Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Hinsegin dagar og Bandaríska sendiráðið slíta samstarfi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjórn Hinsegin daga hefur slitið samstarfi við Bandaríska sendiráðið, sem hefur um árabil verið einn stærsti styrktaraðili hátíðarhaldanna. Formaður stjórnar segir ákvörðunina tekna að vel ígrunduðu máli. Ekki lengur sé hægt að taka við fjárstyrkjum frá bandarískum stjórnvöldum á meðan þau stundi árásir á réttindi hinsegin fólks.

Þetta átti sér nokkurn aðdraganda. Undanfarin ár, í raun frá því að núverandi forseti settist á forsetastól í Bandaríkjunum, hefur stjórn Hinsegin daga rökrætt hvort þiggja ætti styrki frá sendiráðinu hér á landi. Sendiráðið hefur styrkt Hinsegin daga í allmörg ár, en við valdatöku Donalds Trump urðu skýr skil í afstöðu bandarískra stjórnvalda til hinsegin fólks, segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, formaður stjórnar Hinsegin daga, þegar hann er spurður hvers vegna stjórnin hafi ákveðið að slíta samstarfi við Bandaríska sendiráðið.

Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum hefur verið unnið markvisst að því að draga úr vernd hinsegin fólks á vinnustöðum, með þeim fullyrðingum að lög gegn mismunun nái ekki til hinsegin fólks,“ bendir hann á. „Þá kom Trump því til leiðar að trans fólki var meinað að gegna herþjónustu og stjórn hans hefur dregið til baka verndarákvæði sem ætlað var að bæta réttindi og aðbúnað trans fólks í skólakerfinu. Hann tilnefnir fólk til dómaraembætta og annarra opinberra embætta sem hefur ítrekað unnið gegn hinsegin fólki í störfum sínum og auðvitað verður það til þess að hinsegin fólk á erfiðara með að leita réttar síns.

Vilhjálmur segir að listinn sé mun lengri. Trump hafi sem dæmi dregið úr réttindum HIV smitaðra og undir stjórn hans færist í aukana að hinsegin fólki sé neitað um réttindi og þjónustu með vísan til trúarlegrar sannfæringar. Haldi sú þróun áfram geti læknar og hjúkrunarfræðingar til dæmis neitað hinsegin fólki um heilbrigðisþjónustu. Á sama tíma lætur Trump stjórnin sem hún sé að beita sér gegn því að samkynhneigð sé refsiverð annars staðar, en þar beitir stjórnin sér eingöngu gegn pólitískum andstæðingum sínum í Íran, en stuggar hvorki við Sádí-Arabíu né Ísrael svo dæmi séu tekin.

Vilja ekki taka þátt í tvískinnungi bandarískra yfirvalda

Vilhjálmur segir stjórn Hinsegin daga hafa tilkynnt Bandaríska sendiráðinu ákvörðun sína þann 4. júní. Áður hafi þó komið til tals að slíta samstarfinu, til dæmis á síðasta ári þegar gagnrýni á Hinsegin daga vegna styrksins frá sendiráðinu var hávær. Nú hafi hins vegar verið algjör samstaða um þessa ákvörðun innan stjórnar vegna fyrrgreindra ástæðna.

- Auglýsing -

Bandaríska sendiráðið hefur verið styrktaraðili Hinsegin daga síðan 2012 en ári fyrr gekk starfsfólk þess í fyrsta skipti í Gleðigöngunni og hefur síðan þá tekið þátt sem einn hópur eða með öðrum sendiráðum í göngunni. Vilhjálmur segir að stjórn Hinsegin daga hafi átt í góðu samstarfi við starfsfólk Bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Það vegi eflaust þungt í því að ákvörðun um að slíta samstarfinu var ekki tekin fyrr. „Við gátum hins vegar ekki látið samstarf við þá einstaklinga ráða för og þegar litið var framhjá því var ákvörðunin alls ekki þungbær.“

Hann tekur fram að ýmsir hafi þó bent á á að sýnileiki Bandaríska sendiráðsins á Hinsegin dögum hafi veitt bandarísku hinsegin fólki, sér í lagi fólki búsettu hérlendis, vissan sýnileika og viðurkenningu. Eins hafi stjórn Hinsegin daga nýtt fjármagnið frá sendiráðinu til góðra hluta í þágu hinsegin samfélagsins. „En stóru línurnar eru alveg skýrar og við viljum ekki taka þátt í tvískinnungi bandarískra yfirvalda. Það er líka rétt að taka fram að við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá hinsegin fólki í Bandaríkjunum vegna þessarar ákvörðunar.“

Verða af verulegri fjárupphæð

- Auglýsing -

Hversu hárri upphæð sjáið þið á eftir með því að slíta samstarfinu?

„Þetta hefur verið veruleg upphæð fyrir Hinsegin daga,“ svarar hann, „og meðal annars staðið undir kostnaði við að tryggja aðgengi allra að tónleikum í Hljómskálagarðinum og kostnaði við árlega Fjölskylduhátíð hinsegin daga.“

Vilhjálmur segir vonast til að stjórn Hinsegin daga gefist sem fyrst tækifæri til að endurskoða þessa ákvörðun. „Það myndi nefnilega þýða, að bandarísk stjórnvöld hefðu breytt stefnu sinni gagnvart hinsegin fólki. Samstarfið við starfsfólk sendiráðsins hefur alltaf verið með miklum ágætum og ef bandarísk stjórnvöld sýndu hinsegin fólki og réttindamálum þess virðingu þá tækjum við samstarfi fagnandi á ný. En þar til það verður munu Hinsegin dagar ekki þiggja styrki frá bandarískum stjórnvöldum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -