Nokkur ótti greip um sig í strætisvagni þegar maður mundaði hníf innan um farþega. Þegar lögregla hafði afskipti af manninum fannst enginn hnífur en vitni sögðu að maðurinn hafi kastað honum frá sér. Maðurinn var fjarlægður úr strætisvagninum og er málið í rannsókn. Vitni staðhæfði að maðurinn hefði verið ógnvekjandi og hlegið á meðan hann mundaði vopnið.
Annað hnífamál kom upp í gærdag þegar þrjú ungmenni voru að slást í Laugardalnum. Í tilkynningu til lögreglu kom fram að einn krakkinn hefði tekið upp hníf. Þá flúðu hinir af af vettvangi og hnífnum var kastað í átt að þeim án þess að valda skaða. Málið er í rannsókn lögreglu með aðkomu barnaverndar Reykjarvíkur og forráðarmanna ungmennanna.
Ökumaður var stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá var hann einnig sviptur ökuréttindum.
Tveir meintir dópsalar voru handteknir grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Þeir voru tímabundið vistaðir í fangaklefa vegna málsins en voru svo lausir úr haldi lögreglu skömmu síðar eftir skýrslutökur.
Ökumaður var stöðvaður í akstri á 120 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar. Í ljós kom að ökumaður var þegar sviptur ökuréttindum og reyndist hann í þokkabót vera ölvaður við aksturinn. Hans bíður himinhá sekt vegna brotanna.