Þegar komið er inn í Grindavík blasa við trosnaðir fánar Nettó og bensínrisans N1. Blaktandi fánar eru venjulega vísbending um að opið sé á viðkomandi stöðum. En svo er ekki í þessu tilviki. Hér er enginn og allt harðlæst. Líklegt er að starfsfólkið hafi farið í slíku snarhasti að ekki hafi gefist tími til að taka niður flöggin. Bensíndælurnar er kirfilega læstar og tilkynning um lokun blasir við. Þar sem áður voru bornir fram hamborgarar og aðrar kræsingar er ekkert að gerast kyrrðin ein. Hinum megin götunnar er sama sagan á veitingastaðnum Hjá Höllu. Allt harðlæst. Sælkerastaðurinn góði er sálarlaus og engum til gleði lengur.
Ryðgað steypujárn
Víða í bænum má sjá afgirtar sprungur. Áminning um þann háska sem er ríkjandi á staðnum. Örfáar hræður eru á ferli í bænum. Starfsmenn hitaveitu eru að basla við að tengja rör til að fyrirbyggja frekara tjón. Eldgosið sem kom upp innan varnargarðanna varð til þess að glóandi hraunið gleypti hús og stórskaðaði önnur. Blessunarlega stöðvaðist hraunið áður en það lagði fleiri hús undir sig. Í götunni sem hrauntröðin lokar eru húsgrunnar. Ryðgað steypujárnið stendur upp úr steypunni. Þarna er allt tilbúið í að reisa veggi en ólíklegt að neitt gerist þar næstu árin.
Fjölskylda með hund
Í næsta húsi við þau sem urðu eldunum að bráð er fjölskylda með hund að huga að eigum sínum. Framtíð þeirra er óskrifað blað. Við ökum um auðar göturnar. Í sumum húsum er ennþá búslóð en önnur eru tóm. Það er eins og að horfa inn í tómar augntóftir. Dapurleikinn svífur yfir yfirgefnum húsunum. Sumstaðar er miði í glugga. Húsið hefur verið yfirgefið. Önnur skilaboð eru einföld og sláandi. „Farin,“ stendur á einum miðanum. Húsið er krosssprungið og bersýnilega ónýtt. Þannig er einnig komið fyrir öðrum húsum.
Einn línubátur
Grindavík er eini staðurinn á Reykjanesi sem hefur staðið af sér kvótakerfið. Á meðan lífvana og tómar hafnir blaða við í Keflavík, Njarðvík, Höfnum og Vogum hefur allt annað verið uppi á teningnum í Grindavík. Stórfyrirtæki á staðnum hafa blómstrað og höfnin hefur bókstaflega iðað af lífi og fjöri. Þar mátti sjá frystitogara, línubáta og dragnótarbáta sem báru verðmætan afla að landi. Nú er aðeins einn bátur í höfninni í Grindavík. Línubátur sem er að landa. Eitt fiskvinnslufyrirtæki heldur úti vinnslu. Eigandinn er þrjóskur og vill ekki sætta sig við að staðurinn hans leggist í auðn. Bent hefur verið á Bláa lónið sem fyrirmynd. Þar er haldið úti starfsemi þrátt fyrir ógnirnar í nágrenninu. Þessi ábending er réttmæt. Menn verða að læra að lifa með ástandinu.
Niðurrifstal
Enginn veit hver framtíð Grindavíkur verður. Augljóst er að mistök hafa verið gerð eftir að eldgosið færðust nær bænum í haust og ógnuðu byggðinni. Stanslaust niðurrifstal hefur orðið til þess að fólk hefur misst móðinn og vill fara fyrir fullt og allt. Yfirvöld hafa farið offari við að banna fólki að vera á heimilum sínum. Öfgastjórnun. Vonleysið er ríkjandi. Það vantar þann tón að staðurinn munu rísa upp að nýju. Ísland er eldfjallaeyja og víða hætta eldgosum og jarðskjálftum. Svo eru það snjóflóðin, Við höfum lifað og aðlagast þessum ósköpum hingað til og eigum að gera það áfram. Grindavík í dag getur orðið Hafnarfjörður á morgun.
3000 á vergangi
Við ökum sem leið liggur um bæinn. Sprungusvæðin hafa verið afgirt og umhverfið er eins öruggt og það getur orðið. Það sváfu 20 manns í bænum í nótt. Rúmlega 3000 manns á einskonar vergangi með bráðabirgðabúsetu hér og þar. Það ástand er óboðlegt, Sumir hlutar bæjarins virðast vera nokkuð öruggir til búsetu en öllum var gert að yfirgefa bæinn. Eðlilega þarf að fara rólega í að flytja í bæinn aftur. Framvinda jarðeldanna á Reykjanesi þarf að skýrast. Þessa dagana er staðan einfaldlega sú að beðið er eftir eldgosi.
Framtíðin verður vonandi sú að Grindavík nái vopnum sínum og byggðarlagið verði blómlegt á ný. En það eru vissulega blikur á lofti. Óvissan er nánast algjör og það ræðst af viðbrögðum dyntóttrar náttúru og misviturra manna hvernig fer.