Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

Hið sanna systraþel

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

Sumar konur eru svo heppnar að eiga systur sem jafnframt eru þeirra bestu vinkonur. Þar ríkir hið sanna systraþel, engin dómharka, stjórnsemi eða öfund heldur sannur stuðningur og uppbyggileg aðstoð. Mikið væri gott ef hægt væri að rækta slíkt hugarfar og yfirfæra það lengra, smita því út í samfélagið.

Þegar umdeild mál koma upp hjálpar engum og fleytir málefninu síst af öllu áfram að grípa til gífuryrða og fordæminga. Umræða um þungunarrofsfrumvarpið einkenndist um of af slíku. Skiljanlega eru konur viðkvæmar fyrir málum af þessu tagi því þær þekkja hvernig það er að bera barn undir belti og gleðina þegar það kemur í heiminn. Stundum er gleðin hins vegar blandin sorg og það er erfitt að standa frammi fyrir stóru verkefni, ævilöngu, sem maður er ef til vill alls ekki tilbúinn að gangast undir.

Flestir gera vissulega það besta úr aðstæðum og ná að höndla þær vel en ekki allir. Líkaminn er það eina sem við eigum sjálf, alveg skuldlaust og höfum rétt á að fara með að vild. Að auki er mjög sterkur réttur þess lífs þegar er til orðið og hann telst alltaf umfram hið ófædda. Á þessu byggir öll mannréttindalöggjöf í heiminum og nefna má að ef læknar standa frammi fyrir erfiðu vali í fæðingarstofunni bjarga þeir lífi móður sé þess nokkur kostur.

Hún hefur lengi verið viðtekin og ríkjandi forræðishyggjan gagnvart konum, og í samfélögum fyrri tíma var gjarnan reynt að hafa vit fyrir þeim á margvíslega vegu á kostnað sjálfstæðis þeirra og stundum lífshamingju. Við erum enn að venjast þeirri hugsun að konur séu fullfærar um að taka eigin ákvarðanir og standa með þeim, að þær eigi val. Þessi réttur karla er mun frekar virtur og vegna þess að þeir hafa ekki líffræðilega getu til að bera börn hafa þeir alltaf haft það val að láta sig hverfa þegar í heiminn kemur óvænt einstaklingur sem þeir höfðu hugsanlega ekki kært sig um að yrði til. Konan sat eftir með ábyrgðina. Hún þurfti einnig að leggja líkama sinn undir til að hann fengi að koma í heiminn, í sumum tilfellum á kostnað eigin heilsu.

Getnaður verður við svo margvíslegar og fjölbreyttar aðstæður að þeir sem standa utan við geta aldrei fyllilega sett sig í spor hinna, alveg sama hve mörg börn þeir hafa fætt í heiminn eða alið upp. Þess vegna ber samfélaginu öllu að standa á hliðarlínunni, skipta sér ekki af meðan á ákvarðanaferlinu stendur en styðja konuna hver sem niðurstaða hennar verður. Konum er treystandi, þær eru duglegar, umhyggjusamar, ábyrgar og góðar. Þær vita hvað þær vilja og geta komist að bestu niðurstöðu fyrir sig. Enginn annar þarf að koma þar að nema sá sem vill rækta hið sanna systraþel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -