Hjalti Björnsson, áfengisráðgjafi og fararstjóri, segir að það að hann drakk oft og mikið sem varð til þess að hann fór í meðferð. Hann gerðist síðar áfengisráðgjafi og vann hjá SÁÁ í 30 ár þar til nýr framkvæmdastjóri sagði honum upp. Hann rekur í dag eigin stofu. Hjalti talar meðal annars um unga manninn sem tók eigið líf eftir að hann féll og hann talar um að umburðarlyndi sé ekki fallið til þess að minnka neyslu. Það gerist líka ýmislegt á hálendinu og á fjöllum og segir Hjalti frá hópi erlendra manna sem í sumar lásu ekki í veðrið íslenska og lentu í hættu sumir hverjir. Hjalta finnst ömurlegt að heyra fólk gefa í skyn að þetta muni alltaf reddast; fólk sem kemur jafnvel á vanbúnum bílum og þverar ár og göngufólki sem er illa búið.
Fæðist maður með þessi ósköp að vera alki?
„Þú fæðist með einhverja veikleika og þú fæðist með einhverja styrkleika. Hvað verður svo úr þessu er flókið. Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessu. Ég veit að þetta liggur svolítið í ættum en það eru félagslegir og það eru líkamlegir hlutir sem hafa áhrif á þetta og áföll hafa mikil áhrif. Þó við vitum líka að langflestir sem lenda í áföllum verða ekki alkóhólistar þá hafa áföll áhrif á þessa mynd,“ segir Hjalti Björnsson, áfengisráðgjafi og fararstjóri, í viðtali í Mannlífinu með Reyni Traustasyni. „Þannig að ef þú ert með þessa genetísku veikleika í þér og færð einhver högg þá getur þetta saman orðið svæsin mynd. En ég er gott dæmi um það að hafa ekki orðið fyrir neinum áföllum en varð samt alveg svakalegur alkóhólisti Þannig að það kom ekkert fyrir mig í mínu lífi. Ég fékk dásamlegt uppeldi að mörgu leyti og betra en margir og góð tækifæri en samt fór það þannig að ég skautaði alveg út í ystu horn þessa sjúkdóms. Ég drakk mikið og drakk oft og einn daginn var engin leið til baka.“
Þú skrapaðir botninn.
Þetta er ekkert mál, Hjalti minn, þú þarft bara að leggja frá þér flöskuna.
„Já. Ég fór í meðferð 1983. Ég var 27 ára. Þá hitti ég í fyrsta sinn á ævinni AA-mann. Ég hafði aldrei heyrt talað um þetta. Ég vissi ekki neitt um þetta. Mér finnst eins og hann hafi talað einhvern veginn út úr mínu hjarta. Hann var að segja eitthvað sem ég tengdi svona svakalega vel. Hann klappaði á öxlina á mér og sagði „þetta er ekkert mál, Hjalti minn, þú þarft bara að leggja frá þér flöskuna“. Þetta var einhvern veginn svo einfalt, auðvelt og sjálfsagt í hans huga og ég ákvað bara að trúa þessu og það gekk bara mjög vel.“
Og það dugði þér bara ein tilraun?
„Já.“
Er ekki alltaf von? Segir þú það ekki við manninn sem fellur í 20. sinn að það sé von?
„Jú, það eru líka til rannsóknir sem segja að ef þú ert búinn að vera að ströggla mikið og búinn að reyna oft þá aukast líkurnar á að þér takist það eftir því sem tilraununum fjölgar. Alveg öfugt við það sem maður ímyndar sér; að þetta verði alltaf vonlausara og vonlausara. Þannig að ég hughreysti fólk með því að líkurnar aukist með hverri tilraun. Í hvert sinn sem fólk kemur til mín niðurbrotið og við grátum yfir því hvað illa fór þá hefur það færst einu skrefi nær því takmarki sem það hefur horft á og sett sér.“
Gekk harkalega fram
Hjalti var dagskrárstjóri hjá Vogi.
„Ég átti 30 ár með SÁÁ og Þórarni Tyrfingssyni,“ segir hann en þeir Þórarinn eru mágar.
„Við unnum þarna saman og þetta finnst mér vera toppurinn í mínu faglega lífi. Þarna var samhentur hópur, gríðarlega sterkur hópur, og einkenndist af metnaði til að vinna fyrir sjúklingana. Þannig að bestu ár ævi minnar voru þar. Svo er maður auðvitað að eldast og svo kom þarna ofbeldisfullur yfirmaður, Valgerður Rúnarsdóttir, og tók við af Þórarni og hún rak mig. Og það var auðvitað mjög leiðinlegt fyrir mig. En hún valdi það og gekk mjög harkalega fram, bæði óheiðarlega og ofbeldislega. Ég bara segi það þannig án þess að ég ætli að ræða það frekar af því að ég er bara búinn með þann pakka.“
Ég er á miklu betri stað á allan hátt heldur en að vinna með einhverri konu sem vill ekki hafa mann í vinnu.
Var þetta af faglegum forsendum eða af því að þið Þórarinn höfðuð unnið saman?
„Nei, hún laug upp einhverjum skipulagsbreytingum og bara eitthvað bull. Svona á ekki að koma fram við þá sem eru búnir að vinna einhvers staðar í 30 ár.“
Hjalti segir að Valgerður hafi ekkert þurft að útskýra uppsögnina. „Hún hafði vald til að gera þetta og gerði það. Hún hafði bara vald til að reka mig og gerði það. Og allt í góðu í dag með mig. Ég er á miklu betri stað á allan hátt heldur en að vinna með einhverri konu sem vill ekki hafa mann í vinnu. Það er líka mjög óþægilegt. Ég var búinn að finna það alveg áður en til þess kom að hún ræki mig þannig að ég var alveg búinn að gera mér grein fyrir því hvert stefndi svolítið lengi.“
Engin krafa
Hjalti er með eigin stofu í Reykjavík og segist hitta einstaklinga sem annaðhvort vilja ekki fara í heðfbundna inniliggjandi áfengismeðferð eða þurfa þessa ekki. „Það eru margir sem þurfa ekkert að fara í meðferð en þurfa samt stuðning og hvatningu til þess að koma sínum málum í betra horf. Ég er mikið með eldra fólk. Það hefur einhvern veginn þróast þannig hjá mér og ég er að tala við eldra fólk sem veigrar sér við að fara inn á stórar stofnanir. Vill það ekki. Og sumir þurfa þess ekki. Þessi hópur, eldra fólk, er í töluverðum vanda. Það hefur meiri pening, það er auðveldara aðgengi, það er viðurkenndara að drekka og það er viðurkenndara að drekka oft og við hin ýmsu tækifæri. Þannig að þeir sem eru veikir fyrir eru ansi útsettir og eru í töluverðu basli. Ég sé mikið af þannig fólki. Svo kemur líka til mín unglingahópur og fjölskyldur. Ég veit ekki hvort það er út af því að ég er að vinna svolítið einangraður – en við erum bara tvö að vinna saman og svo einhverjir sálfræðingar og geðlæknar í kringum okkur – en mér finnst vera meira vesen; meira vandamál og vaxandi vandi,“ segir Hjalti og á við unga fólkið. „Þá er ég að tala um frá 15-17 ára. Bara unglingar sem eru að detta úr skóla eða ná engum árangri eða geta ekki unnið og tolla ekki í vinnu. Allavega þessir sem ég er að hitta minna mig svolítið á það sem var að gerast fyrir 2000. Það var mjög slæmt ástand í þessum málum frá 1996 fram yfir 2000. Á þeim tíma var byggð unglingadeild á Vogi, hjá SÁÁ, og þá fannst mér ég sjá þessa einstaklinga sem ég er að sjá núna sem eru komnir mjög djúpt inn í þetta. Og auðvitað fylgir þessu mikið ofbeldi. Alls konar ofbeldi. Kynbundið og fjárhags. Þannig að þetta eru oft alvarlegir hlutir sem maður er að fást við.“
Umburðarlyndi gagnvart því að vera í neyslu hefur aukist.
Hver er lausnin?
„Annars vegar vitum við mjög mikið um hvernig þetta er, hvernig þetta þróast og við vitum mjög mikið um það hvað hefur áhrif á neysluna, hvað eykur hana og hvað minnkar hana. Það er þessi fræðilegi hluti. Það eru til alls konar rannsóknir. En síðan komum við að hinni hliðinni. Við erum á ferðalagi sem er alveg andstætt því þannig að við erum að gera í raun og veru allt annað en það sem við ættum að vera að gera. Við erum að auka aðgengi, við erum að auka frjálsræði og við erum að auka í raun og veru aðstoð. Skaðaminnkandi úrræði eru núna mjög vinsæl og mikilvæg. Umburðarlyndi gagnvart því að vera í neyslu hefur aukist. Þannig að í raun og veru erum við með þekkinguna og vitum alveg hvað við þyrftum að gera til að ná utan um þetta en við erum bara á annarri leið. Við erum í öðru ferðalagi. Við fórum bara upp í annan bíl óvart eða viljandi; ég veit ekki hvort er.“
Umburðarlyndi er ekki til þess fallið að minnka neyslu.
„Nei, ekki eins og ég sé það. Ég sé það ekki sem lausn að maður eigi endalaust að ýta undir og aðstoða við að vera í neyslu. Á einhverjum tímapunkti þarf maður að segja „nei, þú hefur tækifæri og möguleika og það eru til lausnir og leiðir út úr þessum vanda“. Það þýðir ekki bara að sitja og hokra hér, vera fastur í sömu hjólförunum og segjast ekkert geta gert. Það er ýmislegt hægt að gera en í dag er engin krafa á fólk með vímuefnaröskun eða áfengisröskun.“
Það á bara að hjálpa því?
„Já, þannig sé ég það. Og auðvitað má vera að sú sýn sé skökk og svolítið skert en ég sé þetta svona.“
Fyrirfór sér
Skjólstæðingar Hjalta í gegnum áratugina eru margir og er hann spurður hvað sé það sorglegasta sem hann hefur upplifað varðandi þá.
„Auðvitað er það þannig þegar maður er að vinna lengi með fólk að maður kynnist því og tengist því tilfinningaböndum. Og fólk kemst misnálægt manni. Ég man sérstaklega eftir ungum manni sem kom í meðferð og gekk illa. Hann kom nokkrum sinnum til okkar og þá var ég á Staðarfelli í Dölum.“ Hjalti segir að maðurinn hafi orðið edrú og að um hafi verið að ræða tvö til fjögur ár og fór hann í háskóla og lauk námi. „Mjög greindur maður og flottur. Svo heyrði ég einn daginn að hann væri látinn. Hann hafði þá fallið og fyrirfór sér. Það gerist stundum þegar fólk er að falla í þessum sjúkdómi að örvæntingin er svo mikil og sérstaklega þegar um er að ræða ungt fólk og þá grípur það til örþrifaráða. Og hann sá enga aðra leið út úr þessu.“
Hjalti segist hafa orðið svolítið hissa á viðbrögðum sínum en dauði mannsins hafði mikil áhrif á hann. „Mér fannst þetta ofboðslega sorglegt.“
Ég er af þeim skóla og af þeirri gerð að ég held að viðkomandi sé aldrei alveg laus.
Hjalti er spurður hvenær fólk sé laust úr súpunni. Er það laust ef það er búið að vera edrú í 20 ár eða er það aldrei laust?
„Það er lausara. Ég er af þeim skóla og af þeirri gerð að ég held að viðkomandi sé aldrei alveg laus.“
Hvernig ræktar fólk edrúmennskuna? Eru það fundir?
„Mjög margir nota þessi samtök og margir meðferðaraðilar benda fólki á það. Það er alveg prýðileg lausn og hjálpar mörgum. En síðan er það stór hópur sem af ýmsum ástæðum getur ekki eða vill ekki nýta sér það og þeir geta þá nýtt sér fagfólk. Fólk getur alveg fengið það sama út úr því að hitta meðferðaraðila sinn, sálfræðing eða geðlækni sem hefur þekkingu á málinu. Það er rosaleg mýtaa að það þurfi einn sem var í skítnum til að hjálpa hinum. Það var viðhorfið þegar ég var að byrja í þessu að það ætti eiginlega ekki að gera þetta nema að hafa verið í leðjunni sjálfur. En að sjálfsögðu er þetta þannig að það er hægt að læra þetta. Þetta er bara ákveðið fag og maður lærir ákveðnar meðferðir og aðferðir til þess að fást við fólk og það eru engin geimvísindi í sjálfu sér. Það eru mjög einföld ráð sem duga í þessu. Þannig að fólk kemur til meðferðaraðila og mörgum er bent inn í þessi samtök, AA-samtök, og fleiri. En það er hægt að fá þessa hjálp víða í dag. Það eru margir aðilar sem hafa í dag þekkingu til þess að veita jafngóða og jafnvel betri þjónustu heldur en hægt er að fá inni á einhverjum risastórum meðferðarstöðum.“
Sennilega lífsbjörg
Hjalti Björnsson fann réttu leiðina hvað Bakkus varðar og hann hefur lengi unnið sem leiðsögumaður og gengið með fólki upp um fjöll og firnindi. Hann heldur utan um fjallaverkefni hjá Ferðafélagi Íslands sem kallast Alla leið og Esjan öll.
Hjalti segist í fyrra hafa tekið saman hvað hann gekk mikið það árið: Um 2.800 kílómetra.
Talið berst að ferð á Laugaveginum í sumar.
„Það var búið að spá illviðri á Fjallabaki á fyrri hluta júlímánaðar og flestir tóku það nú alvarlega,“ segir Hjalti og bendir á að margir erlendir ferðamenn þekki ekki íslensku veðráttuna. „Þessi spá var ekkert sérstaklega slæm; svona veður koma á hverju ári nokkrum sinnum yfir sumarið og það skellir á með suðaustan ofankomu, rigningu og í þessu tilfelli var kalt og mikill vindur. Ég hugsa að þarna hafi verið yfir 200 manns. Þetta var alger háannatími. Langflestir eru vel búnir og tilbúnir í þetta og finnst bara gaman að takast á við veðrið. Og útlendingar eru ekkert öðruvísi heldur en Íslendingar; þeim finnst þetta vera spennandi og gaman.
Ég var að fara með hóp frá fyrirtæki sem ég vinn fyrir sem heitir Arctic Adventure og er risastórt í afþreyingaferðum og minn hópur var mjög vel búinn í vatnsheldum klæðnaði og góðum skóm og með húfur, vettlinga og skíðagleruaugu og með allan búnað. Ég var búinn að undirbúa þau vel undir að ganga í rólegheitum án þess að stoppa frá Álftavatni og í Emstrur. Síðan skall veðrið á og fór fljótlega að rigna mikið og var mikið hvassviðri.“
Ég hafði aldrei séð svona lífvana einstakling.
Á leiðinni kom maður hrópandi á móti hópnum og segir Hjalti að hann hafi látið ófriðlega. „Hann hafði ætlað að fara á bak við stein að ganga örna sinna en þá lá þar meðvitundarlaus maður sem hafði leitað vars á bak við steininn sem er dálítið stór. Það byrjaði að streyma að fleira fólk fyrir utan okkur. Fyrst þegar ég þreifaði á manninum hélt ég að hann væri dáinn. Hann var svo svakalega kaldur og lífvana. Ég er ekki læknir og get ekki úrskurðað fólk látið. Það eru bara læknar sem gera það. En ég var sannærður um að svo væri. Ég hafði aldrei séð svona lífvana einstakling.“
Hjalti hringdi í 112 en þá hafði einhver annar gert það og var björgunarsveit á leiðinni á svæðið og var sagt að hún kæmi eftir um 20 mínútur. Við reyndum að verja manninn fyrir rigningunni og kuldanum og klæddum hann úr blautum fötunum og komum honum í þurran svefnpoka. Þetta var atgangur í 10-15 mínútur.“
Björgunarfólk kom svo á staðinn og maðurinn var fluttur til byggða.
„Ég held að þarna hafi verið um að ræða lífsbjörg með þessum aðgerðum og þessum hóp.“
En þetta var aldeilis ekki búið þarna.
Stríðsástand
„Maður gengur í gegnum skarð áður en maður beygir niður í Emstrurnar, niður í Botna og Markarfljótsgljúfur og þar var önnur uppákoma.“ Þar var öskrandi stúlka og lá önnur á jörðinni. „Hún var nú ekki meðvitundarlaus en meðvitundarlítil og hafði greinilega ofkælst og var rugluð. Það var hálftíma til 40 mínútna ganga í skálann þannig að við útbjuggum börur og bárum hana niður í skála. Og þá fyrst byrjaði bíóið þegar við komum þangað.
Og hvorugur hópurinn gaf sig.
Það kom seinna í ljós að báðir þessir einstaklingar voru í ferð með belgísk-hollensku fyrirtæki sem var með yfir 50 manna hóp og voru fararstjórarnir tveir. Meira og minna allur þessi hópur var gríðarlega vanbúinn. Þau voru í tjaldferð og voru með búnað sem réð engan veginn við þetta veður. Engan veginn. Þarna voru þessir fararstjórar búnir að hertaka skálann sem ég var að fara í og voru komnir inn með tugi manns. Þetta er 20 manna skáli en ég hugsa að það hafi verið um 40 manns í skálanum. Annar stór hópur var búinn að stela gashitaranum sem átti að vera í skálanum og færa hann yfir í eldhústjald. Og hvorugur hópurinn gaf sig. Þessi hópur sem var í skálanum ætlaði ekkert að hleypa okkur inn með þessa stúlku sem við komum með og hinn hópurinn sem var með hitarann neitaði að láta hann af hendi. Það var bara stríðsástand þarna. Í alvöru. Ég er búinn að vera út um allt að ganga og í útivist en ég hef aldrei á ævinni upplifað svona. Maður var að reyna að öskra á fólk að það væri mikill munur á því að vera kalt eða hafa ofkælst. Því þeim var kalt. Þeim var gríðarlega kalt. Það var öllum kalt. Mér var orðið skítkalt því ég var búinn að lána megnið af fötunum mínum. En þarna vorum við með hollenska stúlku og hún hafði ofkælst alvarlega.“
Hjalti segir ringulreið hafi ríkt í tvo til þrjá tíma. Algert stjórnleysi.
„Það tók tvo tíma fyrir mig og skálavörðinn að ná utan um þetta og líka fyrir okkur að róa okkur niður og finna út hvað við ætluðum að gera. Það er enginn með áætlun í höfðinu hvernig hann ætlar að tækla svona mál. Síðan varð til sú lausn að þjarma að fólki; að það yrði að láta sækja sig og yrði að fara af svæðinu. Þá var gengið í það að hringja í fyrirtæki sem er með búnað til að koma þarna upp eftir, South Coast Adventure heitir það, og það fór um hálftími í að finna út úr því hve margir bílar á Suðurlandi gætu sótt þetta fólk og hvað það myndi kosta því fólkið varð að borga þetta sjálft. Það endaði með því að þessi ferðaskrifstofa sem var með þessa 50 manns tók loksins ábyrgð á því. Það tók langan tíma og þeir ætluðu ekki að samþykja það til að byrja með og vildu greinilega halda fast um aurinn.“
Og erlendu ferðamennirnir voru sóttir.
Tvær konur í hópi Hjalta treystu sér ekki til að halda áfram eftir þennan dag og var þeim ekið til Hvolsvallar.
Þetta var stríðsástand ofan á allt annað.
„Ég segi það núna; þetta var stríðsástand. Og maður sér hvað fólk verður frumstætt þegar það upplifir að það sé í hættu. Þá bara gerir fólk hvað sem er; allt sem það heldur að það þurfi að gera til að hugsa um sig.“
Þetta reddast
Hjalti er spurður hvort það sé hægt að læra eitthvað af þessu.
„Ég er fagmenntaður leiðsögumaður og ég hef oft talað um að það eigi að vera íslenskir leiðsögumenn í svona hópum. Ég er í félagi leiðsögumanna, Leiðsögn. Það sem má læra af þessu er að það er ekki hægt að læra á bók eða með því að lesa eitthvað um Ísland hvernig eigi að bregðast við og hvernig eigi að undirbúa sig fyrir svona ferð. Það þarf eiginlega að sjá þetta veður. Þetta eru svo ofsafengin veður sem geta orðið uppi á hálendinu að það er eiginlega illmögulegt að útskýra fyrir fólki hvernig þetta er, hvaða áhrif það hefur og hvernig þarf að standa þetta af sér. Þannig að ég hef bæði í eigingirni en líka út frá öryggissjónarmiðum lengi talað fyrir því fyrir daufum eyrum alls staðar að það ætti að vera með hverjum einasta hópi innlendur leiðsögumaður sem hefur góða þekkingu á málunum og sem getur haft vit fyrir hópnum.“
Væri ekki einfalt að setja þessa reglur?
„Leiðsögufélagið hefur verið að tala um þetta í 20-30 ár en ferðaþjónustuaðilar, -skrifstofur og ráðherrann hafa bara ekkert viljað taka á þessu.“
Hjalti segir að landverðir virðast ekki hafa neinar heimildir en vara fólk við á föðurlegan hátt og reyna að hafa vit fyrir því.
Það sem fer svakalega mikið í mig er að það er bara orðið viðhorf hjá útlendingum að það sé alveg öruggt að taka sénsinn; maður hringi bara í 112 og björgunarsveitin er mætt.
„Gönguleiðum er ekki lokað. Fólk á pantað flug, rútur og allavega og það bara fer af stað og lætur vaða. Og það sem verra er og það sem fer svakalega mikið í mig er að það er bara orðið viðhorf hjá útlendingum að það sé alveg öruggt að taka sénsinn; maður hringi bara í 112 og björgunarsveitin er mætt. Það finnst mér svolítið ömurlegt að heyra sagt í skálum í hálfkæringi, af því að ég er búinn að vera mikið í þessum fjallaskálum í sumar. Maður heyrir þetta bæði hjá fólki sem er að koma á vanbúnum bílum og þverar ár og göngufólki sem er illa búið. Það gefur í skyn að þetta muni alltaf reddast. Auðvitað gera björgunarsveitir allt en það á auðvitað að vinda einhvern veginn ofan af þessu þannig að það verði alveg augljóst þegar það kemur appelsínugul viðvörun á hálendinu að þá séu það bara reyndir og vanir fjallagarpar sem séu á ferðinni sem hafi þekkingu, tæki og tól til að fást við veðrið en ekki eins og þetta fólk sem var bara í stuttbuxum og stúlkan var í hlýrabol í þessu veðri. Hún var í hlýrabol og leggings. Bara þunnum leggings. Enginn regnfatnaður.“
Áhættumat
Hjalti, sem hefur í rúman áratug séð um mörg verkefni fyrir Ferðafélag Íslands, er spurður hvaða reglum sé fylgt og hvenær hann hætti við göngur og breyti dagskránni.
„Það er til áhættumat fyrir alls konar gönguleiðir en svo er líka til áhættumat bara fyrir veður og ég bara miða við það. Auðvitað er þar sagt að snúa eigi við í 14-16 metrum á sekúndu og rigningu eða að ef einn er illa búinn og ekki með fatnað við hæfi. Það er nóg að einn sé ekki búinn í veðrið. Þá snýrðu við. Eða ef það eru 18 metrar á sekúndu. Það getur líka verið að bara vindurinn sé of mikill. Og þetta er miðað við hóp sem þú þekkir lítið eða ekkert. Þú getur kannski leyft þér örlítið meira ef þú ert með hóp sem þú þekkir mjög vel og ert búinn að vera að ganga með í heilt ár og veist hvað getur.“
Það þarf miklu sterkari bein fyrir fararstjóra að snúa við heldur en að halda áfram.
„Þú ert alltaf með einstaklinga sem eru toppasjúkir og vilja klára. Og ég er þannig sjálfur. Ef ég er búinn að taka ákörðun um að fara upp á Esjuna og ég kemst ekki nema upp að Steini einhverra hluta vegna, svo sem vegna veðurs, þá líður mér eins og ég hafi svikist um. Ég er iðnaðarmaður í mér og ég þarf að klára verkið. Samt finnst mér auðvelt að taka þessa ákvörðun. Ég er einhvern veginn þannig. Það blasir oft við að það þurfi að hætta og þegar svo er þá finnst mér ekkert vera erfitt að segja að þetta sé búið. Ég fæ oft mótbárur og einstöku sinnum hefur einhver spurt hvort hann mætti þá ekki halda áfram sjálfur en þá hef ég sagt að hann geti þá hætt í hópnum og fengið endurgreitt.“