Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Hjólreiðaslysum fjölgar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjólreiðaslysum hefur fjölgað á seinni árum. Mest er um minni háttar áverka að ræða þegar fólk dettur. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða alvarleg slys sem geta þarfnast skurðaðgerðar og slys sem í stöku tilvikum leiða til varanlegs heilsutjóns.

Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir og staðgengill yfirlæknis á slysadeild .

Hjólreiðaslysum hefur heldur fjölgað á seinni árum. Slysin eru hins vegar færri en sem nemur hlutfallslegri fjölgun hjólafólks á sama tíma. „Það er tilfinning okkar sem störfum við bráðalækningar og er studd af þeim tölum sem við höfum,“ segir Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir og staðgengill yfirlæknis á slysadeild Landspítalans. Spítalinn hefur ekki upplýsingar um tíðni reiðhjólaslysa en stefnt er að því að taka slíkt saman.
Hjalti segir reiðhjólafólk leita til lækna vegna allra tegunda slysa. Mest sé um minni háttar áverka að ræða þegar fólk dettur. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða alvarleg slys sem geta þarfnast skurðaðgerðar og slys sem í stöku tilvikum leiða til varanlegs heilsutjóns.
Hjalti leggur áherslu á að mun fleiri nota nú reiðhjól sem samgöngutæki en fyrir um áratug. Fjölbreytni hefur líka aukist mikið. Fólk keppi á hjólum, stundar fjallahjólreiðar og tekur þátt í hraðakeppnum af ýmsu tagi auk þess að hjóla til og frá vinnu á hjólastígum í þéttbýli.
„Slysatíðni verður að skoða í því samhengi hversu margir eru að hjóla. Síðan, eins og má búast við, þegar fólk er í hraðakeppnum á mjög léttum og stundum mjög veikbyggðum hjólum, þá fylgir því meiri hætta en ef fólk er að hjóla á milli staða á hjólastígum,“ segi Hjalti og tekur sem dæmi fjallabrun á reiðhjólum sem margir eru farnir að stunda. Í fjallabruni er farið niður ótroðnar slóðir á eins miklum hraða og viðkomandi kemst. Því fylgir aukin slysahætta og notar fólk sem það stundar því meiri öryggisbúnað.

„Varnarbúnaður er ekki sá mikilvægasti til að draga úr reiðhjólaslysum. Betra er að byggja upp rétta umferðarmenningu, bæði hjá ökumönnum og reiðhjólafólki. Fólk á hjólum þarf líka að taka tillit til gangandi fólks.“

Hreyfingarleysið er hættulegt
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í byrjun mánaðar að mikið hafi verið kvartað yfir reiðhjólafólki í sumar og tilkynnt um trassaskap þess í umferðinni á hverjum degi. Hjólafólk virði allar umferðarreglur að vettugi og skeyti í engu um aðra í umferðinni. Lögreglan biðlaði til reiðhjólafólks um að geta betur í umferðinni, virða reglur og sýna öðrum vegfarendum kurteisi.
Hjalti segir tillitssemi í umferðinni mikilvægasta öryggistækið. „Varnarbúnaður er ekki sá mikilvægasti til að draga úr reiðhjólaslysum. Betra er að byggja upp rétta umferðarmenningu, bæði hjá ökumönnum og reiðhjólafólki. Fólk á hjólum þarf líka að taka tillit til gangandi fólks,“ segir hann.

En hvað með hjálmanotkun?
Hjalti segir ljóst að notkun hjálma dragi úr tíðni höfuðáverka hjá reiðhjólafólki. Hann vill þó ekki skylda fólk til að bera hjálm. Hægt sé að grípa til annarra ráða til að bæta öryggi hjólafólks.
„Í Bandaríkjunum þar sem bílar eru allsráðandi og hjólafólk fátt er slysatíðni á hjólafólki mjög há. Í Danmörku er hjálmanotkun almennt lítil en höfuðáverkar fátíðir. Í Ástralíu er reynslan svo sú að þegar fólk var skyldað að nota hjálm þá fækkaði fólki sem hjólar. Ég ráðlegg fólki að hjóla með hjálm og geri það sjálfur en það eru ekki höfuðáverkarnir sem stytta ævilíkur Íslendinga heldur hreyfingarleysið. Það hefur sýnt sig að það hefur gífurlega mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks ef það hreyfir sig og hjólar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að vegna bílaumferðar er mengun það mikil á höfuðborgarsvæðinu að hún veldur heilsutjóni og sennilega ótímabærum dauðsföllum hjá mörgum á Íslandi á hverju ári,“ segir Hjalti og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólki noti ýmis konar vistvænar samgöngur í stað þess að valda heilsutjóni með mengun. Liður í því sé að hvetja fólk til að hjóla, jafnvel án hjálms.
„Þetta fer eftir því hvernig er hjólað. Ef maður hjólar rólega á hjólastíg og fer rólega þá er gagnsemi hjálma hverfandi. Þegar fólk keppir eða hjólar hratt þá hjólar enginn hjálmlaus. Ég get alveg ímyndað mér þær aðstæður að ég sé að hjóla niðri í miðbæ í leikhús að ég vilji ekki hafa hjálminn. Þá er nóg að hjóla rólega. Þá fylgir því lítil sem engin hætta,“ segir Hjalti læknir sem hefur sjálfur hjólað til og frá vinnu um áraraðir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -