Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Höfum enn ekki fundið skjól eftir hrunið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir Íslendinga ekki vera betur varða fyrir efnahagslegum áföllum nú en fyrir tíu árum þegar hrunið átti sér stað. Hann telur að stjórnmálamönnum hafi mistekist að tryggja landsmönnum efnahagslegt skjól.

Frá málþinginu. Mynd / Kristinn Ingvarsson

„Við erum ekkert betur varin fyrir efnahagslegum áföllum en fyrir tíu árum þegar hrunið skall á okkur. Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur segir aðgerðir stjórnvalda meðal annars felast í aðildarumsókn að Evrópusambandinu, fríverslunarsamningi við Kína og nánari tengslum við ríki sem sýni málefnum Norðurskautsins áhuga. „Nú tala ráðamenn um að okkur myndi farnast best með því að fylgja Bretum, eftir að þeir ganga úr Evrópusambandinu, og gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.“

Baldur kynnti í vikunni bókina „Small States and the Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs“ sem fjallar um pólitísk, efnahagslega og félagslega snertifleti Íslands við helstu ríki, efnahagssvæði og alþjóðastofnanir. Þetta er rannsókn unnin undir forystu hans og rannsóknateymis við Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands. Ætla má að þetta sé ein víðtækasta rannsókn sem unnin hefur verið á alþjóðasamvinnu Íslendinga.

Baldur segir bókina snúast um tvennt. Annars vegar er þar sett fram kenning um skjól. Samkvæmt henni glíma smáríki við innbyggða veikleika á borð við lítinn og sveiflukenndan heimamarkað, takmarkaða varnargetu og litla stjórnsýslu. „Lítil ríki eru eðlilega vanmáttugri en þau stóru. Þau þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana innanlands og erlendis til að vega upp á móti þessum veikleikum. Að mínu mati er það grundvallaratriði fyrir stjórnmálamenn í litlum ríkjum að sætta sig við þessa innbyggðu veikleika. Ef þeir horfast ekki í augu við þá, munu þeir ekki grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr þeim,“ segir Baldur.

Skjólkenningin sem Baldur nefnir kveður á um að smáríki þurfi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól til að koma í veg fyrir áföll eins og efnahagshrun og netárásir. Ef smáríki verði hins vegar fyrir efnahagsáfalli eða netárás, þurfi það að geta leitað aðstoðar þegar í stað. Í þriðja lagi þurfi smáríkið líka að geta fengið aðstoð við uppbyggingu eftir slíkt áfall.

„Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist.“

Höfðum við þetta fyrir síðasta hrun?
„Nei, við höfðum það ekki og við höfum það ekki heldur í dag,“ segir Baldur og nefnir sem dæmi möguleikana ef nýtt efnahagslegt áfall ríður yfir með gjaldþroti annars stóra íslenska flugfélagsins eða mögulega beggja með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahag landsins og lífskjör fólks. Utanaðkomandi stuðningur gæti dempað þau áhrif. „Við höfum engan til að leita eftir aðstoð hjá, frekar en fyrir áratug, nema þá aftur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ segir hann.

Í bók Baldurs eru í samræmi við þetta skoðuð tengsl Íslands við Bandaríkin, Norðurlöndin, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, aðildina að EFTA, EES og Schengen. Jafnframt er skoðað hvar hugsanlegt sé að finna skjól fyrir Ísland í framtíðinni og rýnt í efnahagslega, pólitíska og félagslega þætti.

- Auglýsing -

Baldur segir Bandaríkin hafa um árabil veitt Íslandi skjól, jafnt í efnahagsþrengingum sem milliríkjadeilum. Íslendingar hefðu líklega ekki unnið þorskastríðin nema vegna diplómatísks stuðnings Bandaríkjanna. Með brotthvarfi Varnarliðsins árið 2006 var ljóst að skjólið var ekki vestra lengur. Það kom líka í ljós í efnahagshruninu.

Félagslegt skjól hefur verið að finna á hinum Norðurlöndunum og leita Íslendingar enn þar eftir fyrirmyndum og samstarfi við helstu stofnanir. „Aðildinni að EES fylgir líka umtalsvert félagslegt skjól og er það verulega vanmetið, að okkar mati. Íslenskt vísindasamfélag væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki aðgang að samstarfsneti erlendra fræðimanna og styrkfénu sem fæst með Evrópusamvinnunni. Aðgangur að menntastofnunum í Evrópu er lykillinn að framþróun íslensks samfélags,” segir Baldur.

Að mati Baldurs felst umtalsvert efnahagslegt skjól í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. „Þar erum við hluti af stærri markaði. Við erum með löggjöf sem hefur stóraukið samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, aukið hagvöxt, auðveldað útflutning og bætt lífskjör í landinu. Til viðbótar skipti sameiginlegur vinnumarkaður á EES-svæðinu öllu máli. Flæði vinnuafls til og frá landinu dempar áhrif þeirra efnahagssveifla sem lítil hagkerfi lenda í,“ segir hann en bætir við að á sama tíma veiti EES-samningurinn okkur falskt öryggi. Ísland sé ekki meðlimur í klúbbnum, ekki innan ESB.
„Aðild að EES veitir ekki efnahagslega aðstoð til að fyrirbyggja hrun, stuðning þegar hrun dynur yfir og hjálp við uppbyggingu. Það sást best í hruninu fyrir tíu árum,“ segir Baldur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -