„Það er mikil sorg í fjölskyldunni. Við erum búin að fylgja henni í gegnum sjúkdóm og þetta er mikil sorg því hana hlakkaði svo til jólanna þar sem hún ætlaði að vera hjá dóttur sinni og barnabörnum til að knúsa þau. Hún var rosalega mikill karakter og mikið jólabarn. Þetta er því svakalegt og erfiður tími núna,“ segir Hólmfríður Benediktsdóttir, eldri systir Jónínu Benediktsdóttur sem varð bráðkvödd á heimili sínu í Hveragerði.
Jónína, íþróttafræðingur og frumkvöðull, var 63 ára að aldri er hún lést. Hún lætur eftir sig þrjú uppkomin börn, Jóhönnu Klöru, Tómas Helga og Matthías sem eru öll börn Stefáns Einars Matthíassonar. Barnabörnin eru fjögur, Stefán Kári, Kristín Embla, Ásdís Þóra og Matthías Þór.
Jónína nam íþróttafræði í Kanada og þegar heim var komið stofnaði hún eina fyrstu líkamsræktarstöðina á Íslandi. Hún var áhugasöm að kynna landsmönnum mikilvægi líkamsræktar og stóð meðal annars fyrir morgunleikfimi á Rás 1. Síðustu ár hefur hún staðið fyrir lífsbætandi detox-meðferðum í Póllandi og á Hótel Örk í Hveragerði. Hólmfríður fór fjórum sinnum í detox-meðferða hjá systur sinni og segir þær hafa verið frábærar. „Hún var algjör forsprakki sem hafði svo margar flotta hugmyndir. Detox-ið var alveg svakalega flott,“ segir Hólmfríður.
Jónína fæddist 26. mars 1957 á Húsavík. Hún var miðjubarn í fimm systkinahópi og Hólmfríður passaði hana reglulega. „Ég var sjö ára þegar hún fæddist, hún var alveg eins og engill. Hún var svo fallegur krakki og hún var allt öðruvísi en við systkinin hin. Hún varð strax mikil íþróttakona og þegar hún var í handbotaliðinu þá var það mjög gott,“ segir Hólmfríður og bætir við:
„Ég var mikið að passa Jónínu og það gekk á ýmsu. Jónína var ofsalega hvatvís enda er mikil hvatvísi í fjölskyldunni. Jónína gat verið ofboðslega hlý og vildi alltaf hjálpa. Að sama skapi gat hún líka sagt umbúðalaust það sem henni fannst. Jónína var húmoristi þannig maður veltist stundum um af hlátri.“