Það verður vestangola framan af degi, skýjað og dálítil væta á vesturhluta landsins, en bjart með köflum austan til. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Þar segir að seint í dag muni snúast í norðlæga átt, 5-13 m/s, og þykkna upp með dálitlum éljum um landið norðan- og austanvert, en létta til suðvestan- og vestanlands. Hitinn verður 5 til 14 stig fyrripart dags, hlýjast á Suðausturlandi, en það kólnar norðanlands með deginum.
Norðaustan gola eða kaldi á morgun, bjartviðri suðvestan- og vestanlands, og það styttir upp með morgninum fyrir norðan. Eftir hádegi þykknar upp syðst á landinu með skúrum eða éljum. Hiti nálægt frostmarki norðaustan til, en það verður áfram milt sunnanlands yfir hádaginn.