Góðar fréttir voru að berast núna varðandi bókmenntir á Íslandi.
Gyrðir Elíasson hlýtur Tranströmerverðlaunin 2024.
Já, rétt í morgunsárið áðan var tilkynnt að Gyrðir Elíasson hljóti þessi virtu ljóðaverðlaun og segir í rökstuðningi valnefndar að „ljóð hans hafi með glettni og undrun varðveitt þúsundir augnablika þar sem tilveran er fallvölt“.
Tranströmerverðlaunin voru stofnsett 1997 af bænum Västerås í Svíþjóð til til heiðurs ljóðskáldinu Tomas Tranströmer sem þar var búsettur frá 1965 til 2000.
Verðlaunin eru veitt annaðhvert ár og er verðlaunaféð 200.000 sænskar krónur.
Verðlaunahafinn er útnefndur af valnefnd og var Tomas Tranströmer virkur í þeirri nefnd og tók þátt í störfum hennar meðan hann lifði. Markmið verðlaunanna er „að verðlauna afburða skáldskap í anda Tranströmers“.
Verðlaunahafar skulu vera frá Norðurlöndum eða löndunum sem liggja að Eystrasalti. Í undantekningar tilvikum er hægt að veita þau höfundum utan þess landsvæðis.
Verðlaunin verða veitt þann 12. október 2024 á Bókmenntahátíðinni í Västerås.
Þess má einnig geta að úrval ljóða Gyrðis kemur út á sænsku síðar á þessu ári í þýðingu Johns Swedenmark hjá forlaginu Pequods.
Það er bókmenntafræðingurinn og doktorinn Soffía Auður Birgisdóttir sem greindi fyrst frá þessu.