Leikkonunni Þórdísi Björk Þorfinnsdóttur var hótað lífláti og nauðgunum vegna ummæla hennar um veðurfar á Kópaskeri og Raufarhöfn. Leikkonan ætlar að kæra hótanirnar til lögreglu.
„Ég er ýmsu vön þegar kemur að gagnrýni en þær hótanir sem mér hafa borist vegna þessa máls eru viðbjóðslegar. Það er eiginlega óhugnanlegast að sumar grófustu hótanirnar voru frá einstaklingum undir fullu nafni,“ segir Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leikkona og meðlimur í leikhópnum Lottu, í samtali við Fréttablaðið, um morðhótanir og hótanir um að vera nauðgað vegna ummæla sem hún lét falla um veðurfarið á Kópaskeri og Raufarhöfn. Bárust henni á annan tug skilaboða frá nafngreindu fólki og ætlar hún að kæra hótanirnar til lögreglu.
„Það er eiginlega óhugnanlegast að sumar grófustu hótanirnar voru frá einstaklingum undir fullu nafni.“
Leikhópurinn Lotta, sem hefur verið að ferðast um landið með barnaleikrit um Bakkabræður, var staddur á austanverðu landinu um helgina og kom við á Raufarhöfn og Kópaskeri. Þar lét Þórdís Björk eftirfarandi orð falla á Instagram: „Jæja þá erum við búin að koma á helv.. Kópasker. Keyrðum á Kópasker og Raufarhöfn bara til að geta krossað það út af listanum, mæli alls ekki með að koma hingað, bara alls ekki gera það.“
Sjá einnig: Kolbrún segir ummæli Þórdísar lýsa hroka
Í samtali við Fréttablaðið segir Þórdís, sem hafði líka fjallað með jákvæðum hætti um staðina tvo og þar á meðal hrósað máltíð á Raufarhöfn og hrósað Heimaskautagerðinu á staðnum, að um brandara hafi verið að ræða en hann hafi mislukkast. „Það sýnir sig kannski best að brandari hafi mislukkast þegar maður þarf að útskýra hann og samhengið. Ég hafði rætt við vini mína um að ég hlakkaði til að skoða þessa bæi í fyrsta sinn, en svo tók ógeðslegt veður á móti okkur. Hitinn rétt yfir frostmarki og hvínandi rok og rigning.”
Skájskot af ummælunum fór í dreifingu á samfélagsmiðlum og ollu fjaðrafoki á Facebook-síðu Lottu. Voru þau fordæmd og auk þess bárust Þórdísi Björk fyrrnefndar hótanir um morð og nauðganir.
„Þessi tvö skjáskot í engu samhengi litu mjög illa út. Að einhverju leyti er það ósanngjarnt, þetta er eins og að taka langa málsgrein úr bók, en svo áttaði ég mig á því að þetta virtist raunverulega særa fólk og það þótti mér afar leitt,“ segir Þórdís, sem baðst afsökunar á færslunni og Leikhópurinn Lotta líka.
Í samtali við Fréttablaðið segir Þórdís að fyrrnefndar hótanir megi ekki líðast og því muni hún kæra þær til lögreglu.