Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Hildigunnur, fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum: „Það er ruglað að vera myndlistarmaður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er hrærð og stolt yfir að hafa verið valin og hlakka raunar ótrúlega til þessa ferðalags,“ segir Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarmaður sem á næsta ári verður fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum.

Á hvað ætlar hún að leggja áherslu varðandi verkin sem verða sett þar upp?

„Ég mun halda áfram að vinna að verkum mínum sem hafa í gegnum feril minn hverfst um hið mannlega ástand og samband mannkyns við umheiminn, þau mannlegu kerfi sem hafa yfirtekið jörðina.“

Hildigunnur segir að með verkum sínum reyni hún að miðla uppgötvunum sínum sem geta birst í verkunum sem þekking, staðreyndir eða fegurð.

„Ætli það sé ekki nálgun mín á manngerða hluti sem tengir flest verka minna; einhver hugsun og fagurfræði frekar en efni eða aðferðir.“

Hún er spurð hvað listin sé í huga hennar.

- Auglýsing -

„Listin fyrir mér er lífsnauðsynleg heilbrigðu samfélagi manna. Listin er einhvers konar spegill, einhvers kostar ristilspeglun samfélagsins, og þar býr mikil sjálfskoðun og fegurð.“

Hvað gefur listsköpunin væntanlegum fulltrúa Íslands á Feneyjartvíæringnum?

„Ég reyni með myndlistinni að átta mig á tilverunni. Þegar verk verður til hef ég náð þeim stað að mér finnst tímabært að miðla uppgötvunum mínum til annarra.“

- Auglýsing -
Hildigunnur Birgisdóttir
Frá sýningunni Friður / Peace í i8 gallerí, 2022. Með leyfi listamannsins og i8 gallerí, Reykjavík.

Utan við sig

Hildigunnur talar um barnið Hildigunni.

„Ég hef held ég alltaf verið álitin pínu skrýtin. Ég var kannski ekki alveg normal barn þannig séð. Ég var mjög utan við mig alveg frá því ég fæddist. Ég bý svo vel af því að ég held að foreldrum mínum hafi fundist þetta skemmtilegt. Þau voru ekkert með miklar áhyggjur af mér þótt ég væri svona utan við mig og fögnuðu því bara. Ég þakka þeim það að ég fékk að silast áfram í mínu skrýtna hugarástandi.“

Hún segist alltaf hafa verið utan við sig og sem barn týnt öllu steini léttara og gleymt öllu. „Ég er örugglega með öðruvísi tengingar sums staðar í heilanum. Ég fór ekki í neina greiningu. Mér gekk alltaf vel í skóla. Ég held þetta hafi verið misskilningur; ég hefði alveg átt heima í greiningu. Þetta reddaðist allt á endanum. Foreldrar mínir voru þolinmóðir og fannst þetta eitthvað skondið.“

Hildigunnur er spurð hvenær barnið Hildigunnur hafi fengið áhuga á myndlist.

„Ég fór oft á listasöfn með foreldrum mínum og var dregin hingað og þangað. Ég áttaði mig fljótlega á því að þarna væri heimur sem kannski tjáði sig svipað og ég hugsaði að þetta væri kannski einhver staður fyrir mig. Ég á minningu þar sem ég horfði á verk eftir Kristján Guðmundsson; ég var bara pínulítil á Kjarvalsstöðum og virti fyrir mér verk sem heitir Einu sinni umhverfis sólu. Það er bókverk sem sýnir punktalínur og hver punktur er ein sekúnda. Þetta er sem sé ferðalag jarðar í kringum sólina í einni bók. Og ég ég bara átti svona móment þar sem ég stóð þarna og var föst á jörðinni sem var á ferðalagi í kringum sólina. Þetta eina bókverk fór með mig í þetta ferðalag.“

Barnið Hildigunnur hugsaði ekki með sér að hún yrði myndlistarmaður en þessu man hún sérstaklega eftir. Hún hafði áhuga á eðlisfræði sem barn.

„Ég hélt ég yrði ekkert endilega fullorðin; ég sá ekki fyrir mér að ég gæti orðið fullorðin. Ég sá ekki fyrir mér fullorðna Hildigunni að skrifa upp á víxil einhvers staðar í banka. En svo sá ég að það var ekki hægt að verða alltaf barn; ég sá engin fullorðin börn í kringum mig og ég vissi ekki hvernig þetta myndi enda. En þarna sá ég samhljóm. Ég sá að það var einhver sem var að hugsa eins og ég.“

Hildigunnur Birgisdóttir.
Frá innsetningunni GDP (verg landsframleiðsla), sem hluti samsýningarinnar To Moscow! To Moscow! To Moscow!, GES-2 House of Culture, unnið fyrir V-A-C Foundation, Moskva, 2021.
Mynd: Ivan Erofeev.
Með leyfi listamannsins og i8 gallerí, Reykjavík.

Komið víða við

Hildigunnur var ekki lengur barn og eftir grunnskólanám stundaði hún nám bæði á eðlisfræðibraut og myndlistarbraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Eftir útskrift hóf hún nám við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist árið 2003.

„Ég hef komið víða við eftir útskrift. Ég hef starfað sem kennari á öllum skólastigum, verið sýningarstjóri, menningarstofnunarstýra og setið í nefndum. Ég hef stofnað útgáfufélag og sýningarrými, rekið bókverkabúð, skúrað og unnið á leikskóla. En meðfram öllum þessum störfum hefur listin átt hug minn allan og ég hef alltaf unnið að henni í fallegum samhljómi við mitt persónulega líf.“

Í dag kennir Hildigunnur bæði við Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík. „Ég hef verið að kenna inngangskúrsinn við myndlistadeild listaháskólans og svo minn príma aldur í Myndlistaskóla Reykjavíkur eru nemendur á aldrinum fjögurra ára til fimm ára. Það er svolítið skemmtilegur aldur af því að börn á þessum aldri hafa ekki ennþá alveg farið í gegnum þessa hörðustu félagsmótun og hafa ekki heldur skólast mikið til og eru ennþá með mjög opinn huga; kerfin okkar eru ekki búin að klófesta þau.“

Minni skúlptúrar

Hildigunnur segist eiga yndislegan maka og tvö börn:

„Ég er ekkert rosalega góð í að vera praktísk manneskja í praktísku lífi þannig að ég fer í gegnum daginn með allt skrifað í dagbók til að muna hitt og þetta og ef það væri engin dagbók þá myndi ekkert gerast.“

En hvað með áhugamál?

„Það er ruglað að vera myndlistarmaður af því að það er líka áhugamálið. Ég spila badminton með mömmu minni á miðvikudögum og ég sýsla við að spila við börnin og reyni að njóta lífsins og lista með fjölskyldu og vinum.“

Hún er spurð um lífsreynslu sem hefur mótað hana:

„Ég var einstæð móðir um tíma af því að faðir eldri dóttur minnar flutti til útlanda. Fram að því hafði hún skipst á að vera hjá okkur. Mér fannst erfitt að vera myndlistarmaður eftir að ég var ein með hana og ég skildi ekki hvernig ég ætti að samþætta þetta tvennt. Þetta var snemma á ferlinum. Svo fór ég að búa til minni skúlptúra og fór að gera hluti sem ég gat tekið með heim af vinnustofunni og allt í einu var það að ég væri einstæð móðir orðið hluti af því hvernig ég gerði myndlist og hvernig myndlistin leit út. Og mér fannst myndlistin vera betri fyrir vikið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -