Gísli Már Helgason var 12 ára gamall þegar faðir hans lést af slysförum. Bugaður af sorg fullorðnaðist hann hratt, og fimm árum seinna þegar miðill sagðist vera með skilaboð frá föður hans að handan ákvað unglingurinn að treysta því. Í stað þess að bera skilaboð frá látnum föður segir Gísli miðilinn hafa brotið á sér, og það hafi markað líf hans. Mörgum árum síðar reyndi hann sjálfsvíg og í margar vikur var honum vart hugað líf.
Þannig hljóðaði inngangur að áhrifaríku viðtali Rögnu Gestsdóttur, sem þá starfaði á Mannlíf, við Gísla. Vakti viðtalið mikla athygli en þar sagði Gísli frá föðurmissi, dómi yfir Þórhalli, sjálfsvígstilraun, og sálarfriðinum og ástinni sem hann býr að í dag. Rétt er að taka fram að Þórhallur var ekki dæmdur fyrir að brjóta á Gísla, heldur öðrum ungum manni. Er líklegt að sú kæra hafi haft áhrif á að Þórhallur var dæmdur fyrir brot á öðrum manni en Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar og var Þórhallur dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Hér fyrir neðan má lesa viðtalið við hetjuna Gísla eins og það birtist lesendum Mannlífs þann 14. júní 2020.
„Ég verð að segja eins og er, það var léttir. Mér leið bara rosalega vel, get best lýst því sem gleði,“ segir Gísli aðspurður um hvernig tilfinning það hafi verið þegar dómur var kveðinn upp yfir Þórhalli Guðmundssyni miðli vegna kynferðisbrots. Föstudaginn 5. júní staðfesti Landsréttur 18 mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Þórhalli, fyrir að hafa brotið á rúmlega tvítugum dreng árið 2010. Árið 2013 ákvað Gísli að kæra Þórhall, og mættu báðir og gáfu skýrslu hjá lögreglu, en málið fór ekki lengra, þar sem brotið var fyrnt.
Árið 1993, þegar Gísli var 17 ára gamall, kynntist hann Þórhalli á Siglufirði. Síðar þegar Gísli var fluttur til Reykjavíkur hitti hann Þórhall aftur, sem sagðist vera með skilaboð frá látnum föður hans. Gísli fór á fund hjá Þórhalli og segir að þar hafi Þórhallur brotið á honum með því að fróa honum án hans samþykkis. Það var sambærilegt brot og Þórhallur fékk dóm fyrir nú í júní. Gísli segir að dómurinn hafi verið opinber viðurkenning á að Þórhallur hafi einnig brotið gegn honum.
„Mér finnst það. Þegar ég sagði mömmu frá því á sínum tíma að Þórhallur hefði brotið gegn mér, þá nafngreindi hún hann í færslu á Facebook og fékk rosalega mikinn skít fyrir það, veit ég. Af því að hann var ekki dæmdur og ég var ekki búinn að kæra hann þegar ég sagði henni frá. En hún trúði mér strax og stóð með mér, hún missti vini vegna þessa máls,“
segir Gísli, sem hringdi í móður sína strax og hann sá fréttir um dóminn á föstudag. „Mér heyrðist hún bara fara að gráta, hún var svo glöð.“
„Pabbi er alltaf með mér“
Gísli er fæddur árið 1976, og þegar hann var átta ára skildu foreldrar hans. Gísli flutti með föður sínum til Siglufjarðar, en móðir hans flutti til Reykjavíkur. „Ég fékk að ráða hvar ég vildi búa, og ég er náttúrlega strákur og valdi pabba,“ segir Gísli. „Hann er alltaf með mér,“ bætir hann við og bendir blaðamanni á mynd af föður sínum sem hangir á veggnum fyrir ofan stofusófann [Viðtalið við Gísla er tekið í gegnum Facetime, þar sem hann er búsettur í Svíþjóð].
Þann 26. júlí árið 1988 drukknaði Sigurjón Helgi Ástvaldsson, faðir Gísla, við Siglunes í óveðri, hann var 31 árs að aldri. Gísli var bugaður af sorg eftir fráfall föður síns, en aðspurður segist hann enga aðstoð hafa fengið vegna sorgarinnar.
„Andlát pabba var það erfiðasta sem hefur komið fyrir mig og ég átti mjög erfitt með að fyrirgefa honum, mér fannst hann hafa svikið mig. Áfallið mótaði mig og gerði mig að þeim manni sem ég er í dag, ég náði aldrei aftur að verða krakki,“ segir Gísli. „Ég vildi bara vera eins og pabbi, hann var sterkastur og bestur og ég vildi vera hann einhvern veginn.“
Eftir föðurmissinn valdi Gísli að búa hjá móðurömmu sinni í stað þess að flytja til móður sinnar í Reykjavík. „Ég vildi ekki fara suður með mömmu, ég vildi bara vera hjá ömmu. Mér fannst svo langt að fara á skíði í Reykjavík, ég gat bara tekið skíðin á axlirnar og gengið upp í fjall heima í Ólafsfirði. Ég hélt ég myndi verða áfram sami strákur og ég var, og ætlaði að verða bestur á skíðum og þess háttar, en eins og ég segi þá breyttist ég.“
Hann segist hafa brenglast eitthvað við fráfall föður síns og sorgina, byrjaði fljótlega að drekka, en segist aldrei hafa prófað annað en áfengi. „Þetta var svona konur og brennivín,“ segir Gísli og brosir. Þrátt fyrir drykkju, stundaði hann skíði af miklum krafti og var góður, að eigin sögn. „Ég stundaði alltaf skíði á Ólafsfirði og var mjög góður þótt ég hafi verið aðeins að sulla. Ég keppti fyrir Ísland á Ólympíuleikum Æskunnar árið 1992, og var unglingameistari í svigi árið 1993.“
Gísli Már Helgason var 12 ára gamall þegar faðir hans lést af slysförum. Bugaður af sorg fullorðnaðist hann hratt, og fimm árum seinna þegar miðill sagðist vera með skilaboð frá föður hans að handan ákvað unglingurinn að treysta því.
Lofaði skilaboðum frá látnum föður
Fyrstu kynni Gísla og Þórhalls voru á Siglufirði fyrir tilstuðlan sameiginlegrar vinkonu þeirra. „Ég þekkti hana frá Siglufirði og hún þekkti Þórhall, og hann var eitthvað fyrir norðan á þessum tíma og hún spurði hvort ég vildi fara til hans,“ segir Gísli, sem ákvað að slá til.
„Ég saknaði pabba, ég náði aldrei að komast yfir sorgina. Og mér fannst þetta rosalega spennandi. Þarna hitti ég Þórhall í fyrsta sinn og ekkert gerðist, en ég myndaði líklega eins konar trúnaðarsamband við hann.“
Haustið 1993 flutti Gísli til móður sinnar í Reykjavík, og eitt sinn þegar hann var staddur í vídeóleigu hitti hann Þórhall. „Þar sagði hann við mig að hann væri með skilaboð frá pabba.“
Gísli fór til fundar við Þórhall, og segir hann hafa brotið á sér á þeim fundi. Gísli sagði engum frá, og segir að skömm og óttinn við álit annarra hafi valdið því að hann þagði, auk þess sem hann vildi ekki særa móðurömmu sína. „Ég held að það sé skömmin sem veldur því að við þolendur segjum ekki frá. Minnimáttarkennd hjá mér og skömm, líka hræðslan við álit annarra. Margir vina minna á þessum tíma litu upp til mín og fannst ég vera aðaltöffarinn. Ég skammaðist mín, mér fannst þetta allt mér að kenna og skömmin óx bara hjá mér. Ef ég fékk mér í glas þá kom atvikið upp á yfirborðið og ég vissi ekki hvernig ég átti að höndla sjálfan mig,“ segir Gísli. „Amma mín sem ég ólst upp hjá, elskaði Þórhall og hlustaði á hann á kvöldin í útvarpinu og ég vildi alls ekki segja henni frá þessu, af því mér fannst að ég myndi þá særa hana. Ég hélt þessu alveg leyndu fyrir henni, það var Inga frænka sem sagði henni frá þessu seinna.“ Gísli segist hafa sagt góðum vini sínum frá málinu ári seinna, eftir að hann kom heim til hans eftir eitthvert fyllirí. „Hann trúði mér ekki og hélt að ég væri bara í algjöru rugli.“
Gísli flutti til Svíþjóðar þegar hann var tvítugur. „Ég flúði land hreinlega og hef verið hérna í 23 ár, hér er mjög fínt að vera,“ segir Gísli. „Ef ég á að segja alveg eins og er, þá hef ég sjaldan heimsótt Ísland, ég var alltaf hræddur um að hitta Þórhall og vissi ekki hvaða afleiðingar það myndi hafa. Ég varð samt að fara stundum. Árið 2009 svipti vinur minn sig lífi og ég fór þá heim í tvær vikur. Og ég veit það, ég var þá alltaf að horfa í kringum mig eftir Þórhalli.“
Árið 2006 sagði Gísli föðursystur sinni, Ingu Sæland, þingmanni og formanni Flokks fólksins, frá málinu. „Hún varð óð yfir þessu, hún er svolítið góð í kjaftinum eins og þú hefur kannski tekið eftir,“ segir Gísli Már brosandi um föðursystur sína. „Við ætluðum á fullu í málið, en svo treysti ég mér ekki til þess að gera neitt. Ég varð eitthvað lítill og ræfilslegur í mér. Árið 2013 fann ég hins vegar að það var komið nóg, og kærði Þórhall. Þá sagði ég góðum vini mínum frá nauðguninni, og hann sagði við mig: „Veistu hvað, Gísli, ef þú hefðir sagt einhverjum frá þessu á þeim tíma sem þetta gerðist, hefði enginn trúað þér. Af því þú varst sterkastur og bestur í öllu.“
„Skömmin gjörsamlega að éta mig að innan“
Árið 2010, þremur árum áður en Gísli kærði Þórhall, ákvað hann að svipta sig lífi. Hann segist áður hafa hringt í nágrannakonu sína og segir að hann hafi ekki vitað hvar hún væri, en hún, og önnur kona, Annika sem starfar í slökkviliði og með björgunarsveit, björguðu lífi Gísla þennan örlagaríka dag. „Konan býr hér nokkra kílómetra frá mér, og ég vissi ekki að hún væri heima hjá sér. Hún heyrði símann detta í gólfið hjá mér og byrjaði á því að keyra fram hjá húsinu mínu, til að ná í Anniku, sem tók minnst 5-6 mínútur, svo þurfti hún að sækja exi til að brjótast inn til mín. Þegar þær komu inn sáu þær mig ekki fyrst, það var allt hljótt,“ segir Gísli.
Hann rekur næst hvernig konurnar komu að honum í eldhúsinu, en Annika sagði honum frá því. „Þær sáu að ég hafði hengt mig í hundaól og hún hélt að ég hefði verið hangandi þarna í 6-8 mínútur. „Augun á þér voru komin út úr höfðinu, þú varst búinn að pissa á þig og þú varst rennandi blautur af því þú varst ábyggilega að rembast á móti,“ segir Gísli að Annika hafi sagt honum, „Annika sem bjargaði mér sagði að ég ætti ekki að vera lifandi. Hún sagði við hina konuna að þetta liti ekki vel út, ég væri ábyggilega dáinn.“
Annika hóf að hnoða Gísla, á meðan var hin konan með neyðarlínuna í símanum. Samkvæmt frásögn Anniku liðu 5-6 mínútur þar til hún heyrði smáhljóð í Gísla, eins og hann drægi andann einu sinni. Eftir það dró hann andann á þrettán sekúndna fresti. Annika fylgdi Gísla í sjúkrabílnum, og þegar komið var með hann á spítala brugðust læknarnir hratt við þegar þeir heyrðu hversu langur tími var liðinn. „Hún segir að þeir hafi kastað öllu öðru frá sér og sett mig í ísbað. Eiginlega ætti ég ekki að vera hér. Það er bara ótrúlegt að ég sé lifandi í dag,“ segir Gísli, en honum var haldið sofandi í margar vikur. Gísli segist ekki alveg vita hvernig hann eigi að svara spurningu blaðamanns um af hverju hann taldi sjálfsvíg einu leiðina á þessum tíma. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu. Ég held að sjálfstraustið og álit mitt á sjálfum mér hafi verið orðið svo lítið að ég var farinn að ímynda mér að öllum væri nákvæmlega sama hvað ég gerði. Ég átti tvö börn á þessum tíma, en ég hugsaði bara að þetta væri kannski best fyrir allt og alla. Ég fann að skömmin var gjörsamlega að éta mig að innan, það var bara svoleiðis, ég var með svo mikið hérna uppi sem ég hafði ekki náð að leysa tilfinningalega,“ segir Gísli og tekur um höfuð sér.
Hann bætir við að hann og Anikka hafi rætt björgun hans í fyrsta sinn allsgáð síðastliðna helgi, áður hafi þau aðeins rætt lífsbjörgina þegar þau hafi hist á djamminu.
Gísla var haldið sofandi í öndunarvél vikum saman og var fjölskyldan undirbúin undir það versta.
Hetja og gangandi kraftaverk
Gísli var í marga mánuði á sjúkrahúsi, sjálfvígstilraunin var í júní árið 2010 og hann kom heim aftur í byrjun október. Núna á mánudaginn, 8. júní, birti Inga frænka hans færslu á Facebook með myndum af Gísla meðan hann barðist fyrir lífi sínu á sjúkrahúsinu. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var búinn að gera, ekki bleikustu hugmynd,“ segir Gísli um hvað rann í gegnum huga hans þegar hann vaknaði á spítalanum. „Verkstjórinn sem ég vann hjá og eiginmaður konunnar sem bjargaði mér voru þarna og ég skildi ekki af hverju. Ég spurði þá hvort það væru ekki að byrja sumarfrí, hvað ég væri eiginlega að gera þarna,“ segir Gísli, sem fékk svarið:
„Sumarfríið er löngu búið, Gísli. Þú reyndir að hengja þig, þú ættir að vera dauður.“
Eftir að hann kom heim af spítalanum fór lífið fljótt í sama farið og áður. „Ég hélt eiginlega áfram eins og frá var horfið, ég sagði til dæmis að ég myndi aldrei drekka aftur en gerði það strax,“ segir Gísli.
„Svo hitti ég konuna mína 2011, og hún er fyrsta konan sem ég hef elskað almennilega. Ég hef verið giftur áður og á fullt af börnum, en konan sem ég er giftur í dag, ég elska hana,“ segir Gísli og verður í fyrsta sinn í viðtalinu nokkuð meyr. „Ég sagði henni frá misnotkuninni, og hún sá að mér leið ekki vel og þá ákvað ég að nú myndi ég kæra. Ég hugsaði að ég hlyti að geta losnað við þetta, og sagði sjálfum mér að það yrði erfitt akkúrat núna, en lífið hefði verið erfitt í 20 ár eða meira. Og þá yrði það bara erfitt í smátíma í viðbót,“ segir Gísli, sem fyrst þá sagði móður sinni frá, sem eins og fyrr segir nafngreindi Þórhall í færslu á Facebook.
„Ég hef farið í gegnum þetta svo mörg þúsund sinnum öll þessi ár og reynt að velta fyrir mér hvað ég hefði getað gert. Hvað átti ég að gera?“
Gísli segist hafa skrifað ítarlega lögregluskýrslu um brot Þórhalls, sem kallaður var til yfirheyrslu. „En hann játaði hvorki né neitaði. Svo var málið álitið fyrnt. Eftir að ég kærði setti ég allt sem ég sagði við lögregluna á netið,“ segir Gísli og bætir við að margir hafi sett sig í samband við hann eftir það. „Einn karlmaður þorði að koma fram eftir að ég sagði mína sögu og kærði Þórhall, sá maður bað mig um að vera vitni ef til þess kæmi og ég sagði já við því. Síðan heyrði ég ekkert meira frá honum. Eftir að dómurinn féll á föstudag, fékk ég skilaboð frá honum á Facebook, en ég hélt að dómurinn væri hans mál. Svo var ekki, því hans mál var fyrnt, en vinur hans kærði Þórhall líka og hans mál er það sem dæmt var í núna. Maðurinn sem ég hafði verið í samskiptum við var vitni í því máli.“
Þú sem sagt þekkir fleiri sem segja Þórhall hafa brotið á sér?
„Já. Og ég veit um annan sem Þórhallur var næstum búinn að ná til, það var systursonur pabba, sem missti föður sinn tveimur árum eftir að ég missti pabba minn. Þórhallur náði honum aldrei, hann var sterkari en ég, það er bara svoleiðis. Ég er bara mjög glaður yfir því að loksins fékk Þórhallur dóm, því það eru ábyggilega fleiri sem hafa lent í honum. Hann hefur verið starfandi í hvað, 30 ár?“
Gísli og Annie Sara Maria Helgason, konan hans, giftu sig á Múlakollu í Ólafsfirði 9. apríl árið 2015. „Og komum á forsíðu Moggans,“ segir Gísli Már og brosir út að eyrum. „Við eigum fullt af börnum og lífið er bara mjög gott, hefur bara aldrei verið svona fínt. Kominn tími til og ég get meira að segja talað um hvernig mér líður. Ég verð að segja eins og er, ég hef verið „leikari“ frá því ég var krakki, mér hefur liðið illa en engum dottið það í hug, engum datt í hug að ég myndi reyna að drepa mig.“
„Ég veit að það fór svo mikið í gegnum hausinn á mér þegar ég var á þessum helvítis nuddbekk hjá honum; Ég stend upp núna og ég drep hann.“
Aðspurður segist hann ekki hafa leitað sér aðstoðar, og haldið að hann réði við þetta allt sjálfur. „Ég var Gísli og ég er Gísli, ég gat þetta allt sjálfur,“ segir hann. „Ég hef farið í gegnum þetta svo mörg þúsund sinnum öll þessi ár og reynt að velta fyrir mér hvað ég hefði getað gert. Hvað átti ég að gera? Ég veit að það fór svo mikið í gegnum hausinn á mér þegar ég var á þessum helvítis nuddbekk hjá honum; Ég stend upp núna og ég drep hann. Ef ég drep hann hvað á ég að segja, að ég hafi drepið hann?“
Gísli hefur verið edrú í þrjú ár og fékk loks þá hjálp sem hann þurfti í meðferðinni. „Ég fór mörgum sinnum til ráðgjafa sem þekkti til svona áfalla og þurfti að endurupplifa daginn með Þórhalli aftur og aftur og aftur. Ég átti að setja í orð hvernig mér leið þegar brotið var á mér og fyrst voru orð mín full af illsku og hatri. En svo fór þetta að koma meira yfir til mín, þetta var ekki mér að kenna og ég sá að ég gat ekkert gert á þessum tíma, þótt ég hafi margoft hugsað að ég hefði getað drepið hann eða eitthvað. Ég fyrirgaf sjálfum mér, þetta var ekki mér að kenna. Það tók mig 25 ár að fyrirgefa sjálfum mér.“
„Lífið er bara mjög gott, hefur bara aldrei verið svona fínt. Kominn tími til og ég get meira að segja talað um hvernig mér líður,“ segir Gísli, í viðtali við Mannlíf.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn.
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.
„Gísli er Gísli og hann er gangandi kraftaverk“
Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, hefur komið fram og fjallað um mál Gísla, eftir að dómur féll yfir Þórhalli. Inga er föðursystir Gísla og sú fyrsta sem hann trúði fyrir fundi þeirra Þórhalls.
„Hann er búinn að skila skömminni og vill koma fram og segja sögu sína,“ sagði Inga í viðtali við útvarpsþáttinn Bítið á Bylgjunni miðvikudaginn 10. júní.
Inga rekur kynni og samskipti Gísla og Þórhalls, en hún segir hann hafa verið fjölskyldunni mikill stuðningur eftir að bróðir hennar, faðir Gísla, lést.
Hún segir aðferðir Þórhalls við að „koma skilaboðunum áfram“ hafa verið undarlegar. „Það þurfti að nudda hann [Gísla] og strjúka voða mikið og opna allar rásir svo að pabbi ætti betra aðgengi að honum,“ segir Inga og bætir við að Þórhallur hafi sagt frænda hennar að faðir hans stæði fyrir aftan hann. „Það þarf ekkert meira frá því að segja að hann hreinlega fer niður á drenginn og fróaði honum í ofanálag. Þetta var það mikil slökun sem hann þurfti á að halda til þess að pabbi hans kæmist til hans … Eftir það var þessi litli strákur bara flak. Við vissum náttúrlega ekki neitt, fjölskyldan. Þöggunartaktíkin sem hér hefur ríkt alltaf var náttúrlega algjör.“
Rauf þögnina 12 árum seinna
Inga segir að tólf árum seinna hafi Gísli hringt í hana hágrátandi um miðja nótt og sagt henni frá. „Þá var hann tilbúinn að tala og sagðist vilja kæra hann [Þórhall]. Ég sagðist geta hjálpað honum, sem ég og gerði, var komin með lögmann og þetta var að fara í þetta ferli á þessum tíma. Þá brotnaði hann alveg niður aftur og treysti sér ekki til að standa í þessu og bara vildi það ekki.“
Gísli reyndi síðan að svipta sig lífi nokkrum árum seinna. „Ég man ekki hvort þetta voru átta vikur, honum var haldið í öndunarvél og móðir hans kom frá Danmörku þarna strax. Þeir voru með hann í öndunarvélinni bara til þess að halda honum gangandi á meðan hún væri að kveðja hann. Það voru þau skilaboð sem við fengum. Viðbótarskilaboðin voru þau að þegar virtist vera eitthvað líf með honum væri þetta ekkert hann. Í dag erum við þakklát fyrir að Gísli er Gísli og hann er gangandi kraftaverk.“
Inga skrifaði færslu á Facebook um Gísla, og birti myndir af honum berjast fyrir lífi sínu eftir sjálfsvígstilraunina. Inga segist hafa skrifað færsluna í kjölfar dómsins yfir Þórhalli, en segist ekki hafa haft geð í sér til þess að lesa dóminn. Hún segir Gísla og móður hans hafa fagnað niðurstöðunni meðal annars með færslum á samfélagsmiðlum.
„Vikum saman var honum haldið sofandi í öndunarvél á milli heims og helju og fjölskyldan undirbúin undir það versta. Sammfallin lungu og öll líkamsstarfsemi hætt og hann í raun dáinn það lengi að okkur var gefin engin von um að hann kæmi til baka. Þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum allar þessar raunir, orðinn að beinagrind sem þurfti að gangast undir langa endurhæfingu er Gísli hetja og gangandi kraftaverk í dag. Loksins er Þórhallur Guðmundsson á leið bak við lást og slá þar sem okkur öllum í fjölskyldunni finnst hann eiga heima og hvergi annars staðar,“ segir Inga í færslu sinni.
Þakka fyrir stuðninginn
„Gísli þakkar þessum dreng, unga manni sem fór fram með málið. Hann þakkar honum hjartanlega fyrir og það eru mun fleiri ungir menn sem ég myndi nú bara hvetja til að stíga fram og segja sína sögu,“ segir Inga í viðtalinu í Bítinu.
„Við erum á þeim tíma núna að við neitum því að búa við þessa þöggun, við neitum því að allir vettvangar séu ekki leyfilegir til að segja svona sögur, til að draga fram í rauninni gerendurna og hætta að segja þolendunum að þegja hreinlega. Það er tími réttlætis gagnvart þessu í dag. Þetta er tími sem við sem samfélag getum veitt ákveðið aðhald með því að segja frá í stað þess að þegja svona hluti í hel.
Það eru bara þrjú ár síðan Gísli fékk alvörumeðferð við þessu áfalli sem hann varð fyrir vegna þessa athæfis og þessa níðingsháttar sem var framinn á honum á þessum tíma.“
Inga segist vilja tala um atvikið fyrst og fremst vegna þess að hún vilji gjarna „að allir þeir sem eru fórnarlömb fái að vita það að það er ekki þeim að kenna og það er leið út, það er leiðin að tala, leiðin að segja frá og vera sáttur í hjartanu, „það er ekki mér að kenna.“
Inga segir dóminn yfir Þórhalli vera áfanga sem Gísli hefði viljað sjá mun fyrr, en dómurinn sé þó fallinn núna. „Þetta er áfangi sem Gísli hefði viljað sjá mun fyrr, en þetta er alla vega komið fram núna. Það eru margir fleiri sem eiga eftir að reyna að fara þá leið að sjá í raun ekkert annað út úr lífinu en að bara reyna að flýja frá því,“ segir Inga.
Hún þakkar fyrir allan stuðning sem hún hefur fengið vegna málsins og færslu sinnar. „Gísli fær líka gríðarlega mikinn stuðning, hann hefur bakland og stuðning sem er líka ómetanlegt.“
Hlusta má á viðtalið í Bítinu í heild sinni hér.
Þórhallur dæmdur í 18 mánaða fangelsi
Föstudaginn 5. júní staðfesti Landsréttur átján mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Þórhalli Guðmundssyni vegna kynferðisbrots gegn rúmlega tvítugum karlmanni.
Þórhallur var sakfelldur fyrir nauðgun, eftir að hafa brotið gegn manninum árið 2010 með því að hafa fróað manninum án hans samþykkis. Maðurinn lá á nuddbekk hjá Þórhalli sem var þá að meðhöndla hann sem heilari vegna bakverkja sem brotaþoli þjáðist af.
Maðurinn kærði Þórhall sex árum seinna. Þórhallur neitaði sök, en dómara þótti það rýra trúverðugleika ákærða að misræmi var í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi varðandi málsatvik. Framburður brotaþola var hins vegar að mati dómara mjög trúverðugur, og studdur frásögnum vitna, bæði fjölskyldumeðlima, vina og sérfræðinga.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness 18. desember 2018 og staðfestur sem fyrr segir nú í Landsrétti.
Við ákvörðun refsingar var horft til þess að Þórhallur hafði ekki áður sætt refsingu. Einnig var tekið tillit til tafar á málsmeðferðinni.
Þórhallur var jafnframt dæmdur til að greiða manninum eina og hálfa milljón króna í miskabætur.
Miðilshæfileikarnir meðfæddir
Þórhallur Guðmundsson fæddist 4. febrúar 1961 í Reykjavík og uppalinn í Laugarneshverfi og Vogahverfi. Þórhallur vann í Verslunarbankanum þar til hann var lagður niður árið 1990 og sneri sér þá alfarið að miðilsstörfum. Í viðtölum hefur hann sagt miðilshæfileikana meðfædda, en eftir setu á bænafundum og heimsókn í Sálarrannsóknafélag Íslands hafi mótast „ákveðnir hlutir og maður sá hvert förinni var heitið,“ eins og hann sagði í viðtali við Feyki 14. júní árið 2017.
Þórhallur starfaði með Sálarrannsóknarfélagi Reykjavíkur og Sálarrannsóknarfélagi Akureyrar. Þórhallur starfaði í útvarpi og sjónvarpi í nærri tvo áratugi. Á Bylgjunni og Stöð 2 var hann með sjónvarpsþáttinn Lífsaugað, sem flutti yfir á norðlensku útvarpsstöðina VOICE í ágúst árið 2006, en hætti í maí 2008. Þættirnir voru endurvaktir í sjónvarpi árið 2009 á SkjáEinum, en í þeim annaðist Þórhallur svokallaðar skyggnilýsingar fyrir áhorfendur í sal, og í því fólst meðal annars að hafa samband við framliðna.
Í áðurnefndu viðtali í Feyki fyrir þremur árum voru lokaorð Þórhalls: