Maður fórst í sprengingu í bænum Adeje á Tenerife í gærmorgun. Grunur leikur á að um sé að ræða Íslending sem búsettur var á svæðinu.
Í frétt vefmiðilsins Canarian Weekly Tenerife kemur fram að maðurinn hafi látist í bruna við El Madronal á Avenida Kurt Konrad Mayer í Adeje í gærmorgun. Mannlíf hafði samband við ræðisskrifstofu Íslands á eyjunni, en starfsmaður á vakt gat ekki tjáð sig um málið að svo stöddu en sagðist vita af málinu.
Samhæfingarstöð neyðarþjónustu Tenerife fékk neyðarsímtal um klukkan 7.30 í gærmorgun þar sem tilkynnt var um eld og voru slökkvilið frá Adeje og San Miguel send strax á svæðið.
Eftir að slökkvistarfi lauk greindi slökkviliðið frá því að þrjú ökutæki hafi brunnið. Lík hins látna fannst í einni bifreiðinni.
Spænska ríkislögreglan vinnur að því að bera formlega kennsl á manninn sem fannst látinn. Til þess þarf að fara eftir tannlæknaskýrslum. Þá er hafin sakamálarannsókn á því hvernig eldurinn kviknaði.