„Mér hefur alltaf verið mjög umhugað um Garðabæ og velsæld hans og íbúanna. Ég ólst þar upp og hef búið þar alla mína ævi,“ segir Hrannar Bragi Eyjólfsson sem sækist eftir 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, en prófkjörið fer fram 5. mars.
Hrannar er lögfræðingur hjá Almenna lífeyrissjóðnum og leikmaður Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í handbolta. „Fjölskylda mín á að baki langa sögu í bænum og get ég stoltur sagt að hún hafi verið í þjónustu við Garðbæinga í yfir 60 ár.
Ég hef undanfarin ár fengið að starfa fyrir bæinn minn, meðal annars setið í menningar- og safnanefnd, og það hefur aukið löngun mína til að leggja meira af mörkum í þágu hans.
Ég er einnig þeirrar skoðunar að ungt fólk þurfi rödd á lista Sjálfstæðisflokksins
Segja má að ég leggi höfuðáherslu á traustan fjárhag og rekstur í bænum, leikskólamál og öruggar samgöngur barna og ungmenna í bænum. Ég myndi beita mér fyrir því að Garðabær verði í forystu í leikskólamálum með því að tryggja að börn 12 mánaða og yngri fái pláss á leikskólum nærri heimilum sínum í bænum. Þá hef ég talað fyrir samgöngumálum meðal annars í Urriðaholti þar sem ég vil undirgöng eða göngubrú yfir Reykjanesbraut þannig að börn og ungmenni geti komist á öruggan hátt yfir í eldri hverfi bæjarins og á helstu íþróttasvæði hans. Ég er einnig þeirrar skoðunar að ungt fólk þurfi rödd á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og þess vegna býð ég mig fram sem málsvara unga fólksins í bænum,“ segir Hrannar Bragi sem er 26 ára. „Einnig mun ég berjast fyrir öflugri grunnþjónustu fyrir alla bæjarbúa. Ég get nefnt margt annað eins og menningarmál, íbúðauppbyggingu fyrir yngra og eldra fólk, málefni og menningu á Álftanesi og aukið íbúalýðræði.“
Hrannar Bragi hefur starfað fyrir ungmennahreyfingu Sjálfstæðisflokksins bæði í Garðabæ og á landsvísu.
Hvers vegna fórst þú út á þá braut á sínum tíma og hverju hefur þú áorkað í gegnum það starf?
„Það kom til vegna þess að ég, ásamt nokkrum vinum og vinkonum mínum, hafði áhuga á því að koma málefnum ungs fólks í umræðuna innan Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Við sáum að Huginn, félag ungra Sjálfstæðismanna, var góður vettvangur til þess og buðum okkur fram. Þar áttum við síðan gott samstarf við þá sem eldri eru í flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega lagt sig fram við að hlusta á raddir unga fólksins og ég vona að hann haldi því áfram. Síðar tók ég einnig þátt í starfi Sambands ungra Sjálfstæðismanna eftir sömu hugsun.“
Þess má geta að Hrannar Bragi var á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
„Sjálfstæðisflokknum fannst mikilvægt að unga fólkið fengi pláss á listanum og því var talað við okkur í Hugin. Við tókum nokkur sæti á listanum og í kjölfarið fengum við að sjá hvernig kosningabarátta er háð. Það var gaman að kynnast fólki og það sem mér fannst sérstaklega skemmtilegt þá var að sjá hversu annt Garðbæingum er um bæinn sinn. Það skipti ekki máli við hvern maður talaði, allir voru tilbúnir að veita góðum hugmyndum lið og þá heyrði ég líka hvað Garðbæingar eru margir hverjir með áhugaverðar hugmyndir um framfaramál í bænum. Það er auðvitað gæfa Garðabæjar hversu margir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að fegra og göfga mannlífið í Garðabæ.“
Mér finnst kostir bæjarfélagsins vera þeir að það er mikil áhersla lögð á að frjálsu félögin í bænum séu sterk.
Garðbæingurinn er spurður um helstu kosti og ókosti Garðabæjar.
„Garðabær er frábært bæjarfélag. Mér finnst kostir bæjarfélagsins vera þeir að það er mikil áhersla lögð á að frjálsu félögin í bænum séu sterk. Þar á ég auðvitað við Stjörnuna en líka til dæmis Ungmennafélag Álftaness, golfklúbbana, skátafélögin og hestamannafélögin. Garðabær hefur alla tíð skilið mikilvægi þeirra, alveg frá því að hann hét Garðahreppur. Það hefur alltaf verið stefnt að því að Garðabær sé fjölskylduvænn bær og þar hefur verið vel hlúð að börnum. Þess vegna á ég svona fagrar minningar úr æsku minni í Garðabæ. Ég hef ekkert nema gott um bernskuspor mín í Garðabæ að segja.“
Boltinn
Hrannar Bragi segist vera Stjörnumaður alveg í gegn.
„Ég fékk Stjörnuhjartað í arf og segja má að félagið sé mér í blóð borið. Afi minn, séra Bragi Friðriksson, stofnaði félagið árið 1960 eftir fagurri hugsjón. Pabbi minn, Eyjólfur Bragason, var mikil skytta í handboltanum hér í Garðabæ. Við systkinin höfum síðan á einn eða annan hátt unnið fyrir Stjörnuna, bæði sem þjálfarar og leikmenn. Við bræðurnir, ég, Aðalsteinn og Sverrir, höfum valið handboltann en systir mín, Katrín, var í fimleikum. Stjörnustelpur hafa auðvitað verið í fremstu röð í fimleikum, ekki bara á Íslandi heldur víðar í Evrópu. Síðan er mamma mín, Hrönn Kjærnested, eiginlega stærsta og skærasta stjarnan í þessu öllu saman. Hún er kletturinn sem við stöndum á í fjölskyldunni og er auðvitað vel þekkt í bænum líka. Hún hefur verið kennari í Hofsstaðaskóla í meira en þrjátíu ár, alveg frá því að skólinn var í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli, og því er hjörðin orðin stór sem hún hefur kennt.
Við bræðurnir höfum barist í blíðu og stríðu fyrir Stjörnuna. Það er okkur mikill heiður og mikilsvert að fá að berjast fyrir jafn merkilegt félag og Stjarnan er. Það vita allir bæjarbúar hversu mikilvægu hlutverki félagið hefur gegnt í bæjarfélaginu í um 60 ár frá stofnun þess. Ég hef notið þess að spila leikstjórnandastöðuna þar og einnig í varnarleiknum. Við höfum nokkrum sinnum komist nálægt því að vinna titla, og eigum nokkrar silfurmedalíur í bikarkeppninni, en við vinnum enn að því að klófesta gullið og bæta við titlasafn félagsins. Við erum heppnir með að nú er hópurinn sterkur; þjálfarinn, Patrekur Jóhannesson, er hæfur og með hreint Stjörnuhjarta og stjórnin stendur þétt við bakið á okkur. Stjörnumenn og Garðbæingar styðja okkur vel og það er gaman í boltanum um þessar mundir. Núna erum við enn þá inni í bikarnum og stöndum vel í deildinni. Seinni helmingur Íslandsmótsins hefst að Evrópumóti loknu og maður er spenntur að mæta í næsta leik.“
Hrannar Bragi er spurður hvað heilli hann við boltann.
Mér þykir til dæmis mjög gaman að velta fyrir mér hvernig best sé að spila leikinn
„Handbolti er frábær íþrótt og ég hvet alla til þess að prófa, bæði unga sem aldna. Ég auðvitað ólst upp við leikinn og mínar fyrstu minningar eru margar hverjar bundnar við handboltavöllinn og Ásgarð. Þar stóð ég á hliðarlínunni og var víst fljótur að taka upp takta föður míns sem þjálfari. Ég ýmist sagði leikmönnum til syndanna eða sýndi þeim hvernig fara skyldi að hlutunum. Það vakti auðvitað mikla lukku en ég tók hlutverk „aðstoðarþjálfarans“ mjög alvarlega á þessum árum – þótt ég væri með snuddu. Það var mér því eðlislægt að fara í handboltann. Leikurinn krefst úthalds, styrks og útsjónarsemi. Handboltamenn eru oft stórir og miklir en þetta er ekki síður andlegur leikur. Það er mikil speki fólgin í leikskipulagi og það er það sem mér finnst skemmtilegast við hann. Mér þykir til dæmis mjög gaman að velta fyrir mér hvernig best sé að spila leikinn, hvernig leikmaður spilar inn á styrkleika sína og veikleika andstæðinganna og hvernig liðið kemur fram á leikvellinum. Þannig erum við miklir pælarar í fjölskyldunni. Pabbi var þannig og við bræðurnir erum það líka. Ég segi nú ekki til um hvort það sé gott eða slæmt. Aðalsteinn hefur þó náð miklum árangri í þjálfun hér heima, í Þýskalandi og nú í Sviss þar sem hann er bikarmeistari. Við erum öll mjög stolt af honum. Allir höfum við þó alltaf spakmæli afa okkar hugföst. Við förum drengilega fram og munum að Stjörnumenn eiga ætíð að vinna í þágu þess sem er fagurt, göfugt og gott.“
Hvað eiga boltinn og stjórnmálin sameiginlegt?
„Maður þarf að vera útsjónarsamur og hafa úthald til að koma hugðarefnum sínum í framkvæmd. Andlega þrekið skiptir miklu máli og maður þarf að vera framsækinn. Það er mikilvægt að þora að sækja fram – sérstaklega þegar maður er þeirrar skoðunar að Garðabær eigi að vera í forystu á landsvísu.“
Heiðarleiki
Lögfræðingurinn er spurður hvers vegna hann valdi það nám og hverjir séu helstu draumar og markmið varðandi framtíðina með lögfræðina í huga.
„Ég var nú alls ekki viss hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur þegar ég varð stúdent en lögfræðin varð fyrir valinu. Það hefur nú bara reynst hárrétt val. Hún á vel við mig og ég hef gaman af að velta því fyrir mér hverju fólk vill koma til leiða með lögum. Lögin eru auðvitað sá rammi sem manneskjur setja utan um samfélög sín og það er áhugavert viðfangsefni að rýna í. Mínir draumar með lögfræðina eru þeir að ég geti orðið til góðs með sérþekkingu minni og veitt öllu góðu lið.“
Að hvaða leyti gæti lögfræðin nýst honum í stjórnmálum?
Ég vona að mín sérþekking geti hjálpað bæjarfélaginu og orðið til þess að við sköpum samfélag og umhverfi sem nær því besta út úr fólkinu hér.
„Það er eiginlega það sama. Eins og ég sagði: Lögin setja ramma utan um samfélagið. Auðvitað er það Alþingis að setja lög, ekki Garðabæjar, en sveitarfélög setja þó reglur sem íbúar þurfa að hlýta. Forsjá og traust forysta er bænum því afar mikilvæg. Ég vona að mín sérþekking geti hjálpað bæjarfélaginu og orðið til þess að við sköpum samfélag og umhverfi sem nær því besta út úr fólkinu hér. Það er mikill mannauður í Garðabæ og krafturinn í æskunni hér er mikill.“
Hverjir eru stærstu draumarnir varðandi stjórnmálin? Bæjarstjórastóll? Ráðherrastóll?
„Eigum við ekki bara að nota þekkta klisju úr boltanum: Við tökum bara einn leik í einu. En að öllu gamni slepptu þá er einbeitingin mín nú á prófkjörið. Vonandi gengur mér vel þar og þá vona ég að ég geti lagt mitt af mörkum við að gera góðan bæ enn betri.“
Hrannar Bragi er ungur maður og augljóslega hæfileikaríkur. Hvað myndi hann vilja að einkenndi sig sem stjórnmálamann?
„Ég vona að fólk horfi á mig sem fyrst og fremst heiðarlegan. Ég er einlægur þegar ég segi að ég vilji leggja öllu góðu lið. Ég get verið með stórar hugmyndir sem mig langar að framkvæma en ég veit að ekkert gerist nema að fjárhagurinn sé sterkur. Fjárhagur er auðvitað forsenda framþróunar. Maður þarf að vera auðmjúkur en um leið einbeittur á lokamarkið.“
Ævisaga afans
Hrannar Bragi á kærustu sem heitir Ásdís Rún Ragnarsdóttir sem hann segir að sé yndisleg. „Við erum jafngömul og báðir uppaldir Garðbæingar. Við festum kaup á íbúð í Urriðaholti nýlega og horfum björtum augum á framtíðina. Helstu áhugamál mín eru auðvitað handbolti og svo finnst mér gaman að ferðast og uppgötva Ísland sífellt upp á nýtt.“
Lífið getur tekið á og er Hrannar Bragi spurður um mestu erfiðleika sem hann hefur gengið í gegnum. Lífsreynslu. Sorg.
Það var fyrsta áfallið mitt í lífinu, þá fjórtán ára gamall.
„Ég er svo heppinn að hafa ekki þurft að ganga í gegnum mikla erfiðleika. Það er blessun mín og gæfa. Erfiðast var örugglega þegar afi minn, séra Bragi, kvaddi sviplega árið 2010. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og ég gleymi aldrei þeirri stund þegar ég frétti af því. Það var fyrsta áfallið mitt í lífinu, þá fjórtán ára gamall. Fráfall hans hafði mikil áhrif á mig og ekki síst vegna þess að þá skildi ég fyrst hvað afi minn snerti mikið við samferðamönnum sínum. Ég man eftir yfirfullri Vídalínskirkju í jarðarförinni hans og svo líka í Garðakirkju. Jarðarförinni var streymt, sem var ekki venja þá, líkt og nú. Eftir að hafa lesið öll fögru orðin sem skrifuð voru um hann í minningargreinum var ég djúpt snortinn og það er meðal annars vegna þess að ég skrifa ævisögu þessa yndislega manns þessa dagana. Það er mér ljúf vinna. Hann er sannarlega mín fyrirmynd.“
Svo er það gleðin.
„Ég hugsa að mér líði sem best með Ásdísi uppi á Stöng, sumarbústaði fjölskyldu minnar. Þá fer brosið einhvern veginn ekki af mér. Ég er líka heppinn að eiga skemmtilega fjölskyldu þannig að kvöldstund með henni er eytt í hlátur og gleði. Svo er heldur ekki leiðinlegt að setja hann sláin inn við fögnuð Stjörnumanna uppi í stúku.“