Tilkynnt um líkamsárás í austurborginni í dag. Tveir árásaraðilar reyndust vera á barnsaldri. Þeir vortu handteknir á staðnum og sleppt að lokinni skýrslutöku. Málið er unnið í samráði við forráðamenn og barnavernd. Tilkynnt var um barn að aka stolinni bifreið í úthverfi borgarinnar. Barnið var staðið að verki og málið unnið í samstarfi við forráðamenn og barnavernd.
Lögreglu var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir en greip í tómt. Sá dularfulli fannst ekki.
Drukkinn einstaklingur var til vandræða á hóteli. Lögregla var kölluð til að koma skikk á málin. Sá drukkni átti hvergi skjól eftir að honum var vísað út af hótelinu. Hann fékk fyrir góðsemi lögreglunnar að gista í fangaklefa að eigin ósk.
Tveir innbrotsþjófar voru handteknir í miðborginni í miðjum klíðum. Þeim var sleppt að lokinni skýrslutöku.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Þeim var sleppt eftir að dregið hafði verið úr þeim blóð.
Þá var tilkynnt um mann að elta barn. Sá aðili fannst ekki.
Fimm ökumenn sektaðir fyrir of hraðan akstur. Einn þeirra var sviptur ökuréttindum á staðnum en hann ók á 176 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Sá á einnig von á himinhárri sekt.
Tvær tilkynningar um unglinga að skemma hluti í og við Mjóddina. Aðilar farnir af vettvangi er lögreglu bar að garði í bæði skiptin.