Svíar völdu framlag sitt til Eurovision nú í kvöld. Hinn 19 ára gamli Tousen Chiza, eða Tusse eins og hann er kallaður, kom sá og sigraði með lagi sínu Voices og verður því framlag Svía í Rotterdam í maí.
Tusse sló þar með við fyrrum Eurovisionfaranum og reynsluboltanum Eric Saade, en Tusse endaði í 1. sæti með 175 stig og kom Eric Saade í 2. sæti með 118 stig.
Eric Saade muna eflaust margir eftir, en hann lenti í 3. sæti í Eurovision árið 2011 með lagi sínu Popular.
Tusse er Svíum ekki ókunnur, því árið 2019 sigraði hann sænska Idolið, þá aðeins 17 ára gamall.
Frá því að lögin úr undankeppni Svía þetta árið komu í spilun hefur lag Tusse, Voices, trónað á toppnum yfir mest spilaða lag keppninnar. Úrslitin komu því Svíum eflaust ekki mikið á óvart. Tusse varð bæði hlutskarpastur hjá dómurum keppninnar sem og þjóðinni, en hann hlaut yfirgnæfandi meirihluta atkvæða þjóðarinnar.