Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Hildur um hömlulausa matarfíkn: „Matarfíkn var að ganga frá mér-ég gat engan veginn stjórnað henni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þann 2. febrúar 2021 gekk ég ákveðnum skrefum inn á Klíníkina og fór í magaermisaðgerð. Með „smá“ kvíðahnút í maganum, ekki vitandi hvað næstu mánuðir myndu bera í skauti sér vissi ég samt að þetta væri það rétta fyrir mig“, segir Hildur Hlín Jónasdóttir í samtali við Mannlíf.

„Það að fara í svona aðgerð er alls ekki auðvelda leiðin út úr ástandi sem var að ganga frá mér bæði andlega og líkamlega. Allt ferlið krefst mikillar vinnu og undirbúnings og hefur þetta ferli kostað blóð, svita og tár í bókstaflegri merkingu.“

Hildur Hlín Jónsdóttir, er 38 ára og býr í Reykjanesbæ. Hún er gift og á 6 ára gamlan son og var að eignast sitt annað barn. Hildur er lærður margmiðlunarhönnuður og hefur unnið mikið við graffík síðastliðin ár. Hún hefur verið að reka lítið hönnunarfyrirtæki þar sem hún tekur að sér verkefni tengd graffík. Hildur er eigandi prjónafyrirtækisins Knithilda, en þar selur hún prjónauppskriftir og aðrar prjónatengdar vörur, en hún vinnur líka sem launa- og upplýsingarfulltrúi hjá fyrirtæki sem heitir Skólamatur. „Þannig að það má segja að ég hafi alveg nóg að gera.“

Alltaf verið hrædd við svona aðgerðir

„Ég ákvað í lok október 2020, þá á algjörri endastöð, að heyra í Aðalsteini skurðlækni á Klíníkinni og fræðast aðeins um aðgerðina. Ég hafði sjálf verið búin að afla mér einhverra upplýsinga og heyrt af nokkrum í kringum mig sem höfðu farið í svona aðgerðir og öðlast nýtt líf við það. Ég hafði sjálf alltaf verið mjög hrædd við svona aðgerðir, verið með mikla fordóma gagnvart þeim og talið þetta verið auðveldu leiðina út, sem það er svo sannarlega ekki.

En þetta símtal við lækninn breytti öllu og endaði það símtal á að ég var búin að bóka aðgerð. Léttirinn, maður minn, ég fann það strax þá að ákvörðunin var rétt og þar hófst í raun minn undirbúningur og ég varð bjartsýn í fyrsta skipti í langan tíma.

- Auglýsing -

Ég fór ekki í aðgerðina til þess að verða eitthvað ákveðið þung eða ná ákveðnu markmiði heldur til þessa að auka lífsgæðin mín og geta gert sjálfsagða hluti, eins og að leika við barnið mitt og svo mögulega eignast fleiri börn.“

Hildur var þá búin að prófað nánast allt undir sólinni. „Borða rétt – hreyfa mig, LKL, Ketó, ég tek Metformin og var á tímabili á lyfinu Saxenda sem er sykursýkislyf sem oft er notað til að hjálpa fólki í ofþyngd. Margt af þessu skilaði mér árangri í skemmri tíma en ekkert sem ég náði að halda eða vinna með.  Það var orðið rosalega þreytandi og slítandi að hafa prófað þetta allt til þess að reyna að laga ástand sem ég vildi ekki vera í og var það farið að draga verulega úr mér að prófa eitthvað nýtt því oft hafði ég náð mjög góðum árangri sem tapaðist svo jafn hratt aftur og leiddi oft til mikillar svartsýni og vanlíðan.

Ég vonaði svo innilega að aðgerðin myndi létta mér lífið, gefa mér von að ég gæti loksins eitthvað sem hefur reynst mér erfitt og nánast ómögulegt, þ.e. að létta mig. Þunglyndið og svartsýnin var orðin mikil og ég var hætt að vonast eftir einhverjum árangri og í raun búin að gefast algjörlega upp.“

Þessi matarfíkn var að ganga frá mér og gat engan veginn stjórnað henni og fannst ég vera mjög vanmáttug. Niðurrifið var gríðarlegt og vanlíðanin rosaleg

- Auglýsing -

Hömlulaus matarfíkn

Magaaðgerðir ganga undir nafninu efnaskiptaaðgerðir en með svona aðgerð breytast efnaskiptin í líkamanum og réttast í flestum tilfellum af. Hildur segir að flestir sjúklingar sem fara í svona aðgerðir eiga í vandræðum með efnaskipti í líkamanum eins og hún. Hún er með pcos sem er að hennar sögn hundleiðinlegur efnaskiptasjúkdómur sem leggst á konur og hefur marga leiðinda fylgikvilla. Pcos getur m.a. gert það að verkum að líkaminn offramleiðir insúlín (insúlín viðnám). Frumurnar vinna heldur ekki rétt úr insúlíninu, taka það ekki rétt upp, sem gerir það að verkum að umfram insúlín fer út í blóðið og breytist í glúkósa og svo fitu. „Þannig að fyrir mig var sjúklega erfitt að léttast þó svo að ég borðaði rétt og hreyfði mig mikið. Líkaminn minn sendi allt insúlín beint út í blóðið og gargaði svo eftir meira þar sem að frumurnar voru ekki að fá nóg og þar skapaðist vítahringur og upphafið af minni hömlulausu matarfíkn. Þessi matarfíkn var að ganga frá mér og gat engan veginn stjórnað henni og fannst ég vera mjög vanmáttug. Niðurrifið var gríðarlegt og vanlíðanin rosaleg.“

Pcos er margslungin sjúkdómur og leggst mismunandi á konur, sumar fá væg einkenni meðan aðrar fá mikil einkenni eða öðruvísi einkenni. Barneignir reynast t.d. mörgum pcos konum erfiðar og var það líka þannig í hennar tilfelli og hefur það tekið mikið á hana síðastliðin 15 ár.

„Ég á mjög erfitt með að verða ólétt, fæ t.d. ekki egglos nema með hjálp lyfja og blæðingar geta staðið í 20 daga og tíðahringurinn verið hátt í 40-60 dagar. Ég hef oft þurft lyf til að starta nýjum hring. Fósturmissar eru einnig algengari hjá pcos konum en við maðurinn minn eigum að baki þrjá mjög erfiða fósturmissa.

Síðasta ár er því búið að vera mjög viðburðaríkt og grunaði mig því ekki að í dag yrði ég á þeim stað sem ég er á nú. Nýbúin að eiga barn og lífsglaðari en nokkru sinni áður. Það stendur í bæklingnum sem maður fær eftir svona aðgerð að frjósemin geti aukist og man ég eftir því að hafa lesið það og hugsað „piff þetta á ekki við mig“ en viti menn 4 mánuðum eftir aðgerð verð ég ólétt algjörlega óvænt án nokkurra lyfja. Getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna og hræðsluna þegar við komumst að þessu, en það er ekki æskilegt að verða ólétt innan árs frá aðgerð. Meðgangan hefur þó gengið mjög vel og það er vel fylgst með mér. Út af aðgerðinni og hversu stutt síðan það er síðan ég fór að þá er ég flokkuð í áhættu meðgöngu. Ég er í endalausum skoðunum sem og blóðprufum og það hefur verið fylgst með okkur litla stubb.“

Er að læra nýja rútínu

Hildur segir aðgerðina hafa gengið mjög vel og var hún nokkuð fljót að jafna sig, „þannig séð en þetta var rosalega mikil vinna og álag að ná sér eftir aðgerðina. Líkaminn var hjá mér í raun fljótur að jafna sig, litlir verkir og ég komin á ról strax daginn eftir aðgerð. Hugurinn og andlega hliðin hefur þurft aðeins lengri tíma til að ná áttum. Ég var frá vinnu í tvær vikur, en það er mikilvægt fyrstu vikurnar að ná að jafna sig vel og læra á nýja rútínu. Eftir aðgerð er full vinna fyrstu vikurnar að læra að næra sig og drekka.

Fyrir aðgerð var ég á mjög ströngum hitaeiningasnauðum matarkúr í 3 vikur þar sem að ég í raun borðaði ekkert nema hrökkbrauð og próteinríkt álegg. Ég þurftir að skera hitaeiningar niður þennan tíma og borða í kringum 900 kaloríur á dag, en þetta er gert til þess að lifrin og önnur líffæri taki minna pláss og auðveldara sé að gera aðgerðina. Eftir aðgerð fer maður svo á fljótandi fæði í tvær vikur, en þá einbeitir maður sér að ná inn um 1,5-2 L af vökva á dag, sem er alveg erfiðara en að segja þegar maginn tekur bara í kringum 1-2 desilítra.

Eftir tvær vikur af fljótandi fer maður að kynna inn maukað fæði, en það tímabil reyndist mér erfitt og átti ég í smá vandræðum með að finna út hvað ég gat og mátti borða. Þá byrjar maður einnig að vinna með það að hætta að drekka 30 mín fyrir mat og drekka svo ekki aftur fyrr en 30 mín eftir mat, s.s. aldrei vökvi með mat. Þetta þýðir mikið skipulag og ég var með timer stilltan í símanum til að minna mig á hvenær ég mætti drekka og hvenær ég þurfti að hætta. Það er samt ótrúlegt hvað maður er fljótur að venjast þessu og finnst mér þetta ekkert mál í dag, enda með góða rútínu.“

Fannst ég vanmáttug

Andlega hliðin var á hræðilegum stað fyrir aðgerð eftir mörg ár af svartsýni og niðurrifi

Bataferlið gekk mjög vel og segir hún að það hafi komið henni á óvart hvað líkaminn hafi verið fljótur að aðlaga sig. Hausinn hafi tekið aðeins lengri tíma, en hún segir að sér hafi fundist það hafa tekið meira á að vinna í hausnum og andlegu hliðinni eftir aðgerð.

„Andlega hliðin var á hræðilegum stað fyrir aðgerð eftir mörg ár af svartsýni og niðurrifi. Ég var gjörsamlega búin að gefast upp og hélt að ég ætti enga von með að laga lífstílinn minn. Mér fannst ég vanmáttug sama hversu mikið ég reyndi og aldrei gekk neitt.

Ég lagði mikið á mig fyrir aðgerð og var vel undirbúin, endalaust margir sálfræðitímar að baki sem og annar undirbúningur. Ég ákvað strax og ég bókaði aðgerðina að vera vel undirbúin andlega og bókaði því reglulega sálfræði tíma hjá sálfræðing sem sérhæfir sig í að hjálpa fólki sem glímir við átröskunarsjúkdóma og er á leiðinni í eða hefur farið í svona aðgerðir. Ég fékk og fæ góða hjálp frá henni og mörg verkfæri sem ég hef nýtt mér í þessu ferli og finn alveg svakalega mikinn mun á andlegu hliðinni eftir aðgerð. Vinnan er langt frá því að vera búin og þarf ég að vinna í henni daglega til að ná árangri.“

Fitufordómar og fordómar fyrir efnaskiptaaðgerðum

Hildur segist finna fyrir fordómum í samfélaginu, bæði fitufordómum sem og fordómum fyrir efnaskiptaaðgerðum. Hún hefur oft heyrt sagt; „af hverju hættir þú ekki bara að borða og ferð að hreyfa þig. Ef málin væru svona auðveld að þá væru ekki svona margir í ofþyngd og þ.a.l í vandræðum með heilsuna. Ég sjálf hef lent í miklum fordómum vegna þyngdar minnar, bæði frá aðilum sem ég þekki sem og fagfólki í heilbrigðiskerfinu þar sem að maður varla þorir að fara til læknis því flest vandamál eða kvillar eru tengdir við þyngdina þó svo að í mörgum þeirra tilfella tengist kvillinn þyngdinni ekki af neinu leyti. Ég hef líka lent í því að fá ljót og leiðinleg komment frá aðilum varðandi þyngdina mína sem hafa bæði sært mig verulega mikið og sent mann niður í enn meira þunglyndi.

Mér finnst heilt yfir fólk ekki skilja ástæðuna fyrir ofþyngd, málið er ekki bara að fólk sé latt, nenni ekki neinu og vilji bara borða yfir sig. Ofþyngd er sjúkdómur þar sem að í mörgum tilfellum vinnur líkaminn ekki með fólki, efnaskiptin eru í rugli og matarfíkn er staðreynd. Það þurfa að vera til almennileg tæki og tól til þess að hjálpa fólki úr svona vítahring og ég vona svo innilega að það farið að breytast og að fólk sem á við ofþyngd að stríða og vill leita sér hjálpar mæti skilningi og fái þá hjálp og stuðning sem það þarf.“

Hildur hefur verið að deila lífi sínu eftir aðgerð, hvernig og hvað hún borðar ásamt því að reyna að uppræta fordóma fyrir svona aðgerðum á instagram síðu sinni @healthyhildur.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -