Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hjálpartæki og félagi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blindrafélagið framleiðir þetta árið dagatal félagsins eins og undanfarin ár með myndum af leiðsöguhundum. Ágóðanum er varið til kaupa á leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta hér á landi. Sigþór U. Hallfreðsson, formaður félagsins, segir að kaupa þyrfti um tvo hunda á ári. Einungis átta leiðsöguhundar eru á landinu í dag.

„Lítil hefð var fyrir leiðsöguhundum á Íslandi fyrir rúmum áratug en árið 2008 safnaði Blindrafélagið ásamt Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir fjórum hundum sem voru keyptir frá Noregi,“ segir Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins. „Það markaði upphafið að því sem við höfum síðan kallað „leiðsöguhundaverkefnið“ sem félagið stendur að í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.“

Sigþór segir að fljótlega hafi félagið séð fram á að þörfin var meiri auk þess sem það styttist í endurnýjun á hundunum. Var farið aftur af stað með að útvega hunda í samvinnu við Blindravinafélagið og Lionshreyfinguna sem tileinkaði leiðsöguhundaverkefninu landssöfnun Rauðu fjarðarinnar, árið 2015.

Fæst núna líka í verslunum

Árið 2012 var fyrsta leiðsöguhundadagatal Blindrafélagsins gefið út í þeim tilgangi að fjármagna kaup á leiðsöguhundum og síðan hefur dagatalið verið gefið út árlega í þessum tilgangi. „Við létum að þessu sinni framleiða 18.000 dagatöl. Hingað til hefur salan farið meira og minna þannig fram að við höfum sent dagatölin á valinn hóp velunnara og gíróseðil með en eitthvað af því skilar sér náttúrlega ekki. Við höfum líka selt dagatölin í gegnum vefverslun Blindrafélagsins og núna erum við í fyrsta sinn að selja dagatölin m.a. í völdum verslunum Bónus og A4 og verið er að vinna í að koma þeim í sölu víðar en þau eru í standi við kassana. Við erum að reyna að stækka hópinn sem kaupir dagatölin.“

Dagatalið kostar 1939 krónur og segir Sigþór að það tengist ártalinu 1939 þegar Blindrafélagið var stofnað.

- Auglýsing -

Ættu að vera fleiri

Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum þetta verkefni undanfarinn áratug og eru núna starfandi átta leiðsöguhundar á landinu. „Hundarnir mættu og ættu að vera fleiri. Þeir eru yfirleitt tilbúnir til notkunar tveggja til tveggja og hálfs árs gamlir og má gera ráð fyrir að þeir endist þar til þeir verða um 10 ára. Það fer reyndar eftir tegundinni en við höfum eingöngu verið með labrador-hunda en önnur hundakyn geta líka hentað ágætlega.“

Sigþór segir að þeir sem hafa áhuga á að komast á biðlista eftir leiðsöguhundi þurfi að fara á námskeið þar sem metið er hvort leiðsöguhundur henti aðstæðum hvers og eins. „Viðkomandi áttar sig þá líka á því hvort leiðsöguhundur myndi nýtast honum. Það eru ekki allir sem sjá fyrir sér að nota hundinn nógu mikið eða líst ekki á að halda hund en því fylgir mikil ábyrgð. Það liggja núna fyrir fjórar umsóknir frá fólki sem hefur farið á námskeið og við höfum líka spurst fyrir á meðal félagsmanna og hafa um 30 manns sýnt áhuga á að fá leiðsöguhund og þar af 15 mikinn áhuga. Það ættu að vera fleiri hundar í vinnu hér á landi miðað við fjölda þeirra sem eru blindir eða sjónskertir. Við horfum til þess að reyna að fá tvo nýja hunda á ári að jafnaði til þess að endurnýja þá sem þegar eru fyrir og fjölga í hópnum.“

- Auglýsing -

Aukið sjálfstæði

Sigþór segir að það geti skipt miklu máli fyrir blindan eða sjónskertan einstakling að hafa leiðsöguhund. „Leiðsöguhundurinn er skilgreindur sem hjálpartæki og sem slíkur er hann eins og hvíti stafurinn og önnur hjálpartæki, stuðningur til sjálfstæðis. Tilgangurinn er að aðstoða notandann við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Notandi leiðsöguhunds er frjálsari ferða sinna og á auðveldara með að komast á milli staða. Notandinn ákveður hvaða leið er farin og stýrir hundinum sem forðar viðkomandi frá hindrunum en  hundurinn stoppar til dæmis við gangbrautir og kemur í veg fyrir að viðkomandi gangi í veg fyrir bíla. Þessu fylgir aukið frelsi og öryggi. En leiðsöguhundur er líka félagi og vinur sem kalla má notalega aukaverkun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -