Undanfarið hafa einhverjar ferðaskrifstofur boðið viðskiptavinum sínum inneignarnótu í stað endurgreiðslu þegar þeir afpanta pakkaferðir vegna þeirra aðstæðna sem eru nú uppi vegna útbreiðslu COVID-19. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.
Þar segir að nú séu uppi óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður sem hafa verulega áhrif á framkvæmd pakkaferðar og því eigi farþegar rétt á að afpanta ferðir og fá að fullu endurgreitt, a.m.k. í þeim tilvikum sem fyrirhuguð ferð er á svæði sem landlæknir skilgreinir með mikla smitáhættu.
Í greininni segir að Neytendasamtökin geti ekki ráðlagt fólki að taka slíku boði, þ.e. að þiggja inneignarnótu í stað endurgreiðslu. „Í ljósi þess að fari allt á versta veg, eru inneignarnótur og gjafabréf verðlausar kröfur,“ segir í greininni en samtökin hafa í lengi vakið athygli á takmörkuðum rétti neytenda þegar kemur að gjafabréfum og inneignarnótum.
Vilja koma til móts við bæði neytendur og ferðaskrifstofur
Neytendasamtökin hafa því óskað eftir samstarfi við stjórnvöld og ferðageirann um aðgerðir til að efla rétt neytenda en koma á sama tíma til móts við lausafjárþurfi ferðaskrifstofur þar sem margt fólk leitar nú til samtakanna vegna pakkaferða sem ljóst er að ekki verður hægt að fara í.
Evrópsk systursamtök Neytendasamtakanna og framkvæmdastjórn ESB eru að skoða útfærslu sem miðar að því að neytendur geti frestað ferðalögum og valið að fá inneignarnótur með ríkisábyrgð.
„Í samræmi við þær hafa Neytendasamtökin boðist til að mæla með því við neytendur að þiggja inneign hjá ferðaskrifstofum þegar það á við, geti ferðamálayfirvöld tryggt að neytandi beri ekki skarðan hlut frá borði, kæmi til greiðsluþrots ferðaskrifstofunnar áður en inneignin er nýtt. Lögvarinn réttur til endurgreiðslu verði þó ekki tekinn af fólki, en með þessu yrði komið til móts við alla aðila; ekki yrði vegið að gjaldfærni ferðaskrifstofa, en neytendur halda rétti sínum. Neytendasamtökin bíða svars frá stjórnvöldum,“ segir í grein Neytendasamtakanna.