Laugardagur 23. nóvember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Hlynur Bæringsson missti föður sinn ungur: „Ég slapp fyrir horn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlynur Bæringsson, körfuboltamaður, körfuboltaþjálfari yngri flokka körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og íþrótta- og rekstrarstjóri hjá körfuknattleiksdeildinni er í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

„Ég hef haft mikinn áhuga á stjórnmálum alla tíð. Þegar ég var ungur strákur þá þekkti ég alla stjórnmálamenn og vissi allt um þetta; horfði á alla þætti og las blöðin fram og til baka þannig að ég hef alltaf verið mjög áhugasamur og haft skoðanir á þessu og hef oft verið að rökræða um hitt og þetta við allt og alla; þetta hafði lengi blundað í mér,“ segir hann um tilurð þess að hann gefur kost á sér.

Af hverju Framsóknarflokkurinn?

„Nokkrir góðir menn höfðu samband við mig og þar á meðal Ásmundur Einar og nokkrir kunningar hérna í Garðabænum og spurðu mig hvort ég væri ekki til í að gefa kost á mér og í framhaldi af því talaði ég við Brynju sem er í 1. sætinu hjá okkur og líkaði strax vel við hana og við það sem hún hafði fram að færa; ég hafði auðvitað tekið eftir henni í Alþingiskosningunum. Ég hefði aldrei sagt „já“ ef ég hefði ekki verið á þeirra vagni undanfarið. Ég hef verið nokkuð óflokksbundinn síðustu ár en ég hef stutt Framsókn í síðustu kosningum og var farinn að hallast æ meira að þeim. Ég viðurkenni að það var sérstaklega vegna þess hvernig Ásmundur Einar hefur tæklað barnamálin. Mér finnst ég eiga töluvert sameiginlegt með Framsóknarmönnum; ekki hvað allt varðar en mjög margt. Þannig kom þetta til í raun og veru. Svo var það að þora að bjóða sig fram; ég held að það séu margir í þjóðfélaginu sem hugsa um það og telja sig hafa eitthvað fram að færa og þá verður maður bara að hafa sjálfstraustið og yfirstíga þennan sjálfsefa sem getur komið upp hjá öllum: Bara þora og taka því sem að höndum ber. Taka bara örlögunum eins og þau verða.“

Ég hef hins vegar lengi þjálfað börn í körfubolta og ég finn alveg að það eru ekkert allir eins.

Hvað áherslumál Hlyns varðar segir hann að þau séu að sjálfsögðu að fólk búi í góðu samfélagi. „Það væri mjög ósanngjarnt hjá mér að segja að Garðabær væri slæmur staður til að búa á. Það er einmitt margt gott gert í Garðabæ en bakgrunnur minn er svolítið fjarlægur því sem margir í Garðabæ þekkja þar sem er mikil velsæld og það sést víða að margir hafa það gott. Ég hef hins vegar lengi þjálfað börn í körfubolta og ég finn alveg að það eru ekkert allir eins. Það sitja ekki allir við háborðið. Það eru ekki allir með. Mig langar að sjálfsögðu mikið til að hjálpa þessum krökkum og reyna bara að láta gott af mér leiða í þessum íþrótta- og æskulýðsmálum. Það er svona það helsta. Svo hef ég áhuga á fleiri þáttum í pólitík eins og til dæmis skipulagsmálum sem ég hef ekki eins hátt um en ég hef gríðarlegan áhuga á þeim, hvernig hverfi og bæir eru byggð upp og samsett og hvernig lýðfræðin er en ég hefði mikinn áhuga á því að kynnast því betur.
Það er  auðvitað þannig í þessu að það er fullt af hlutum sem maður kann ekki og þekkir ekki og maður þarf að læra í þessu eins og öðru. Og ég hef verið að reyna að nýta tímann í það núna að koma inn í sem mest svo sem varðandi það hvar hægt er að bæta hlutina og ferlið við að koma því í verk.“

Hlynur Bæringsson
(Mynd: Gunnar Freyr.)

Fann tilgang og markmið

- Auglýsing -

Hlynur fæddist og ólst upp í Grundarfirði og svo í Borgarfirði.

Það var óregla á heimilinu. Faðir hans drakk og lést hann þegar Hlynur var sjö ára og eftir það var móðir hans eina fyrirvinnan og voru systkinin fjögur.

„Þetta litaði náttúrlega allt,“ segir Hlynur sem talar um að hann hafi skort föðurímynd. „Það voru tveir foreldrar á heimilum flestra vina minna og ég hugsa oft til þess að það er ýmislegt sem vantar þegar svo er ekki. Margt af þessu kemur fram þegar maður er eldri; ég var það ungur þegar pabbi dó að þá voru hlutirnir eins og þeir voru og ég fattaði ekki að þeir ættu að vera öðruvísi. Sjokkið kom seinna meir; auðvitað hugsa ég til krakka í svipuðum sporum.

Ég er alveg sannfærður um það að þetta hefði annars ekki farið vel því í kringum mig höfðu margir lent í óreglu.

- Auglýsing -

Mamma stóð sig reyndar frábærlega vel með fjögur börn og ég skil það ekki í dag hvernig hún fór að því oft og tíðum en þegar maður elst upp í svona aðstæðum þá fattar maður það ekki fyrr en seinna. Það er líka komið misjafnlega fram við börn eftir því hvaðan þau eru og hvaðan þau koma; það er mögulega eitthvað mannlegt en mér finnst að þannig eigi það ekki að vera. Þau börn hafa almennt mun færri tækifæri til þess að rækta hæfileika sína. Oft elta syndir feðranna fólk í gegnum ævina sem er ósanngjarnt. Tækifærin eiga að vera jöfn; hvernig við spilum úr þeim er svo annað mál.
Ég slapp mjög vel; ég fór snemma í íþróttir og þær björguðu mér og í framhaldi af því að hafa kynnst konunni minni og eignast fjölskyldu. Ég er sannfærður um að ef ég hefði ekki verið í íþróttum þá væri ég ekki í eins góðum málum og ég tel mig vera í dag.
Það skiptir máli að tilheyra, vera hluti af liði og finna tilgang; það er eitthvað sem allir vilja. Þegar ég lít til baka þá er það það sem beindi mér á rétta braut. Ég er alveg sannfærður um það að þetta hefði annars ekki farið vel því í kringum mig höfðu margir lent í óreglu.
Maður fann í íþróttunum einhvern tilgang og markmið sem er svo mikilvægt.
Krökkum sem eru að villast af leið vantar oft einmitt tilgang og markmið; þá vantar að sjá ljósið í enda ganganna. Þeir þurfa einhvern stað til að finna sig og vera eitthvað. Ég slapp fyrir horn.“

Hvað á körfuboltinn sameiginlegt með stjórnmálunum? Keppnisskapið? „Ég finn það alveg að það er keppnisskap í mér þegar kemur að stjórnmálunum. Mig langar að ná árangri þar eins og í íþróttunum. Mig langar að okkur gangi vel en ég er ekki tilbúinn að gera hvað sem er; ég verð að geta horft í spegilmyndina á kvöldin, vil gera þetta rétt.
Það sem þetta tvennt á líka sameiginlegt er að það þarf að leggja á sig til þess að ná árangri og svo þarf að læra að vinna í hópi; það þarf að læra að taka ákvarðanir með öðrum og læra að vinna með öðrum, maður gerir lítið einn.“

Hlynyr Bæringsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -