Mjög mikill erill var hjá lögreglunni eins og fram kom í frétt Mannlífs í morgun, svo mikið var að gera hjá lögreglu að ekki reyndist unnt að rita í dagbók lögreglu fyrr nú. Lögreglan hafði í meira en nógu að snúast eins og dagbókin sýnir glögglega fram á. Allir fangaklefar voru fullir eftir nóttina hjá lögreglunni.
Mikið var um útköll vegna þjófnaðar og innbrota síðasta sólarhringinn þar má nefna þjófnað úr verslun, mann sem opnaði bíla og fór inn í þá, innbrot í fyrirtæki auk þess sem lögreglan lagði hald á þýfi sem fundist hafði. Þrjú stykki reiðhjól sem saknað var lagði lögreglan einnig hald á.
Tilkynnt var um barn sem var eitt úti að hjóla án eftirlits, forráðamaður þess hafði litið af barninu í skamma stund og misst sjónar á því.
Lögregla veitti bifreið eftirför en ökumaður sem var grunaður um ölvunarakstur og hafði ekið á brott þegar lögreglan hafði stöðvað för hans til þess að hafa af honum afskipti. Fékk ökumaðurinn gistingu í fangaklefa lögreglunnar.
Maður var stöðvaður í Mosfellsbæ grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, börn voru í bifreiðinni með honum.
Tilkynnt var um drykkju undir stýri í bifreið sem staðsett var fyrir framan verslun. Skömmu síðar var tilkynnt um tvo aðila að neyta fíkniefna í bifreið í miðbænum. Tilkynnandi tjáði lögreglu að aðilarnir hafi verið að sveifla hníf en þeir voru á bak og burt þegar lögreglu bar að garði.
Tvö slys voru tilkynnt í öðru tilfellinu hafði maður dottið og slasast á mjöðm en í hinu hafði maður hrasað og fengið skurð við auga. Mikið var um slagsmál í miðbænum síðastliðna nótt. Slógust tveir menn og annar þeirra var vopnaður hníf. Skömmu seinna var tilkynnt um verulega æstan mann vopnaðan golfkylfu. Maðurinn reyndi að flýja lögregluna og hlýddi ekki fyrirmælum hennar og hlaut að launum handtöku og gistingu í fangaklefa.
Tilkynnt var um ryskingar í bifreið sem var á ferð. Hópslagsmál brutust út í miðbænum þar sem tveir aðilar voru vopnaðir, annar var með hníf en hinn hamar. Báðir voru þeir handteknir en látnir lausir skömmu síðar. Lögregla fékk þá tilkynningu um önnur hópslagsmál en þeim var lokið þegar lögreglu bar að garði. Ölvaður maður reyndi að finna sér far heim með því að reyna að stöðva bíla og hoppa fyrir þá úti á miðri götu. Lögreglan útvegaði manninum leigubíl.
Þá var umferðarslys í Vesturbæ en þar hafði ökumaður ekið bifreið sinni ofan í holu. Ekið var á hjólreiðamann sem skaðaði ekki en hjól hans var laskað, ökumaður flúði vettvang. Maður reyndi að komast inn í bíla í þeim tilgangi að skemma eignir, sá fékk að gista í fangaklefa lögreglunnar. tilkynnt var um fjölmörg innbrot í bifreiðar í Vesturbænum. Brotnar rúður og munum stolið úr þeim.
Að auki var mikið um hávaða- og ölvunartilkynningar.