Þau hafa verið nokkur málin sem hafa fengið titilinn „Stóra fíkniefnamálið” en það þekktasta er frá því í maímánuði árið 1999. Það varð einnig þekkt undir nafnin „Samskipsmálið“ enda voru fraktskip skipafélagsins notuð við eiturlyfjasmygl.
Eftir að lögregla fékk ábendingu um smyglið vafði málið hratt upp á sig, lenti inn á borði Alþjóðlögreglunnar, Interpol, og endaði með því að nítján einstaklingar voru ákærðir og fengu tíu þeirra lengri dóma en tvo ár. Aðrir fengu styttri dóma. Aldrei hafði neitt þessu líkt gerst í íslenskri réttarsögu enda um umfangsmesta smyglmál á eiturlyfjum sem um getur hér á landi.
Dópið í sjónvörpunum
Gunnlaugur Ingibergsson, fæddur 1972, var 19 ára þegar hann hóf sumarvinnu hjá Samskipum, og var hann þá búsettur í Kaupmannahöfn. Hann starfaði við gámaflutning á milli Danmerkur og Íslands og nýtti sér aðstöðu sína hjá félaginu til smyglsins. Flutti hann efnin meðal annars í raftækjum. Brot hans þóttu stórfelld og skipulögð og var sannað að hann hefði í heildina flutt inn 45 kíló af kannabis í 16 ferðum á tímabilinu 1997 til 1999. Hann var einn að verki í fyrstu þremur sendingunum en var í samstarfi við einn meðákærða í hinum. Einnig flutti hann til landsins 250 töflur af MDMA og 100 grömm af amfetamíni árið 1999.
Meðal kaupenda efnanna voru félagarnir og jafnaldrar Gunnlaugs, þeir Ólafur Ágúst Ægisson, Sverrir Þór Gunnarsson og Júlíus Kristófer Eggertsson. Bæði neyttu þeir efnanna og dreifðu.
Hótel Helvíti
Lögregla þekkti til mannanna og tók fljótlega eftir að þeir fóru að berast mjög á, keyptu dýra hluti og jafnvel íbúðir. Lögreglu fannst tilefni til símahlerana og hófu þær í herbergi sem fljótlega fékk nafnið Hótel Helvíti.
Að því kom að lögreglan taldi sig hafa nógar sannanir til að húsleitar að heimili Ólafs. Við leit fundust fíkniefni svo að segja um alla íbúðina, inni í skápum, á hilum, undir rúmum, á og undir sófum og stólum. Íbúðin var gjörsamlega undirlögð fíkniefnum. Þremenningarnar voru umsvifalaust handteknir en Gunnlaugur var enn í Danmörku. Haft var samband við löggæsyfirvöld þar í landi sem fundu Gunnlaug innan nokkurra daga og sendu umsvifalaust til Íslands.
Fljótlega tókst lögreglu að raða saman atburðarásinni og finna þá sem höfðu staðið að smygli, dreifingu og sölu efnanna. Fjölgaði hratt á nafnalistanum.
Handjárn og haglabyssur
Þjóðin var slegin óhug þegar fréttir bárust af málinu sem sýndi fram á mun meira skipulag og hörku innan fíkniefnaheimsins en áður hafði verið talið. Var einnig um eina stærstu aðgerð fíkniefnalögreglu frá upphafi enda var ekki einungis um innflutning frá Danmörku að ræða, heldur einnig Hollandi og Bandaríkjunum. Fólki var ennfremur brugðið við fréttir um að lagt hald á vopn; meðal annars handjárn, haglabyssur, loftriffla og raflostbyssur.
Nítján manns voru á endanum kærðir og lagt hald á 24 kíló af hassi, 4 kíló af amfetamíni, 1 kíló af kókaíni og 6000 e-töflur. Einnig var lagt hald á 25 milljónir króna í reiðufé sem Sverrir Þór hafði undir höndum. Sverrir var einnig fæddur 1972, átti langan brotaferil að baki frá unglingsárum, þótti huldumaður í undirheimum fíkniefna og gekk undir nafninu Sveddi tönn vegna tannlýtis.
Fimmtán dæmdir fyrir dópið
Í júní árið 2000 féllu svo þyngstu dómar sem fallið hafa hér á landi í fíkniefnamáli en af þeim nítján sem kærðir voru, voru fjórir sýknaðir.
Ólafur Ágúst Ægisson fékk þyngsta fangelsisdóminn, 9 ár, og einnig var fé í hans vörslu, 5,2 milljónir króna, gert upptækt. Um er að ræða þyngsta dóm sem kveðinn hefur verið upp í fíkniefnamáli hér á landi. Sverrir Þór Gunnarsson fékk næstþyngsta dóminn, sjö og hálfs árs fangelsi, og gert var upptækt fé, 21 milljón.
Þeir sem hlutu tveggja ára fangelsisdóm eða lengri voru Júlíus Kristófer Eggertsson, 5 ár og sex mánuði, Gunnlaugur Ingibergsson, 4 ár og sex mánuði, Rúnar Ben Maitsland, 4 ár, Guðmundur Ragnarsson 3 ár og sex mánuði, Valgarð Heiðar Kjartansson, 3 ára fangelsi, Ingvar Árni Ingvarsson, 2 ár og sex mánuði, Herbjörn Sigmarsson, 2 ár og sex mánuði, og Haraldur Ægir Ægisson, 2 ár. Einn sakborningur var dæmdur í 18 mánaða fangelsi, einn í 15 mánaða fangelsi, einn í 10 mánaða fangelsi og loks fékk einn tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.
Ennfremur voru ákærðir látnir sækja upptöku á fé, samtals 52 milljónum sem taldar voru ágóði fíkniefnaviðskiptanna. Þar af var Sverri Þór gert að sæta upptöku á 21 milljón, Gunnlaugi Ingibergssyni 11,9 milljónum, Júlíusi 8 milljónum, Ólafi rúmlega 5 milljónum, Herbirni 4,7 milljónum, Guðmundi 970 þúsund króna og Rúnari 600 þúsund króna.
Óþægileg vakning
Á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðið hafa frá málinu hefur ekki komið upp stærra fíkniefnamál og var það þjóðinni óþægileg vakning um hversu skipulögð glæpastarfsemi væri í kringum hinn íslenska fíkniefnaheim.
Margir hverjir þeir sem dæmdir voru sátu af sér sinn dóm og hófu nýtt líf í kjölfarið og hefur sumum þeirra vegnað vel í lífinu.