Allir flugfarþegar kannast við að þurfa fara í gegnum ítarlegar vopnaleitir í millilandaflugi. Þegar kemur að innanlandsflugi er aftur á móti fátt sem stoppar fólk í að ganga um borð í flugvél með hlaðna byssu innan klæða en Mannlíf hefur heimildir fyrir því að slíkt hafi gerst.
„Það er í rauninni ekkert sem stoppar fólk með það. Það eru aðeins tveir vellir á landsbyggðinni sem hugsanlega gætu séð eitthvað og það er Akureyrarflugvöllur og á Egilsstöðum og þó ekki. Það er ekkert verið fylgjast með þessu í innanlandsfluginu,“ segir Guðmundur K. Sigríðarson, yfirmaður á Húsavíkurflugvelli í Aðaldal, í samtali við Mannlíf.
„Það eina sem við getum gert þegar farþegar koma með byssur með sér til innritunar og láta vita af þeim, er að menn eru látnir taka þær í sundur og gengið úr skugga um að ekkert sé í þeim. Annars vitum við ekkert hvað er í handfarangri eða innan á fólki og slíkt,“ útskýrir Guðmundur.
„Annars vitum við ekkert hvað er í handfarangri eða innan á fólki og slíkt.“
Aðspurður hvort engar kröfur séu gerðar um vopnaleit í innanlandsflugi af alþjóðlegum flugmálayfirvöldum segir hann svo ekki vera.
„Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 þegar allt fór á hliðina, komu upp allskonar umræður um þetta. Síðan féll allt í dúnalogn aftur þegar rykið settist.“