Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hrafn sagður gúgú: Smáborgarar og kjaftakerlingar fá ádrepu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Nafnar mínir bera mér þær fréttir að einstöku alveg óvenjulega vel innréttuð sál hafi djúpar áhyggjur af því að Hrafn Jökulsson sé orðinn alveg gúgú,“ skrifar Hrafn Jökulsson, baráttumaður og eldhugi, sem nú vinnur að hreinsun á Kolgrafarvík í Árneshreppi og öðrum fjörum  landsins.
Hrafn skrifar langa færslu á Facebook þar sem hann tuktar til smáborgara og kjaftakerlingar. Tilefnið er að störf hans í fjörunum  hafa orðið til þess að einhverjir úr áðurnefndum hópum hafa gefið til kynna að hann sé ekki  ekki heill á sönsum.
Hrafn vísar til móður sinnar heitinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, sem vann þrekvirki á sínum tíma í þágu barna, einstæðra foreldra og annarra sem áttu undir högg að sækja.

 

Hrafn Jökulsson

„Tvö voru þau orð sem mamma bar fram af takmarkalausri fyrirlitningu, og hló við: Kjaftakerlingar & smáborgarar. Það var fólkið — karlar og konur — sem hámaði í sig mannorð annarra en lyfti aldrei fingri til að gera lífið betra eða fallegra,“ skrifar Hrafn.
Hann hefur skuldbundið sig til að vinna með veraldarvinum næstu árin, launalaust, að hreinsun strandlengju Íslands og heitir því að láta ekkert stöðva sig í þeim efnum.

„Já, smáborgarafóbíuna hef ég frá mömmu, svo mikið er víst. Og ég er nokkuð glöggur á fölsku brosin, þó ég segi sjálfur frá.

„Svo, elsku vinir, þið getið rétt ímyndað ykkur hvort ég skemmti mér ekki konunglega yfir því sem krummarnir hvísla hér norður í Trékyllisvík,“ skrifar Hrafna og skorar á smáborgara og kjaftatívur að finna  sig í fjöru.

- Auglýsing -

„Endilega sýndu umhyggjuna í verki með því að hreinsa þína eigin fjöru. Svo skulum við tala saman,“ skrifar Hrafn.

Pistil hans í heild sinni má lesa hér að neðan.

Kæri smáborgari: Komdu að finna mig í fjöru
Ja, nú er stand á frúnni á neðri hæðinni, einsog mamma hefði sagt. Nafnar mínir bera mér þær fréttir að einstöku alveg óvenjulega vel innréttuð sál hafi djúpar áhyggjur af því að Hrafn Jökulsson sé orðinn alveg gúgú…

- Auglýsing -

Ekki veit ég það, en þessari vinnuskýrslu skilar Krummi Klakason verkstjóri, fyrir hönd okkar Veraldarvina — bakvið nöfnin eru eldhugar úr öðrum löndum sem láta ekkert stoppa sig í frelsisstríði strandlengjunnar.
Tvö voru þau orð sem mamma bar fram af takmarkalausri fyrirlitningu, og hló við: Kjaftakerlingar & smáborgarar. Það var fólkið — karlar og konur — sem hámaði í sig mannorð annarra en lyfti aldrei fingri til að gera lífið betra eða fallegra.

Mamma var einstæð móðir með fjögur börn, vann rúmlega fulla vinnu & lét sig ekki muna um það 28 ára að leiða hóp eldhuga(!) sem stofnuðu Félag einstæðra foreldra — hver vökustund var nýtt í þágu málstaðarins, kappið og eljan, maður lifandi! Já, og gleðin og heilagur gáskinn! Þá var nú gaman á Drafnó.
Barnungur afgreiddi ég á flóamörkuðum, gekk í hús og seldi merki, jólakort, happdrættismiða… Við mamma vorum félagar — einsog öll sem standa í stórræðum þurfti mamma að geta hugsað upphátt, metið stöðuna, skoðað leiðir, möguleika… Ójá, ótal herráðsfundir með Jóhönnu Kristjónsdóttur frá blautu barnsbeini voru einsog þjálfunarbúðir fyrir það verkefni sem ég hef nú tekið að mér.

Mamma var fræg á Íslandi. Fyrst af því hún hafði gifst Jökli Jakobssyni, gefið út metsölubók tvítug, og að lokum gefist upp á JJ — og dúkkaði svo upp sem baráttukona fyrir réttindum einstæðra foreldra — og barna. Já, barna, vel að merkja. Barna.

Af öllum afrekum mömmu met ég þessi mest, því þau komu fyrst og þau kostuðu blóð og svita og tár. Ég var þar — ekki sem áhorfandi heldur liðsmaður.

Já, mamma var safaríkt umræðuefni á Íslandi smáborgarans á áttunda áratugnum. Mamma fyrirleit svo sannarlega ekki margt fólk — hún var opin og forvitin og lífsglöð — en hún fyrirleit af öllu hjarta smáborgarann. Falska fólkið. Smáborgarinn var þröngsýnn og umræðuillur, lagði jafnan allt út á versta veg, hlakkaði mjög yfir óförum annarra, trúði öllu illu & hafði ekkert kjarngott eða kærleiksríkt fram að færa — en smælaði allan hringinn ef hann varð á vegi okkar…
Já, smáborgarafóbíuna hef ég frá mömmu, svo mikið er víst. Og ég er nokkuð glöggur á fölsku brosin, þó ég segi sjálfur frá.

Svo, elsku vinir, þið getið rétt ímyndað ykkur hvort ég skemmti mér ekki konunglega yfir því sem krummarnir hvísla hér norður í Trékyllisvík.

En nú svíf ek úr möskvum internetsins og í frelsi fjörunnar — frelsið.
Og ég ætla að halda áfram verkinu sem ég byrjaði 13. maí: Frelsa Kolgrafarvík.

Lið dagsins í Kolgrafarvík verður tilkynnt á morgunfundi — við verðum með pönnukökur og síróp. Við munum gaumgæfa kortið, gæta að nesti og útbúnaði & halda svo í ævintýraferð að frelsa fjörur Árneshrepps.

Við höldum áfram í næstu viku, í Árneshreppi og Bitrufirði, og við höldum áfram að gera draum að veruleika á Brú, þar sem verður byggt upp algjörlega sjálfbært samfélag & miðstöð sjálfboðastarfs Veraldarvina — draumsýn kraftaverkamannsins Þórarins Ívarssonar, stofnanda Veraldarvina…

Já, við höldum áfram í Kolgrafarvík og Bitrufirði og við ætlum að hreinsa strandlengjuna við Húnaflóa & síðan alla strandlengju Íslands — samtímis því að byggja upp net innlendra sjálfboðaliða.

Við ætlum að frelsa strandlengjuna og við erum löngu byrjuð. Í vinnuflokki mínum — og meðal Veraldarvina allra — er meiri dugnaður, andríki og skemmtilegheit en í nokkurri annarri hreyfingu sem ég hef kynnst.

Já, ef þú telur þig vin minn & hefur áhyggjur af velferð minni — endilega sýndu umhyggjuna í verki með því að hreinsa þína eigin fjöru. Svo skulum við tala saman.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -