Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum:
„Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar harmar þá stöðu sem komin er upp í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, í kjölfar ótímabærrar miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Framlagning hennar, þegar engin vá er fyrir dyrum og ekkert neyðarástand blasir við, setur hættulegt fordæmi í samskiptum á vinnumarkaði.
Í stað þess að höggva á hnútinn, hefur útspilið dýpkað deiluna enn frekar.

Stjórn Hlífar hvetur ríkissáttasemjara til að draga tillöguna til baka og gefa deiluaðilum færi á að útkljá deiluna með samningum, án óeðlilegs þrýstings.

Myndin er samsett.
Um leið og Verkalýðsfélagið Hlíf sendir Eflingarfélögum stuðnings- og baráttukveðjur, hvetur það félagsmenn sína til þess að ganga ekki í störf Eflingarfólks í verkfalli, hvorki beint né óbeint.
Komi upp dæmi um slík brot, verður tekið á þeim af fullri alvöru.“