Lögregla var kölluð til ásamt sjúkraliði í miðborginni í gærkvöldi vegna bráðra veikinda á veitingastað. Þegar komið var á vettvang kom fljótt í ljós að veikindin reyndust minniháttar. Vegfarandi við staðinn reyndist vera ósáttur með viðveru lögreglu og kýldi hann lögreglumann fyrirvaralaust í andlitið. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa lögreglu en verður hann kærður fyrir að hindra lögreglu að störfum, segja ekki til nafns, vörslu fíkniefna ásamt því að hafa beitt opinberan starfsmann ofbeldi.
Síðar um kvöldið veittist ölvaður aðili að starfsmanni veitingarhúss. Lögregla var kölluð til en þegar maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu var hann handtekinn. Í Breiðholti varð lögreglumaður á frívakt vitni að fíkniefnaviðskiptum tveggja manna. Hann tilkynnti það til samstarfsfélaga sinna sem voru á vakt sem fóru strax á vettvang og stöðvuðu meintan fíkniefnasala. Maðurinn hafði fíkniefni í fórum sínum. Þá sinnti lögregla útköllum vegna tveggja líkamsárása í heimahúsum þar sem einn aðili var handtekinn. Auk þess sinnti lögregla reglubundnu umferðareftirliti.