„Það fór maður fyrir borð hjá þeim. Landhelgisgæslan sendi frá sér fréttatilkynningu sem var orðuð þannig að þeir sem þekktu til vissu alveg um hvaða skip væri verið að tala. Ég las þessa fréttatilkynningu og hugsaði með mér hvort þetta gæti verið maðurinn minn. Var þetta augnablikið sem ég var búin að óttast í öll þessi ár og var ég orðin ekkja? Ég gat náttúrlega ekki hringt í hann; það var allt á haus þarna um borð,“ segir Hrefna Sigríður Reynisdóttir í viðtali við Guðjón Guðjónsson í Sjóaranum. Guðmundur Hallsson, eiginmaður hennar hefur verið sjómaður í um tvo áratugi.
Hann var mögulega í sjónum.
„Já, hann var mögulega í sjónum. Já, Jesús minn almáttugur. Ég gleymi því ekki hvað ég var hrædd. Þá vildi bara svona heppilega til að mágur minn heitinn var ennþá með puttana eitthvað í stjórnuninni á þessum skipum – útgerðin var á hans vegum – og hann hringdi strax í mig. Þannig að þetta voru samt um 10 mínútur í algjöru helvíti.“
Ég hugsaði að þetta væru búin að vera góð ár með besta vini mínum í hjónabandi og nú væri það búið.
Hvað fór í gegnum hugann í þessar 10 mínútur?
„Ég fann hvernig allt blóðið einhvern veginn lak niður. Ég man að ég var með barn í fanginu – ég man ekki einu sinni hvaða barn okkar það var. Ég hugsaði að þetta væru búin að vera góð ár með besta vini mínum í hjónabandi og nú væri það búið.“
Þú ætlaðir að þetta væri hann.
„Já, það gerðist vegna þess að í öll þessi ár hef ég orðið mjög auðveldlega hrædd um manninn minn úti á sjó. Það skiptir miklu máli að hann sé öruggur og í góðum höndum þannig lagað séð. Þetta var næstum því eins og að ég hefði vitað að þetta myndi gerast og að nú hefði það gerst.“
Það var hins vegar grænlenskur maður sem fór fyrir borð og lést en eiginmaður Hrefnu hefur í gegnum árin verið á grænlenskum skipum.
Ég held að hann sé ekki búinn að gera upp þetta mál í kollinum á sér.
Hvernig tók maðurinn þinn því að skipsfélagi hans lést?
„Þetta var mjög erfitt fyrir hann. Hann var í að bjarga manninum upp úr sjónum og hann var stýrimaður um borð þegar þetta var og bar þess vegna ákveðna ábyrgð á heilsu áhafnarmeðlima. Þetta reyndist honum mjög erfitt. Hann er kannski ekki alveg sammála mér en ég held að hann sé ekki búinn að gera upp þetta mál í kollinum á sér.“
Með prestinn og kirkjuna
Hrefna býr á Eskifirði en ólst upp á Flateyri og var faðir hennar sjómaður. Hjónin eru búin að vera saman í 22 ár og gift í 20 ár. Og maðurinn hennar er búinn að vera sjómaður í 21 ár. Hjónin eiga fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur.
„Ég var alltaf harðákveðin í því þegar ég fór að fullorðnast að ég ætlaði aldrei að gera börnunum mínum það að giftast sjómanni og eignast börn með honum. Aldrei. Þetta var um það bil það eina sem ég hafði á listanum mínum yfir mögulegan maka. Númer eitt: Ekki sjómaður. Hann var reyndar ekki á sjónum þegar við kynntumst. Þetta hefur breyst svolítið mikið síðan ég var krakki. Pabbi var að koma heim einn dag í viku og þetta var einhver einn dagur sem ég upplifði sem barn bara sem truflun af því að heimilið var í ákveðnum gír; mamma sá um allt og svo kom pabbi heim og var að þykjast hafa eitthvað að segja. Og maður bara „fyrirgefðu, gamli, ég þekki þig ekki neitt, nennir þú að fara bara aftur?“. Svo var ein eða tvær vikur á sumrin sem við fjölskyldan fórum saman í ferðalög en þá var pabbi allan tímann að spá í hvort það væri að fiskast of mikið af því að hann var náttúrlega launalaus og hvort hann væri að missa af rosalegum túr.
Þegar hann kemur heim þá dettur hann inn í rútínuna eins og hún er hjá okkur.
Ég held að börnin mín umgangist pabba sinn meira heldur en þau sem eiga pabba sem vinnur í landi og eru kannski á venjulegum vaktatímum af því að hann er yfirleitt heima í mánuð og þegar hann er heima í mánuð þá er hann bara heima. Hann er þá að umgangast börnin og sinna þeim og þau eru mjög tengd honum sem betur fer. Ég veit ekki hvort við höfum tekið meðvitaða ákvörðun um það en þegar hann kemur heim þá dettur hann inn í rútínuna eins og hún er hjá okkur. Svo breyttist þetta eftir að það fór að verða auðveldara að hafa samband við hann,“ segir Hrefna en nú er ekkert mál að hringja í hvert annað.
Ég sendi til hans hvort við ættum ekki bara að láta gifta okkur; við værum með prestinn og kirkjuna.
„Fyrstu árin var þetta þannig að það var ekkert hægt að hringja í hann eða senda honum tölvupóst. Við þurftum að senda skeytasendingar á milli. Það var þannig að ég sendi honum skeyti og það prentaðist út í brúnni og svo gátu allir lesið það sem vildu og svo var hann látinn fá bréfið. Allt samtalið prentaðist út. Ég man þegar við ákváðum að gifta okkur; við erum ekki mjög rómantísk en þá sendi ég honum póst út á sjó en við vorum að fara að láta skíra næst elsta son okkar og ég sendi til hans hvort við ættum ekki bara að láta gifta okkur; við værum með prestinn og kirkjuna. Og þetta prentaðist út uppi í brú hjá honum og hann sendi til baka „jú, er það ekki bara ágætt?“. Þá var öll áhöfnin „nei, stoppið núna, hvað eruð þið að hugsa?“. Það var ekki mikil rómantík í þessu. En ég á öll þessi bréf núna sem er ótrúlega skemmtilegt.“
Gratíneraðar kartöflur
Sjómannskonur sjá einar um heimilið á meðan mennirnir eru á sjónum.
„Þegar börnin voru minni – þau fæddust fjögur á um sex árum – þá var ég ekki í vinnu heldur heima með þau. Það borgaði sig ekki fyrir mig að hafa þau í dagvistun sem var ótrúlega þægilegt og var hægt af því að maðurinn minn var á góðum launum úti á sjó. Það eru náttúrlega kostir og gallar við allt. Ókosturinn er að það er enginn til að taka vaktina á móti þér; þú ert alltaf á vakt með þessi börn en það skiptir máli að ég gat leyft börnunum mínum að fara út að leika og ég þurfti ekki að vera hrædd um þau.“ Hrefna talar um að hún hafi vitað að þótt hún myndi missa sjónar af sonunum í einhverjar mínútur þá vissu bæjarbúar til dæmis að þeir máttu ekki vera í læknum í bænum.
Við vitum aldrei hvenær mánuðurinn byrjar eða endar.
Hvernig er að gera plön?
„Það er ekki hægt og það hefur ekkert breyst í gegnum tíðina. Hann er samt kominn á eitthvað skiptikerfi núna þar sem hann á að vera einn mánuð úti og einn mánuð heima. En við vitum aldrei hvenær mánuðurinn byrjar eða endar. Ég var til dæmis í allt sumar ein með hjólhýsið á flakki um landið og ég hef aldrei vitað þegar ég er að fara frá einum stað til annars hvort hann verði kominn þegar ég fer af stað eða hvenær hann komi heim.
Ég er ótrúlega lánsöm upp á það að gera að ég hef bara tvisvar sinnum verið ein á hátíðum. Í fyrra skiptið var það á páskum en vegna þess að þessi indæli maður sem ég er gift sér um alla matreiðslu á fínum dögum þá kann ég ekki að elda svona mat og þá kveikti ég í purusteik og endaði á því að við börnin borðuðum gratíneraðar, sætar kartöflur sem voru reynar mjög góðar. Það bókstaflega kviknaði í purusteikinni í ofninum“
Eldur?
„Já.“
Og slökkvitæki og allur pakkinn?
„Já.
Hann var úti á sjó á jólunum.
Hitt skiptið var um síðustu jól. Það bjargaði jólunum að ég hafði einhverjum vikum fyrir jól boðið mömmu minni og systkinum mínum að koma og vera hjá okkur á jólunum sem ég gerði af því að jólin þar á undan vorum við öll með Covid einhvers staðar lokuð inni og ég hugsaði með mér að þetta yrðu jólin sem ég þyrfti að bæta upp fyrir síðustu jól. Þá kom í ljós að manngarmurinn komst ekkert heim. Hann var úti á sjó á jólunum. En ég fékk að borða af því að mamma gerði mat. Þannig að það reddaðist.“
Kaflaskil
Hrefna segir að tveir sonanna hafi lýst yfir vilja sínum til að verða sjómenn en hún heldur að annar þeirra sé hættur við. „Hann eignaðist nýlega barn og ég held hann sé búinn að átta sig á því hvað í rauninni það kostar fjölskyldufólk að vera úti á sjó. Þetta kostar helling og þá er ég alls ekki að tala um fjármuni. Þegar þetta barnabarn fæddist þá var maðurinn minn úti á sjó og það eina sem hann fékk voru myndir af barninu. Hann hitti ekki sonardóttur sína fyrr en tveimur vikum eftir að hún fæddist. Ef ég fæ að snúa því upp á mitt egó þá fannst mér það mjög erfitt af því að það voru kaflaskil í lífi okkar; ég var að verða amma í fyrsta skipti, hann var að verða afi í fyrsta skipti og sonur okkar að verða pabbi og ég hefði svo mikið viljað gera það með hann með mér þannig að við hefðum getað gengið inn í þetta saman.“
Ég geng alltaf út frá því að ég sé að fara að gera þessa hluti ein.
Þú skipuleggur ekkert.
„Ég lærði reyndar fljótlega í sambúðinni okkar að ef ég ætlaði að gera eitthvað yfir höfuð þá yrði ég að gera það og gera ráð fyrir því að ég gerði það ein en hafa það samt þannig að það væri hægt að bæta honum við ef hann myndi svo birtast heima. Ég geng alltaf út frá því að ég sé að fara að gera þessa hluti ein. Ég er að fara ein til Spánar og ég er að fara eitthvert ein með hjólhýsið.“
Hann gæti komið með og þá væri það gaman.
„Það væri stórkostlegt. Við erum sem betur fer rosalega góðir vinir og eigum mjög gott samband þannig að okkur finnst gaman að gera hluti saman.“
Um heimsins höf
Hrefna er spurð hvort sú staðreynd að hún „losnar við“ eiginmannin af og til hjálpi til eða skemmi fyrir.
Þetta hlýtur að hafa áhrif á sambandið okkar.
„Ég veit það ekki. Ég hef oft hugsað um þetta. Ég held að flestar sjómannskonur geti tengt við það þegar ég segi að það eru ákveðnir kostir við það að sitja ein að sjónvarpinu til dæmis. Þetta má alls ekki skiljast þannig að ég sé ekki himinlifandi þegar hann kemur heim en það er alltaf svolítið erfitt þegar hann kemur og ég þarf að venjast því aftur að sofa með einhvern við hliðina á mér sem er ekki bara hundurinn minn. En svo er þetta aftur mjög erfitt þegar hann fer; þá þarf ég að venjast því aftur að það er bara hundurinn minn við hliðina á mér en enginn maður. Þetta hlýtur að hafa áhrif á sambandið okkar. Það bara hlýtur að vera. En ég átti mig samt ekki almennilega á því hvort að áhrifin séu slæm eða góð. Og ég hugsa jafnvel að í okkar tilfelli sé þetta heppilegra heldur en hitt af því að ég er bara þannig típa að ég á erfitt með að vera alltaf í sama umhverfinu og gera sömu rútínublöndnu hlutina.“
Við ætlum að kaupa okkur skútu, selja húsið og fara að sigla um heimsins höf.
Það kemur að því að eiginmaðurinn hættir á sjónum.
„Ég hlakka svolítið mikið til þess af því að við höfum rætt þetta svolítið mikið hvað við gerum þegar hann hættir til sjós. Hann er 12 árum eldri en ég þannig að ég verð sennilega ennþá á vinnumarkaði þegar hann hættir en við erum búin að plana það að ég hætti líka í vinnunni þegar þar að kemur og við ætlum að kaupa okkur skútu, selja húsið og fara að sigla um heimsins höf.“
Sjórinn
Hrefna segir að þegar hún var krakki þá hafi það verið til siðs að börn fengju að fara með pöbbum sínum á sjó einu sinni á sumri.
„Mér fannst það æðislegt. Bara geggjað,“ segir Hrefna sem segist í dag vera manískur kajakræðari og fer hún oft út í um klukkutíma.
Hún segist elska sjóinn. „Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki sjóinn alltaf fyrir framan mig og gæti ekki reglulega farið út á kajakinn minn eða seglbát. Það er bara það besta sem ég veit.“
Þá er það bara núið fyrir mér.
Hvað er það við kajakinn sem heillar?
„Fyrir mér er þetta sennilega eins og þegar annað fólk sækist í jóga. Þetta er þessi núvitund og hugleiðsla. Þegar ég er búin að róa út á fjörðinn og sit þar og heyri bara öldugjálfur í kringum mig og í fuglunum og finn saltbragð á vörunum þá er það bara núið fyrir mér.“
Kajakinn er líka notaður á veturna.
„Kosturinn við það að eiga mann sem er sjómaður er að hann hugsar um öryggið og sér um að ég fari ekki út á sjó án þess að vera gölluð frá toppi til táar þannig að hann er búinn að kaupa fyrir mig einhverja þurrgalla og alls konar undirföt og skó þannig að ég geti farið líka örugg á kajak á veturna.“
Horfa má á viðtalið í heild sinni hér.