Borgarfulltrúi Pírata – Dóra Björt Guðjónsdóttir – er algjörlega gáttuð á hegðun formanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur. Einkaskilaboð Kristrúnar til kjósanda þess efnis að Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri yrði ekki ráðherra ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn voru birt í Facebook-grúppu íbúa í Grafarvogi, en þetta kom fram á RÚV.
Í skilaboðunum segir Kristrún að Dagur muni eigi verða ráðherra ef Samfylkingin kemst í ríkisstjórn; sagði Kristrún jafnframt að umræddur kjósandi gæti mögulega strikað út nafn Dags á kjörseðlinum:

„Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar á samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það. Hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni,“ segir í skilaboðum Kristrúnar.
„Ég er gáttuð á þessari hegðun Kristrúnar, eins ágæt og hún nú er gamla handboltavinkona mín,“ sagði áðurnefnd Dóra Björt í Facebook-færslu; sagði þennan gjörning afhjúpa takmarkaðan skilning á vægi fyrrverandi borgarstjóra til lengri tíma við mótun borgarinnar; þekkingar hans á stjórnmálum og getu til að halda utan um flókið samstarf:
„Það er hreinlega synd að búið sé að taka fyrir að Dagur verði ráðherra í komandi ríkisstjórn sem og sóun á hans hæfileikum og tapað tækifæri fyrir Samfylkinguna og samfélagið okkar. Er áróður Sjálfstæðisflokksins gegn einum allra áhrifamesta pólitíkusi Samfylkingarinnar fyrr og síðar búinn að blinda formann flokksins?“

Hér má lesa skilaboð Kristrúnar í heild sinni:
„Ég er formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins. Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn.
Í stórum breiðum flokki sem [Samfylkingin] er og þar að vera til að leiða raunverulegar breytingar veljast alltaf inn einhverjir einstaklingar sem kjósendur hafa skiptar [skoðanir] á. Þannig hefur lýðræðið alltaf virkað. En ég skil vel sjónarmið fólks sem vill ekki hafa hann og ef þú býrð og kýst í Reykjavík norður, þar sem ég er oddviti og hann er í öðru sæti, þá liggur beinast við að strika hann út í kjörklefanum.
Ég bið þig að líta á heildarmyndina, áherslurnar sem ég hef barist fyrir undanfarin ár í húsnæðis-, efnahags- og heilbrigðismálum. Auðlindamálum. Það eru áherslurnar sem munu einkenna [Samfylkinguna] í ríkisstjórn, ekki hvað borgin hefur gert.
Dagur stýrir ekki [Samfylkingunni], ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni. Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar á samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það. Hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni. Staða hans á listanum breytir engu um áherslur [Samfylkingarinnar] og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu því sem borgin hefur gert.
Það hefur orðið gífurleg endurnýjun á listum [Samfylkingarinnar] heilt yfir!
Nú reynir á okkur í [Samfylkingunni] að sýna og sanna hvar við stöndum og [að] við séum traustsins verð á næstu vikum.
Hvet þig til að fylgjast með og gefa þessu tækifæri.“