Sex einstaklingar eru í varðhaldi lögreglunnar á Akureyri eftir hópslagsmál fyrir utan Bláu könnuna í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi. Einn þeirra var fluttur á sjúkrahús en lögregla verst fregna af málinu.
Morgunblaðið greinir frá. Að sögn sjónarvottar hófust slagsmálin innandyra og þróuðust með þeim hætti að stokkið var á hinn slasaða svo hann lenti á rúðu staðarins með þeim afleiðingum að hún brotnaði og hlaut hann alvarleg meiðsl á handlegg. Mikið blóð var á vettvangi og ástandið ískyggilegt að sögn vitnisins.
„Hann fer í gegnum rúðuna og tekur í sundur efri vöðva á handlegg og blóðið spýtist út um allt. Mér fannst lögreglan vera ansi lengi á staðinn, það var búið að hringja á lögregluna en hún kom ekki fyrr en tíu mínútum síðar,“ segir sjónarvottur.