Laugardagur 28. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hildur Guðnadóttir: Hafnfirðingurinn sem heillar heimsbyggðina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari, var á mánudag tilnefnd til Óskarsverðlauna, en verðlaunahátíðin fer fram 9. febrúar. Hildur hefur hlotið mikið lof, tilnefningar til verðlauna og verðlaun fyrir tónlistina í Joker. Hún fékk Golden Globe-verðlaun fyrr í mánuðinum og kvöldið fyrir Óskarstilnefninguna fékk hún verðlaun Samtaka kvikmyndagagnrýnenda í Bandaríkjunum.

 

Margir telja Hildi líklega til að hreppa Óskarinn, ef það gerist er hún fyrsti Íslendingurinn til að vinna styttuna eftirsóttu. Þetta er í sjötta sinn sem Íslendingar fá tilnefningu til Óskarsins, en Hildur er áttundi Íslendingurinn. Árið 1992 var Börn náttúrunnar, kvikmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar, tilnefnd sem besta erlenda kvikmyndin. Árið 2001 voru söngkonan Björk og Sjón tilnefnd fyrir besta lagið í kvikmynd fyrir lagið I’ve Seen It All úr kvikmyndinni Dancer in the Dark. Pétur Benjamín Hlíðdal var árið 2005 tilnefndur ásamt Tom Fleischman fyrir bestu hljóðblöndun fyrir The Aviator. Rúnar Rúnarsson leikstjóri og Þórir Snær Sigurjónsson framleiðandi voru tilnefndir árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn. Jóhann Jóhannsson fékk tilnefningar árin 2015 og 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario.

Hildur er fædd 4. september 1982 og er að mestu uppalin í Hafnarfirði. Segja má að tónlistin renni um æðar Hildar, því hún er fædd og uppalin í tónlistarfjölskyldu og fór hún ung að læra tónlist. Foreldrar hennar eru Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir söngkona og Guðni Kjartan Franzson tónlistarmaður. Bræður Hildar hafa einnig lagt tónlistina fyrir sig, Gunnar Tynes er í rafhljómsveitinni MÚM, Ólafur Kolbeinn Guðmundsson lauk námi í píanóleik og Þórarinn Guðnason er gítarleikari hljómsveitarinnar Agent Fresco.

Hildur fékk Golden Globe-verðlaun fyrr í mánuðinum. Mynd /EPA

Í viðtali við Vísi í júlí í fyrra sagðist Hildur hafa slysast inn í kvikmyndabransann. „Ég eiginlega slysaðist bara inn í þetta og eftir því sem að maður vinnur meira innan þessa geira þá kynnist fólk manni betur og það vindur svolítið upp á sig. Það er voða fljótt að kvisast út hver er hvað og hver vill vinna með hverjum og svoleiðis,“ sagði Hildur og sagði bransann í Hollywood minni en fólk héldi miðað við stærð og umfang verkefna þar.

Tónlist Hildar komst að kjarna Jókersins

Óhætt er að segja að Hildur hafi átt meiri þátt í Joker, en bara að semja tónlistina. Aðalstef myndarinnar er leikið á selló, en sellóleikur Hildar hjálpaði við að skapa eina af eftirminnilegri senum myndarinnar. Todd Phillips leikstjóri hefur sagt frá því í viðtölum að hann og aðalleikarinn, Joaquin Phoenix, hafi verið að vandræðast með handritssenuna sem tekin er upp á baðherbergi. Sagði Phillips þá við Phoenix: „Ég er með tónlist hérna frá Hildi Guðnadóttur tónskáldinu okkar, sem hún var að senda mér,“ og spilaði hana fyrir Phoenix. Hann hreifst um leið, steig dans og segist þá fyrst hafa komist að kjarna Jókersins. Þeir tveir voru þeir einu á baðherberginu en fyrir utan beið 250 manna teymi myndarinnar. „Hann byrjaði bara að dansa og við litum hvor á annan og vissum að þetta var senan.“

- Auglýsing -

Stórmyndir á ferilskránni

Joker festi Hildi kyrfilega á stjörnuhimni Hollywood og er nafn hennar á allra vörum. Það er þó langt því frá að Joker sé fyrsta og eina verk Hildar sem vakið hefur athygli og lof, tilnefningar og verðlaun. Tónlist hennar í þáttaröðinni Chernobyl færði henni Emmy-verðlaun í byrjun janúar og tilnefningu til Grammy-verðlauna sem fram fara 26. janúar. Hildur vann með Jóhanni að tónlistinni í Sicario. Og á ferilskránni eru myndir og þættir eins og Ófærð, Sicario 2, The Revenant og Arrival, svo fátt eitt sé talið. Árið 2019 var þó það stærsta hingað til með Joker og Arrival og er Hildur komin í fremstu röð kvikmyndatónskálda Hollywood.

- Auglýsing -
Chernobyl.
The Revenant .
The Joker.
Arrival,.

Sjöunda konan í karlaveldi

Hildur er sjöunda konan sem er tilnefnd fyrir bestu tónlist í 92 ára sögu Óskarsins, alls eru tilnefningarnar tíu og verðlaunin þrenn. Hljóti hún styttuna eftirsóttu þá verður hún fyrsta konan í meira en 20 ár til að vinna Óskar fyrir bestu tónlist. Þær sem unnið hafa Óskar fyrir bestu tónlist eru Marilyn Bergman (Yentl 1983), Rachel Portman (Emma 1996) Anne Dudley (The Full Monty’s 1997). Angela Morley var tilnefnd 1974 og 1977, Lynn Ahrens 1997, Rachel Portman var einnig tilnefnd 1999 0g 2000 og Mica Levi 2016.

Stórlaxar í sama flokki

Aðrir sem tilnefndir eru í sama flokki og Hildur eru engir nýgræðingar í bransanum, fjórir karlmenn sem allir eiga margar tilnefningar til Óskarsverðlauna að baki og tveir þeirra hafa farið heim með styttuna og það oftar en einu sinni. Alexandre Desplat (Little Women), Randy Newman (Marriage Story), Thomas Newman (1917) og John Williams (Star Wars: The Rise of Skywalker). Williams hefur verið tilnefndur fyrir bestu tónlist 46 sinnum og unnið fjórum sinnum. Allt í allt hefur hann verið tilnefndur til 53 Óskarsverðlauna og er þannig sá sem hefur fengið næstflestar tilnefningar til Óskarsverðlauna, í fyrsta sæti er Walt Disney. Thomas Newman hefur 14 sinnum verið tilnefndur og Randy Newman níu sinnum, en hvorugur hefur unnið. Alexandre Desplat hefur 11 sinnum verið tilnefndur og unnið tvisvar. (Til gamans má svo geta að Randy og Thomas eru frændur).

Thomas Newman
John Williams
Alexandre Desplat
Randy Newman

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -