- Auglýsing -
Búið er að loka Hótel Rangá tímabundið eftir að starfsmaður þess greindist með Covid19. Þar borðaði ríkisstjórn Íslands á þriðjudaginn síðasta en þann dag var ríkisstjórnarfundur haldinn á Hellu. Landlæknir segir að ráðherrarnir þurfi ekki að gera neinar sérstakar ráðstafir vegna þessa.
Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, Róbert Marshall, staðfestir að starfsmaður hótelsins hafi greinst smitaður en að höfðu samráði við landlækni er ekki talið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar þurfi að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir vegna smitsins miðað við þær sóttvarnareglur sem nú eru í gildi. Ástæðan sé sú að viðkomandi Covid-smitaði starfsmaðurinn kom aldrei inn í salinn þar sem ríkisstjórnin borðaði. „Eftir því sem best er vitað,“ sagði Róbert í samtali við RÚV.
Hótelstarfsmaðurinn veiktist í gær og var sýni tekið úr honum og því komið með hraði til Reykjavíkur þar sem það var greint. Síðdegis í gær fékkst Covid-19 staðfest. Hótel Rangá hefur núna lokað tímabundið „Vegna þessa verður hótelið lokað næstu daga á meðan umfang er upplýst og sótthreinsun fer fram,“ segir í tilkynningu frá hótelinu.