Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Hildur Björnsdóttir: „Maður er nefnilega svo óskaplega heppinn að fá að vera lifandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Sem oddviti Sjálfstæðisflokksins sækist ég eftir því að verða borgarstjóri í Reykjavík. Ég elska borgina okkar og brenn fyrir því að gera hana betri fyrir okkur öll. Það vantar aukna væntumþykju fyrir fólkinu og framtakinu sem býr í Reykjavík. Borginni ber fyrst og fremst að auðvelda íbúunum daglegt líf, veita öfluga grunnþjónustu og tryggja sterka innviði. Lausn leikskólavandans, húsnæðisvandans og samgönguvandans eru mér líka ofarlega í huga og eru raunar sérleg forgangsmál okkar sjálfstæðismanna.“

Hildur Björnsdóttir hefur verið borgarfulltrúi síðastliðin fjögur ár. „Í störfum mínum hef ég lagt ríka áherslu á öfluga leikskólaþjónustu, fjölbreyttar greiðar samgöngur, aukinn stuðning við sjálfstætt starfandi skóla og fjölskylduvænni borg. Heilbrigður fjárhagur og lægri álögur eru mér líka alltaf hugleiknar. Mér finnst ekki síst mikilvægt að Reykjavík fái að þróast sem græn framfaraborg í lifandi samkeppni við erlendar borgir um fólk og atgervi. Það á að vera eftirsóknarvert að búa í Reykjavík fyrir fólk á öllum æviskeiðum.“

Neikvæða og ómálefnalega umræðan þykir mér svo sérkennilegust.

Hildur er spurð hvernig þessi heimur stjórnmálanna sé. Hvað gefur hann henni og hvað tekur hann frá henni? Hvað er erfiðast við þetta starf?

„Þetta er auðvitað svolítið sérkennilegur heimur. Margt í umhverfinu þykir mér gamaldags. Langir fundir fram á nætur og langar umræður sem gjarnan skila engum ávinningi. Neikvæða og ómálefnalega umræðan þykir mér svo sérkennilegust. En ég er almennt meira gefin fyrir allt það jákvæða sem fylgir starfinu. Allt frábæra fólkið sem maður kynnist, hlutirnir sem maður lærir og tækifærin sem maður fær til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið.“

 

Baráttukona

- Auglýsing -

Hildur er lögfræðingur og segir að ástæðan fyrir því að hún fór svo út í stjórnmál tengist því að hún hafi alltaf verið ákveðin í því að vilja vinna fyrir fólk. „Af þeirri ástæðu fór ég í lögfræðina þar sem almennt gefst tækifæri til að aðstoða fólk við úrlausn flókinna mála. Stjórnmálin kölluðu þó alltaf á mig, ekki síst borgarmálin, enda veita þau einstakt tækifæri til að vinna fyrir fólk. Borgarmálin snúa að nærþjónustunni við borgarana og fjölbreyttum leiðum til að einfalda daglegt líf.“

Hildur var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands þegar hún var í lögfræðináminu þannig að þetta tengist ekki bara því að aðstoða fólk við úrlausn flókinna mála. „Ég er voðaleg baráttukona í mér. Hef alltaf verið fljót að reka augun í það sem betur mætti fara og finn knýjandi þörf til að laga það hvort heldur sem er á heimili, vinnustað eða í samfélaginu. Ætli það sé ekki ein ástæða þess að ég elska stjórnmálin. Þau eru hið fullkomna tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og leita lausna við þeim vandamálum sem blasa við.“

Á endanum lærir maður jafnvel að hafa húmor fyrir umræðunni.

Stjórnmálamenn þurfa að hafa sterkan skráp svo sem þegar kemur að gagnrýnisröddum. Tekur Hildur gagnrýni nærri sér? „Maður er ótrúlega fljótur að byggja upp þykkan skráp gagnvart gagnrýni og umtali. Á endanum lærir maður jafnvel að hafa húmor fyrir umræðunni, enda svo ótalmargt sagt sem er í hrópandi ósamræmi við veruleikann. Ég er hins vegar alltaf mjög opin fyrir málefnalegri gagnrýni og hef tamið mér að vera umkringd fólki sem er reiðubúið að veita uppbyggilega ráðgjöf. En starfinu fylgja líka svo mörg falleg og hvetjandi orð sem er mikilvægt að taka með sér.“

- Auglýsing -

Hildur Björnsdóttir

Krabbameinið

Gagnrýnin kallar á þykkan skráp en hún er kannski næstum því hjóm eitt miðað við áfallið sem Hildur gekk í gegnum á sínum tíma og breytti öllu.

Ætli ég hafi ekki orðið sjálfsöruggari og hugrakkari.

„Ég greindist með eitlakrabbamein sumarið 2016, aðeins sjö dögum eftir að dóttir mín fæddist. Við tók sex mánaða ströng lyfjameðferð sem blessunarlega leiddi til þess að ég náði fullum bata. Það hjálpaði mér mikið á þessu tímabili að halda í jákvætt hugarfar og umkringja mig öllu því stórkostlega fólki sem stóð mér nærri. Ég hef lært af þessari reynslu hve lífið er stutt og reyni því að lifa því til fulls. Fresta því ekki að láta drauma mína rætast og stökkva út í allar þær djúpu laugar sem freista og heilla. Ætli ég hafi ekki orðið sjálfsöruggari og hugrakkari af þessari reynslu, sit betur í sjálfri mér og veit betur hvað ég vil. Það hefur áhrif á mig sem manneskju, hvort heldur sem er í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi.

Ég vel hins vegar ekki að dvelja í sjálfsvorkunn.

Erfiðleikar og áföll móta mann sannarlega og ég hef fengið minn skerf af slíku. Ég vel hins vegar ekki að dvelja í sjálfsvorkunn en reyni mun fremur að draga lærdóm af aðstæðum og halda svo áfram með lífið. Maður er nefnilega svo óskaplega heppinn að fá að vera lifandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -