Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hrakfarir á hrakfarir ofan kosta ungmenni vel á aðra milljón

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undirbúningur fyrir tónleikaferð Skólahljómsveitar Austurbæjar til Króatíu hefur verið lyginni líkastur. Tvö af þeim þremur flugfélögum sem hópurinn átti bókað flug með fóru á hausinn og samskiptaörðugleikar við það þriðja urðu þess valdandi að sú bókun glataðist. Þessi vandræði hafa kostað skólahljómsveitina vel á aðra milljón króna.

Annað hvert ár fer Skólahljómsveit Austurbæjar í tónleikaferð til útlanda og í ár er stefnan tekin á Króatíu dagana 13. til 20. júní. Hópinn skipa 50 ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára og verða 10 stjórnendur og forráðamenn með í för. Undirbúningur fyrir ferðina hefur staðið yfir sleitulaust í tvö ár og hafa ungmennin meðal annars selt klósettpappír og annan varning til að fjármagna ferðina. Eins og gefur að skilja ríkir mikil eftirvænting innan hópsins fyrir draumaferðinni.

Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að koma hópnum á áfangastað. Fyrsta flugfarið til útlanda var bókað í ágúst síðastliðnum með flugfélaginu Primera Air en félagið varð gjaldþrota í október. Blessunarlega var ekki búið að ganga frá neinum greiðslum þannig að næsta mál var að leita tilboða hjá öðru flugfélagi. Fyrir valinu varð WOW air og var bókað flug fyrir allan hópinn til Mílanó á Ítalíu. En WOW air varð líka gjaldþrota og í þetta skiptið slapp skólahljómsveitin ekki svo vel.

„Þegar ljóst var að WOW var fallið vorum við búin að borga 600 þúsund krónur í staðfestingargjald. Það er möguleiki að sækja það úr þrotabúinu seinna meir en eins og staðan er í dag er það ólíklegt og við lítum á þetta sem glatað fé,“ segir Vilborg Jónsdóttir, stjórnandi Skólahljómsveitar Austurbæjar. Eftir fall WOW var farið að leita tilboða hjá öðrum flugfélögum.

Vilborg Jónsdóttir, stjórnandi Skólahljómsveitar Austurbæjar.  

„Við fórum að leita að björgunarhring og höfðum samband við Icelandair en svör þaðan bárust seint og í millitíðinni duttum við niður á ágætis tilboð frá Wizz Air sem féll vel að okkar ferðaáætlun og því var ákveðið að stökkva á það.“

Bókunin glataðist vegna misskilnings

Bókað var flug frá Keflavík til Vínar og þaðan átti að keyra til Slóveníu til móts við þarlenda lúðrasveit áður en keyra átti til Króatíu. Bókað var staðfestingargjald upp á 350 þúsund krónur en þegar hópurinn ætlaði að ganga frá lokagreiðslu 30 dögum fyrir brottför kom heldur betur babb í bátinn. „Þá bara finnst engin bókun,“ segir Vilborg. „Þá er þarna pínulítil neðanmálsgrein í plöggunum að það þurfi að vera búið að borga 30 prósent af fargjaldinu 60 dögum fyrir brottför sem er allt öðruvísi hjá öllum öðrum félögum. Venjulega fær maður tilkynningu um slíkt frá flugfélögunum en við fengum ekki neitt og aðilarnir sem sáu um að bóka ferðina sáu ekki þessa neðanmálsgrein.“

- Auglýsing -

Bókunin var því glötuð með öllu og segir Vilborg að þau hjá Wizz Air hafi sýnt stöðu hópsins lítinn skilning. Góð ráð reyndust því ansi dýr. „Við vorum komin í mjög þrönga stöðu því það er mánuður í brottför og við erum ekki með neitt far. Icelandair átti engin sæti handa okkur en Wizz Air bauð okkur að bóka allt upp á nýtt en þá var fargjaldið orðið miklu dýrara og farangursheimildin var minni,“ segir Vilborg en eins og gera sér má í hugarlund er það ekki lítill farangur sem fylgir heillri lúðrasveit. Þeim var því nauðugur kostur einn að ganga að tilboði Wizz Air. „Þegar upp er staðið hefur þetta kostað okkur um það bil 1,3 milljónir. Þetta er bara peningur sem er farinn út um gluggann.“

„Mér finnst það ljótt að fyrirtæki skuli ekki taka tillit til neins, þeim er alveg sama og hugsa bara um peningana.“

Vilborg er allt annað en sátt við samskiptin við ungverska lággjaldafélagið. „Við höfum verið að eltast við þau en þegar þau hafa loksins svarað okkur eftir langa bið vilja þau ekkert gera fyrir okkur. Þau hafa vissulega lögin með sér því þessi neðanmálsgrein er til staðar en maður spyr sig hvort virkilega ekkert sé hægt að gera þegar þú kaupir 60 miða. Við höfum skrifað þeim bréf og útskýrt hvers konar hópur er þarna á ferðinni en það kemur ekkert út úr því. Mér finnst það ljótt að fyrirtæki skuli ekki taka tillit til neins, þeim er alveg sama og hugsa bara um peningana.“

Spila upp í tjónið

- Auglýsing -

Þrátt fyrir þessar hrakningar er mikill hugur í hljómsveitarmeðlimum sem eru staðráðnir í að láta ljós sitt skína við strendur Adríahafsins. „Þau eru algjörlega til í þetta. Enda rosalega spennandi að fá að fara á svona framandi staði og fá tækifæri til að spila tónlist úti við án þess að vera í regnstakk. Þau eru búin að leggja svo mikið á sig fyrir þessa ferð og það var ekki hægt að taka þetta af þeim.“

Vilborg segir að erfiðlega gangi að styrkja starfsemi sem þessa og til að bæta upp tjónið sé hópurinn tilbúinn til að taka að sér hvers konar verkefni. „Lúðrasveitin vill gjarnan spila sem víðast og öll verkefni eru vel þegin. Það er bæði hægt að fá alla sveitina og svo er líka hægt að semja um að fá minni hópa. Þau eru búin að vera með þróunarverkefni í gangi og hafa verið að æfa brasilíska karnivaltónlist í allan vetur. Þau eru tilbúin með heljarinnar prógramm sem enginn ætti að verða svikinn af.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -