti sem færði okkur dýrmæta gjöf gegn COVID

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Herdís Steingrímsdóttir er látin, 67 ára að aldri. Hún var meðal fremstu vísindamanna Íslands og öflug í stríðinu við COVID. Þó fæstir Íslendingar hafi líklega heyrt hennar getið þá hafa margir komist í kynni við afrakstur hennar, skimunarprófið við COVID. Herdís lést á Royal Sussex County-sjúkrahúsinu í Brighton á Englandi 24. janúar síðastliðinn.

Hennar er minnst í Morgunblaðinu í dag en þar er henni lýst sem gjafmildri baráttukonu gegn óréttlæti, hjartahlýjum töffari og bráðfyndnum femínista.

Herdís bjó til skiptis á Englandi og Íslandi alla ævi eftir að hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Dave Gillard, á háskólaárunum í Leeds. Þau giftust árið 1983 eftir margra ára kynni og eiga saman tvo fullorðna syni: Daníel og Róbert. Herdís ólst upp í Þormóðsdal í Mosfellssveit en flutti til Reykjavíkur á unglingsárum. Eftir nám við MR hélt hún til Englands og hóf nám í matvælafræði við Háskólann í Leeds. Hún starfaði við matvælarannsóknir að námi loknu, bæði hér og á Englandi.

Árið 1984 urðu þó straumhvörf í lífi Herdísar, sem íslenska þjóðin naut síðar góðs af. Í ársbyrjun 1984 fékk Herdís nýtt starf eftir að hafa flutt stuttu áður til Englands. Það starf var á rannsóknarstofu við sameindalíffræðideild Háskólans í Sussex en þar kviknaði brennandi áhugi hennar á sameindalíffræði. Það varð svo til þess að sex árum síðar var hún orðin doktor í sameindalíffræði. Menn höfðu orð á því að þar sýndi hún hvað í henni bjó.

Herdís starfaði við rannsóknir meirihluta tíunda áratug síðustu aldar, bæði við háskólann í Sussex og við King’s College í London. Árið 1998 stofnaði hún svo líftæknifyrirtækið Microzone ásamt eiginmanni sínum Dave. Þar þróaði Herdís prófefnablönd fyrir sameindalíffræðilegar rannsóknir. Sú vinna hefur verið ómissandi í baráttu mannkynsins við ósýnilega óvininn, illvíga smitsjúkdóma. Þrátt fyrir að Herdís hafi selt fyrirtækið árið 2018 þá leituðu nýir eigendur til hennar þegar COVID komst á kreik. Afraksturinn varð nýtt  skimunarpróf sem var tekið í notkun í september að loknum klínískum athugunum. Það sýndi vel, líkt og segir í Morgunblaðinu að „Herdís var kona sem hafði ætíð ráð undir rifi hverju; hún dó ekki ráðalaus“.

Vinkonur hennar skrifa sameiginlega minningargrein þar sem yngri árum hennar er  lýst:

- Auglýsing -

„Þegar Hedda var námsmaður í Leeds á áttunda áratugnum komumst við að því að enginn spegill var til á hennar litla heimili. Flestar ungar konur hefðu líklega saknað slíks húsgagns, en ekki Hedda. Hún þurfti enga spegla til þess að vita hver hún var. Við vinkonurnar höfum fengið að vera samferða Heddu gegnum lífið. Þess vegna blandast minningarnar um tímabilin og árin okkar saman í lifandi púsluspil. Þess vegna er Hedda enn menntaskólastúlkan sem vann í sjoppunni á Langholtsveginum – sú sem var búin með kaupið sitt nokkrum dögum eftir útborgun þótt hún eyddi nánast engu í sjálfa sig. Hún er líka unga stúlkan í Íslandsúlpunni með nafnið Che skrifað stórum stöfum á bakið, tilbúin að takast á við óréttlæti heimsins. Og einnig sú sem vann á Herjólfi áður en hún fór til Leeds að læra matvælafræði þar sem hún hitti manninn sinn, öðlinginn hann Dave.“

Fleiri nefna gjafmildi hennar sem minnkaði ekki með aldrinum. „Rausnarskap hennar voru engin takmörk sett og forgangsraðaði hún hlutunum samkvæmt lífsgildum sínum þar sem falleg samskipti og vinátta voru í fyrirrúmi,“ segir í einni minningargrein.

Annar vinahópur lýsir atviki sem sýnir vel hversu skelegg Herdís var. „Í MR var Hedda stúlka sem stóð fyrir sínu og tók til dæmis ekki þegjandi athugasemdum kennara sem beindust að því sem litlu skipti, svo sem stóru Ri inni í miðjum orðum í stíl á töflunni. Hedda leitaði til stjórnenda og fékk hnekkt þeim úrskurði að hún skyldi stroka út öll Rin í stílnum. Áræði einkenndi námsferil hennar sem var í raungreinum, innanlands og síðar á Englandi. Áræði var það líka þegar hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki í Englandi og rak það af myndarskap.“

- Auglýsing -

Herdís var femínisti en í einni minningargrein er henni lýst svo: „Hedda bjó yfir mörgum mannkostum. Efst í huga er heiðarleikinn, hreinskilnin, gjafmildin og gestrisnin. Hún kom alltaf til dyranna eins og hún var klædd, sagði skoðanir sínar umbúðalaust. Hún var femínisti. Þau Dave höfðingjar heim að sækja. Margar góðar veislurnar höfum við setið í húsunum þeirra fallegu í Brighton. Og ekki má gleyma kímnigáfunni hennar sem stundum var skemmtilega kaldhæðin.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -