Í gær sagði Alma D. Möller landlæknir frá því á upplýsingafundi almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra að fimm hjúkrunarfræðingar sem starfa á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eru smitaða af COVID-19.
Alma sagði að tveir hjúkrunarfræðingar hefðu smitast í skíðaferð og annar þeirra hafi mætt á vakt og þannig hefðu sennilega þrír hjúkrunarfræðingar til viðbótar smitast. Hjúkrunarfræðingurinn sem kom á vakt eftir skíðaferð sinnti ekki sjúklingum á vaktinni að sögn Ölmu.
Í færslu á Facebook-síðu hjúkrunarráðs Landspítala kemur fram að hjúkrunarfræðingurinn sem mætti í vinnuna eftir að hafa verið í skíðaferð var ekki að koma frá skilgreindu hættusvæði.
„Mikilvægt er að hafa í huga að viðkomandi var ekki að koma frá skilgreindu hættusvæði og því fullkomlega eðlilegt að mæta í vinnu, eins og fólk hefur alltaf gert þegar það kemur úr fríi. Við vitum að hjúkrunarfræðingar sinna störfum sínum af heilindum og setja alltaf öryggi sjúklinga ofar öllu öðru. Við stöndum saman, styðjum hvert annað í gegnum þetta og sendum kollegum okkar batakveðjur,“ segir meðal annars í færslunni.
Í færslunni segir einnig að aðrir hjúkrunarfræðingar Landspítalans haldi ró sinni og haldi áfram að þvo hendur og sinna starfi sínu.
kóróna