Þrír vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ofbeldisbrota.
Óskað var eftir var eftir aðstoð lögreglu á ellefta tímanum í gærkvöld vegna manns sem hótaði að drepa nágranna sína í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Var maðurinn í annarlegu ástandi. Lögregla mætti á staðinn, handtók manninn og færði í fangageymslu, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tveir aðrir voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ofbeldisbrota. Annars vegar ölvaður maður sem veittist að ökumanni sem hafði gert athugasemd við að hinn ölvaði stæði úti á miðri götu og truflaði umferð. Hins vegar maður sem var staðinn var að verki við að brjótast inn í bíla. Við leit á honum fundust meint fíkniefni, þýfi og hnúajárn. Þess má geta að áverkar ökumannsins, sem varð fyrir barðinu á ölvaða manninum, eru sagðir minniháttar.