Perla Magnúsdóttir, leiðsögumaður og fararstjóri, varð fyrir því óláni á afmælisdegi sínum að aka aftan á kyrrstæðan bíl í Skeifunni. Hún beið eftir eiganda bifreiðarinnar til að gera upp tjónið. Perla bjóst ekki við þeim viðbrögðum sem hún fékk þegar eigendur bifreiðarinnar komu á vettvang óhappsins.
„Að hitta svona fólk gefur manni fullvissu um að framtíðin sé björt. Var annars að koma úr nammileiðangri í Hagkaup, þegar atvikið gerðist. Það mætti segja að nammipokinn hafi verið extra dýr í þetta skiptið,“ segir hún í samtali við Mannlíf. En viðbrögð tjónþolanna urðu í þá veru að hún gleymir aldrei atvikinu.
Perla skrifaði um atvikið á samfélagsmiðla og rakti þar alla söguna.
„Hrós dagsins fær þetta yndislega unga par sem eru með mér á myndinni. Mér tókst að klessa á bílinn þeirra á bílastæði í Skeifunni í dag, og beið eftir þeim þangað til þau komu úr búðinni til að gera skýrslu.
Þar við vorum að spjalla saman og bíða eftir Árekstur.is þá datt það út úr mér að ég ætti afmæli. Hverfur þá stelpan í burtu í smá stund og kemur svo til baka hlaupandi með blöðru handa mér úr Partýbúðinni.
Svo segja þau:
“Þú skalt sko alls ekki láta þetta smáóhapp eyðileggja daginn fyrir þér. Við erum öll mannleg og við erum svo þakklát að þú beiðst eftir okkur og gerðir skýrslu en keyrðir ekki burtu.”
…Sumt fólk eru einfaldlega englar í mannsmynd! Það er dásamlegt að verða á vegi þeirra og upplifa kærleikann og gleðina sem þau senda út frá sér!!
Ef einhver þekkir þetta flotta unga fólk, endilega minnið þau á hvað þau eru dásamleg og eiga stóran þátt í því að gera heiminn að betri stað!“
Perla hefur verið dugleg að fjalla um jákvæð málefni og hvatningu á instagraminu sínu @perlamagg segist hafa fundið það extra dýrmætt að hitta þetta frábæra fólk.