Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-11.2 C
Reykjavik

Hjarta Þuríðar syngur dátt í Salnum: „Sjarminn vex bara með árunum og fallega gráa faxinu sem hún skartar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þuríður Sigurðardóttir heldur tónleikana, Þegar hjartað syngur dátt, í Salnum í Kópavogi föstudaginn 27. september. Í vor hélt hún tvenna tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði og komust þar færri að en vildu.

Þuríður Sigurðardóttir á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana, sem eru ættarfylgja. Hún sló í gegn 16 ára þegar hún söng inn á plötu með Lúdó og Stefáni. Stuttu seinna var henni boðið í Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, sem var fastráðin veitingastaðnum Röðli. Þar söng hún sex daga vikunnar ásamt Vilhjálmi Vilhjálmssyni og seinna með Pálma Gunnarssyni. Hljómsveitin gerði nokkra útvarps- og sjónvarpsþætti og Þuríður varð ein þekktasta söngkona landsins. Hún söng inn á sólóplötur, gerði eina plötu með föður sínum Sigurði Ólafssyni, tvær plötur með Pálma Gunnarssyni og eina með Ragnari Bjarnasyni. Þuríður söng með Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar, stofnaði hljómsveitina Islandia, söng með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og var í Sumargleðihópnum. Hún hefur starfað með fleiri hljómsveitum og sungið inn á nokkrar plötur til viðbótar. Samt ætlaði hún aldrei að verða söngkona – þetta gerðist einfaldlega fyrir hreina tilviljun, skrifar Jónatan Garðarsson í tónleikaskrá.

Og hann heldur áfram: Þegar Þuríður varð sjötug í ársbyrjun 2019 og 50 ár voru liðin frá því að fyrsta sólóplata hennar, með lögunum Ég á mig sjálf og Ég ann þér enn, kom út fagnaði hún tímamótunum með tónleikum í Bæjarbíói. Miðarnir seldust upp á skömmum tíma og eftirspurnin var slík að hún efndi til aukatónleika. Mjög góður rómur var gerður að tónleikunum enda er Þuríður í fantagóðu formi og syngur betur en nokkru sinni fyrr. Vegna fjölda áskorana hefur Þuríður ákveðið að halda fleiri tónleika og koma fram í Salnum í Kópavogi og á Græna hattinum á Akureyri, með sama mannskap og í Bæjarbíói. Það verður enginn svikinn af tónleikum með Þuríði og hennar fólki.

Þuríði til halds og traust á tónleikunum eru sonur hennar, Sigurður Helgi Pálmason gestasöngvari, og hljóðfæraleikararnir Benedikt Brynleifsson, Gunnar Hrafnsson, Grímur Sigurðsson, Hjörleifur Valsson og Pálmi Sigurhjartarson.

Gunnþór Sigurðsson, bróðir Þuríðar, klippti saman myndbandið.

- Auglýsing -

Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri skrifaði eftirfarandi um tónleikana í Bæjarbíói:

„Tónleikagestir í Bæjarbíó í Hafnarfirði urðu svolítið hissa að kvöldi Sumardagsins fyrsta þegar það var ungur karlmaður sem kom fyrstur á svið, þeir áttu von á konu – Þuríði Sigurðardóttur, söngkonu kvöldsins. Ungi maðurinn flutti Somewhere over the Rainbow alveg ágætlega en viðstaddir fögnuðu þó enn meira þegar hann kynnti móður sína á svið í lok lagsins. Og um leið hljómuðu fyrstu tónar fyrsta lagsins sem Þuríður söng inn á plötu og sló eftirminnilega í gegn með: „Elskaðu mig.“

Þuríður byrjaði ung að syngja með hljómsveitum, eins og hún rifjaði upp í skemmtilegum og fróðlegum innskotum milli laga. Hún var náttúrulega dóttir eins þekktasta söngvara landsins, Sigurðar Ólafssonar, og eðlilegt að hún væri gripin upp af hljómsveitarstjórum sem alltaf voru á höttunum eftir nýju hæfileikafólki. Allt gerðist það þó eins og af tilviljun, eftir því sem hún sagði, enda er maður ekki beinlínis að plana ævistarfið sextán ára gamall. Þó söng Þuríður sig í gegnum næstu áratugi en um aldamótin skipti hún um líf. Hún fór í myndlistarnám og hefur verið í hópi vinsælustu myndlistarmanna þjóðarinnar síðan hún útskrifaðist.

- Auglýsing -

En á þessum afmælistónleikum – Þuríður varð sjötug í janúar – sýndi hún og sannaði að hún hefur engu gleymt, ef eitthvað er vex sjarminn bara með árunum og fallega gráa faxinu sem hún skartar. Hún heldur bæði útliti og rödd svo öfundsvert er. Á tónleikunum söng hún blöndu af vel völdum lögum, bæði lög sem hún gerði sjálf fræg og vinsæl eins og áðurnefnt Elskaðu mig, Ég á mig sjálf og Ég ann þér enn – þau vöktu að sjálfsögðu mesta gleði í salnum – og lög á borð við Bláu augun þín, Tvær stjörnur, Kvöldkyrrð og Þannig týnist tíminn. Tvö þau síðastnefndu söng hún með Sigurði Pálmasyni, syni sínum.
Eftir hlé söng Þuríður aðallega erlend dægurlög sem mér fannst fara henni alveg sérstaklega vel – lög eins og These Boots are made for Walking, Smile og All of me. Það besta við upprifjunartónleika af þessu tagi eru minningarnar sem streyma til manns. Því það er segin saga að gott lag virkar eins og minnislyf! Og engin leið að tengja vondar minningar við fallega tónlist. Kærar þakkir fyrir yndislega tónleika.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -