Í Stóru Disney matreiðslubókinni sem kom út fyrir jólin velur Tobba Marinósdóttir fjölmiðlafræðingur vinsælustu og bestu uppskriftirnar úr eldri bókunum í þessum bókaflokki og lét að auki fylgja nokkrar af hennar uppáhaldsuppskriftum.
„Þessi bók er fyrir alla,“ segir Tobba ákveðin en þarna má finna allt frá plokkfiski upp í hátíðarrétti og bakstur. „Hugmyndin er að vekja áhuga barna á eldamennsku en allar uppskriftir eru merktar með erfiðleikastuðli og vinsælum Disney-persónum. Disney setti nýlega ný heilsuviðmið svo leitast er við að hafa uppskriftirnar að hollum og næringarríkum réttum. Meðal höfunda eru gourmet-grallarar og eldhúsmeistarar á borð við Sollu Eiríks, Sigga á Gott, Sigga Hall og Ebbu Guðnýju.“
Allar uppskriftir eru merktar með erfiðleikastuðli og vinsælum Disney-persónum.
Sjálf er Tobba tveggja barna móðir og hefur reynslu af matreiðslu fyrir börn.
„Fiskur að hætti Frozen-systra er mun vinsælli en annar fiskur. Dóttur minni finnst gaman að fá að velja uppskriftir úr bókinni. Hún heldur sérstaklega upp á fiskbollurnar og hnetusmjörskúlurnar. Í bókinni eru einnig nokkur góð leyniráð. Til dæmis má setja smávegis rauðrófusafa eða náttúrulegan matarlit út í pottinn þegar verið er að sjóða fisk. Bleik ýsa er mun meira spennandi.“
Hún segir að flestir foreldrar kannist við að erfitt geti reynst að koma hollum mat ofan í börnin sín.
„Enda svo með morgunkorn í kvöldmat eftir öskur og drama. Við erum öll að reyna að gera okkar besta. Þessi bók er liður í að reyna að gera hollt spennandi. Til dæmis hjálpar að skera grænmetið út með piparkökumótum og mauka spergilkál í bústið.“