Hjalti Geir Kristjánsson húsgagnaarkitekt er látinn. Hann var brautryðjandi á sviði íslensks iðnaðar og hönnunar. Hjalti Geir var 94 ára er hann lést.
Hjalti Geir fæddist í Reykjavík 21. ágúst 1926. Hann lauk verslunarprófi 1944, síðan sveinsprófi í húsgangasmíði frá Iðnskólanum og hélt þá utan til Sviss, Svíþjóðar og Bandaríkjanna þaðan sem hann lauk námi í húsgagnateiknun og framhaldsnámi í húsgagnahönnun. Þegar heim var komið tók hann við fyrirtæki föður síns, Kristján Siggeirsson hf., þar sem hann hannaði þau húsgögn sem fyrirtækið framleiddi.
Hjalti Geir stofnaði Félags húsgagna- og innanhússarkitekta og var lengi formaður þess. Íslensk hönnun varð að sjálfstæðri atvinnugrein ekki síst fyrir framgöngu hans. Síðar var hann gerður að heiðurfélaga. Á lífsleiðinni sat Hjalti Geir í fjölda stjórna fyrirtækja hér á landi ásamt því að vera ræðismaður Sviss á Íslandi í áratug. Árið 1982 var hann sæmdur finnsku Ljónsorðunni og fjórum árum síðar riddarakrossi fálkaorðunnar.
Eiginkona Hjalta Geirs er Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur. Þau eignuðust fjögur börn: Ragnhildi, Kristján, Erlend og Jóhönnu Vigdísi.
Til minningar um Hjalta Geir skildi fjölskylduvinur eftir fallegu kveðju á Facebook-síðu Erlendar. „Mínar hjartans samúðarkveðjur og blessunaróskir sendi ég ykkur vegna fráfalls Hjalta Geirs. Blessuð verið þið öll og blessaður veri hann í heimi ljóssins.❤️“