Hlutafé í lyfjafyrirtækinu Alvotech hefur verið aukið um níu milljarða króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Það var systurfyrirtækið Alvogen sem leggur til fjármagnið og gerir fyrirtækinu kleift að halda áfram þróunarstarfi sínu þar til framtíðarfjármögnun verði tryggð. Alls hefur hlutafé Alvotech verið aukið um 35 milljarða króna undanfarið ár til að mæta miklum taprekstri, sem kemur meðal annars til vegna þróunar líftæknilyfja. Mannlíf greindi nýlega frá því að bandaríska lyfjaeftirlitið hefði seinkað gæðaúttekt verkmiðju Alvotech á Íslandi og að hlutafjárútboð væri í uppnámi. Seinkunin gerir það að verkum að fyrirhugað hlutafjárútboð sem halda átti samtímis á Íslandi og í Bandaríkjunum í þessum mánuði frestast eins og Mannlíf hefur áður greint frá. Arion banka og Landsbanka Íslands hefur verið falið að sækja fjármagn til fagfjárfesta og lífeyrissjóða á Íslandi. Auk þess er talið að erlendir aðilar kunni að koma að framtíðarfjármögnun fyrirtækisins en fjölmiðlar hafa fjallað um að það þurfi að lágmarki 20-25 milljarða króna til að brúa taprekstur Alvotech þar til lyf fyrirtækisins koma á markað.
Heimildir Mannlífs herma að stefnt sé að hlutafjáraukningu fljótlega eftir áramótin ef markaðsaðstæður leyfa og markmið fyrirtækisins nást. Vegna seinkunar á umræddum áformum var ljóst að umtalsvert fjármagn vantaði inn í rekstur fyrirtækisins og það kom í hlut Alvogen að útvega það fjármagn.
Lyfjafyrirtækin Alvotech og Alvogen hafa skilað tugmilljarða tapi allt frá stofnun en það fyrrnefnda vinnur að þróun líftæknilyfja sem fyrirhugað er að markaðssetja á næstu árum. Eftir miklu er að slægjast fyrir Alvotech ef markmið fyrirtækisins nást en forsvarsmenn þess hafa sagt að tekjur af starfsemi þess á Íslandi geti numið allt að 20 prósentum af þjóðarframleiðslu.