Fyrir 23 árum síðan, þann 30. júní árið 2000, gerðust þeir voflegu atburðir að níu manns krömdust til bana og 26 manns slösuðust til viðbótar á Hróarskelduhátíðinni þegar Bandaríska gruggsveitin Pearl Jam kom fram á appelsínugula sviðinu. Allir hinir látnu voru karlmenn á aldrinum 17 til 26 ára en auk þeirra slösuðust tveir mjög alvarlega.
Greinarhöfundur, ásamt fjölmörgum Íslendingum, var á staðnum þegar atburðirnir gerðust, þá tvítugur að aldri.
Árið 2003 hafði Contactmusic það eftir söngvara Pearl Jam, Eddie Vedder, að 40 þúsund áhorfendur hafi verið mættir á tónleikana en um 100 þúsund miðar voru seldir á hátíðina það árið og því er erfitt að meta nákvæmlega hversu margir voru saman komnir. Nokkuð hafði rignt að deginum og aðstæður eftir því; jörðin var einhversstaðar á milli þess að vera mold og drulla.
Þegar tónleikarnir hófust um klukkan hálf ellefu að kvöldi til hafði greinarhöfundur komið sér kyrfilega fyrir við eitt af þeim lágu, bogadregnu járnriðum sem komið hafði verið fyrir til að hafa stjórn á mannfjöldanum nálægt sviðinu. Fátt annað var til að halda sér í og það var strax útséð að það yrði troðningur.
Þegar tónleikarnir svo hófust var ógerningur að halda sér í nokkuð því mannhafið minnti helst á einhverskonar náttúruhamfarir. Á köflum var troðningurinn þannig að fæturnir snertu varla jörðina og fólk hélst á lofti vegna þrýstings frá efri búkum fólksins í kring.
Það virtist ógerningur að reyna að koma sér aftar í gegnum linnulausan þrýstinginn frá mannhafinu sem tók stefnuna á sviðið þannig að fyrr en varir fann greinarhöfundur sig fremst við sviðið. Það varð fljótt greinilegt að fólkið sem gæslufólkið var að toga upp úr mannhafinu var ýmist örmagna, meitt eða við litla meðvitund. Undarlegar ójöfnur mátti finna undir fótunum en ógerningur var að líta niður til greina hvað þetta gæti verið en seinna kom á daginn að fólk hafði troðist undir.
Fljótt varð ljóst að það var nauðsynlegt að komast úr þvögunni en það var gerlegt með því að mjaka sér til hliðar þar sem þrýstingurinn var minni.
Á minnst tveimur stöðum í mannhafinu urðu til einskonar hringiður en svo virðist sem að einhver hafi dottið með þeim afleiðingum að þrýstingurinn bjó til keðjuverkun þar sem fólkið í kring féll svo ofan á þann sem datt. Úr varð einskonar hola, á að giska 2-3 metrar í þvermál, þar sem fólk við brún hennar féll ofan í hana en þeir sem voru þegar í holunni börðust við að skríða undan öðru fólki í átt að brúninni.
Söngvarinn grét á sviðinu
Sumir tónleikagesta höfðu tekið upp á því að príla upp og dýfa sér ofan á mannhafið og láta það bera sig en einhverjir þeirra enduðu í hringiðunum.
Greinarhöfundur togaðist í átt að einn slíkri holu á leið sinni út úr mannhafinu og féll í hana. Átökin sem þurfti til að komast upp úr henni voru gríðarleg en við brúnina endurtók sagan sig og átökin tóku við aftur.
Tónleikarnir voru svo stöðvaðir. Söngvari hljómsveitarinnar grét á sviðinu og bað fólk að færa sig til baka um nokkur skref og við það varð mannhafið viðráðanlegra en skaðinn var skeður. Fólk hafði látið lífið.
Eftir hátíðina var ráðist í úrbætur af hálfu aðstandenda hátíðarinnar til að tryggja öryggi gesta en minnstu munaði að Pearl Jam hefði lagt upp laupana í kjölfar þessa hörmulegu atburðar.
Hróarskelduhátíðin er enn haldin árlega og ekkert viðlíka atvik hefur orðið síðan.